Litli og stóri... Hilmir og Valtýr

30 apríl 2006

Hilmir á níunda mánuði

Enn ein tönnin sýndi sig í morgun, og þar með færði okkur útskýringuna fyrir sífelldum gráti drengsins uppúr svefni í nótt og nóttina þar áður..... framtennurnar eiga líka að vera hvað sárastar fyrir svona litla góma. Þar með er Hilmir komin með tvær í efri og þrjár í neðri en satt að segja sýndist mér vera enn ein á leiðinni í efri gómi þannig að þetta brýst fram á ógnarhraða. Verður orðin fulltenntur áður en við vitum af !
Hilmir er núna næstum 8 1/2 mánaða og er þetta efst á "skemmtilega" listanum hans ;
- láta leika brúðuleikhús fyrir sig. Nægir jafnvel að láta tóm föt ganga og tala... alltaf hlær hann jafn dátt og bíður spenntur eftir næsta atriði.
- Teletubbies ! Þrátt fyrir heit loforð mín um að láta hann aldrei horfa á þetta var Ingó á sjónvarpsstöðvarflakki ekki alls fyrir löngu og lennti óvart á þessu sjónvarpsefni á BBC. Erfitt að snúa við eftir að hafa séð andlit Hilmis ljóma af gleði.
- leika sér með plastflöskur.... endalaust gaman...
- fá uppáhaldsmatinn (fisk og kartöflur með smjöri)
- fá einhvað til að naga; matarkex, skorpur, hrökkbrauð, þurr og pínu hörð rúnstykki sem hægt er að bleyta upp með slefi.
- komast í "það sem ekki má skoða" einsog fjarstýringar, lyklaborð og tölvumýs. Verða laaaangar þagnir á heimilinu þegar það gerist.
- vera keyrður um í vagninum úti og skoða hluti, fólk og dýr.
- reyna að standa uppvið, ekki fyrr farin að skríða en að kemur að næsta "challenge".

25 apríl 2006

Undrabarnið okkar á Öppna förskolan

Posted by Picasa
Hilmir kom skríðandi á móti mér þegar ég kom heim úr vinnunni í dag. Fyrstu skriðskrefin voru víst tekin í morgun með óstyrkum fótum en eftir því sem líða tók á daginn varð hann öruggari og þeysist núna um einsog hann hafi bara aldrei gert annað.
Í dag klappaði hann líka saman höndum meðvitað með báðum lófum opnum. Hingað til hefur bara ein hendin opnast og rykkjóttar hreyfingarnar.
Myndina tók Ingó á öppna förskolanum í dag (með lófatölvunni sinni). Þarna sést Hilmir sigri hrósandi og önnum kafin eftir að hafa verið búin að hreinsa hillurnar af dóti, dreifði því skipulega kringum sig og grandskoðaði.

23 apríl 2006

8 mánuðir og fullt búið að gerast

Posted by Picasa
Hilmir fagnaði 8 mánaða tímamótum sínum á Íslandi með ýmsum hætti, svo upp sé talið :
- komst svooo nálægt því að skríða... getur núna notað bæði hendur og fætur á "réttan" hátt en á bara eftir að tengja þetta tvennt og komast áfram (fer ofsa hratt afturábak!)
- fékk sér tvær tennur í viðbót; eina frammtönn í efrigóm og eina til hliðar í neðri. Á eftir að líta frekar skakkt út svona með samtals þrjár í neðri og aðeins eina í efri ;)
- fór að nota vísifingurinn til að fikta, pikka og pilla í stað þess að krafsa með allri hendinni. Benti líka í fyrsta sinn... og það á sjónvarpið !
- fattaði hvernig ætti að reisa sig frá liggjandi stöðu og upp í sitjandi
- var svæfður í fyrsta skipti af öðrum en mér eða Ingó. Við fórum nebblegast í leikhús og Ingibjörg amma svæfði og passaði. Hann tók þessu með jafnaðargeði og var jafn þægur að sofna einsog hjá okkur.
- eignaðist sér uppáhaldsmat. Það ku vera íslensk ýsa með soðnum kartöflum og smjéri. Getur étið það í massavís án þess að blikna.

Annars var Íslandsferðin rosa fín og Hilmir naut athyglinnar og allra "nýju" leikfangana innilega. Flugferðirnar báðar voru líka óvenju snuðrulausar. Flugfreyjurnar höfðu meira að segja orð á því hvað hann væri þægur ! Við Ingó erum nú bæði með próf í "skipta-á-kúkableyju-í-3000-feta-hæð-á-minnsta-klósetti-ever".

15 apríl 2006

Páskastrákur í ljósmyndafyrirsætuleik

Posted by Picasa
Posted by Picasa
Hilmir var í þokkalegasta páskafíling í morgun þegar við vöknuðum á dýrindis sólríkum næstum-því-sumardegi í sumarbústað á Íslandinu góða. Hann var þessvegna strippaður niðrað bleyjunni, skellt á hreindýraskinnið og tekin smá myndasería í tilefni dagsins :)
Útkoman var hin ágætasta og við þurfum ekki lengur að hafa samviskubit yfir að eiga ekki "flottar og fínar" smábarnamyndir af honum frumburði okkar.

10 apríl 2006

Nýjar myndir á heimasíðuna okkar...


Vorum að enda við að setja nýjar myndir inná heimasíðuna... myndir frá því í febrúar og mars. Fer ekkert á milli mála að við erum orðin latari við að uppfæra myndirnar á síðuna, fyrst var þetta á vikufresti, svo mánaðarfresti og núna algjört letilíf á tveggjamánaðafresti ;) Bót á máli að ég er dugleg við að bæta hérna inná bloggið ekki satt !?
Annars er þetta uppáhalds myndin mín af honum af þessum nýjustu... matargleðin í hámarki...
gulrót er góð !

09 apríl 2006

Róla róla

Posted by Picasa
Posted by Picasa Fengum okkur labbitúr í þvílíka dýrindis vorveðrinu sem er búið að vera hérna um helgina. Rákumst á róluvöll og gátum ekki stillt okkur um að máta Hilmi oní eina svona ungbarnarólu... og helduru ekki bara að hann hafi smellpassað ! Honum fannst þetta alveg afskaplega spennandi en jafnframt skrýtið... ("Víngsast svona fram og tilbaka ?? ókeeeeiii")
Annars er allt annað líf að þurfa ekki að dúða drenginn einsog pólarfara í hvert sinn sem maður ætlar út með hann. Vetlingana er hann sjálfur ábyggilega fegnastur að vera laus við !

07 apríl 2006

Páskar + Ísland = satt

Ákváðum í snarhasti að koma til Íslands um páskana. Föttuðum að ef við myndum ekki gera það núna yrði engin íslandsferð farin á árinu og það er náttlega bara ekki hægt ;) Ingó fer á ferðapunktum en við Hilmir borgum einhverja smáaura fyrir þannig að þetta verður ekki blóðug ferð fjárhagslega séð.
Verðum 10 daga á landinu, frá 12.-22. apríl og ætlum að gera okkar besta til að nýta dagana vel og vandlega. Hlakkar minnst til að sjá hvernig tímamismunurinn eigi eftir að fara í Hilmi.... við erum mjög sátt við næturrútínuna hans (vaknar um 7-8 leytið á morgnana) en það á eftir að vera minna gaman á íslenskum tíma ef hann ætlar að fara á fætur og kalla á selskap og þjónustu kl 5 !!
Furðulegt nokk þá verður þetta þriðja flugferð okkar Hilmis fram og tilbaka en jafnframt fyrsta skiptið sem við eigum von á að Ingó sitji með okkur ! Seinast sátu hann og Elísa nebblega aftar í vélinni meðan ég og Hilmir húktum ein og yfirgefin við hliðina á bláókunnugum manni sem gerði sitt besta að horfa EKKI á brjóstagjöfina... frekar erfitt í þriggja tíma flugi.

05 apríl 2006

Æ æ.... æla

Aumingja Hilmir... ældi einsog múkki í gær og var svo slappur að augun rúlluðu aftur í haus, varð hvítur sem lak, fölur og ískaldur. Við Ingó skiptumst á því að ganga um með hann og reyna að láta honum líða sem best því hann vildi hvorki liggja, sitja eða vera uppá öxlinni á okkur. Þau urðu því ansi mörg handtökin við þetta ásamt því að skipta tvisvar um alklæðnað á okkur öllum þrem og rífa af hjónarúminu.
Endaði á því að hann steinsofnaði í fanginu á pabba sínum, var lagður í rúmið sitt (sem ég var búin að æluverja eins vel og hægt er) og svo fylgdumst við með og biðum eftir hvort hann yrði verri eða fengi hita.
Ekkert gerðist !
Hann vaknaði svo einsog venjulega til að fá að drekka og sló upp augun í morgun kl. 7.20 ásamt því að gefa okkur breitt snuddufyllt bros.
Hættan liðin hjá.
Og foreldrarnir dæsa stórt.
*HJÚKK*

03 apríl 2006

Hláturskast

Posted by Picasa
Það er sko ekki erfitt að fá Hilmi til að taka hláturskast og ófáar myndirnar og stuttvídeóin sem við erum búin að taka af þessu... enda fær hláturskastið hans oftast okkur til að flissa og hlægja líka ;)
Fórum öll fammilían á ungbarnaeftirlitið í dag í BOEL-próf Hilmis og lengd+þyngdarmælingu. BOEL prófið er einskonar heyrnarpróf og reyndist það "ófullnægjandi" í þetta sinnið, líklegast vegna þess að hann er nýbúin að vera kvefaður og var þessvegna ekki að heyra alveg jafn vel með báðum eyrunum sínum. Hinsvegar vantaði ekkert uppá kílóin hjá drengsa, orðin heil 9,9 kíló sem er aukning uppá 1,1 kíló á 1 1/2 mánuði ! 72 cm er hann svo á lengdina.

02 apríl 2006

Áskorun svarað

Ragga skoraði á mig.... fannst skemmtilegra að svara því hér á þessu bloggi heldur en á nýja uppskriftablogginu mínu (enda á ekki að vera neitt þar nema matar- og uppskriftaumræða ;)).

Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina.
1. Rólóvöllurinn í Fossvogi. Var þar heilt sumar að EKKI róla börnum eða leika of mikið við þau... fóstrurnar tvær vildu ekki að börnin yrðu of háð því að láta hafa ofan af fyrir sér. Myndi skemma letilífið þeirra. Varð þessvegna mesta letisumar EVER hjá mér.
2. Verslunarstjóri í Vídeóhöllinni. Þegar maður er tvítugur nær maður að vinna 12 tíma á dag næstum alla daga vikunnar í 2 ár áður en maður verðu útbrenndur og leiðinlegur. Bíómyndafróðleikurinn er þó gríðarlegur fyrir vikið.
3. Sölumaður í heildverslun. Seljandi Schwarzkopf (hvar annars staðar gæti ég skrifað það án stafsetningarvillu?) í apótek, hárgreiðslustofur og kaupfélög. Entist þar í 3 mánuði áður en ég sótti um í núverandi starfi mínu.
4. Aðstoðarmanneskja og uppvaskari í eldhúsinu í Skíðaskálanum í Hveradölum. Æði.. .loved it... uppáhaldsstarfið mitt. Kynferðisleg áreitni í hámarki, lærði bönsj um matseld sem nú er mitt hjartans mál.

Fjórar kvikmyndir sem ég get horft á aftur og aftur.
1. Christmas Vacation... "Kids... don´t try this at home!"
2. Lord of the Rings trílógíuna einsog hún leggur sig
3. Top Gun, fór meira að segja á hana í bíó fyrir nokkrum árum síðan !
4. Station Agent..... feelgood mynd mínus Hollywood með sætum dverg í aðalhlutverki.

Fjórir staðir sem ég hef búið á.
1. Kollegí í Köben 5-8 ára. Í mínum huga var þetta gríðarstór íbúð. Veit betur núna. Varð stórasystir, fékk lús, kyssti strák inní geymslu, hélt tombólu með bestu vinkonunni sem bjó á hæðinni fyrir ofan, datt af hjólinu og fékk heilahristing, stakk puttanum í dularfullan poka á bensínstöðinni og fékk raflost, rændi nammi á bensínstöðinni með áðurnefndri vinkonu og komst upp með það.
2. Barónsstígur 78. Nýfædd og svo aftur eftir danmerkurdvölina til 12 ára. Óla langamma á efri hæðini, sérherbergi í fyrsta sinn, garður til að tjalda í ófáar nætur, minnsta eldhús í heimi, bar út Moggann, endalaus mínídúkkuleikur í neðstu hillunni inni hjá mér með Kristínu vinkonu og mamma að biðja mig að taka það til, hlaupabóla.
3. Haðaland 1. Hjá afa og ömmu eftir að uppúr sauð í kommúninni sem ég bjó í í 3 mánuði. Fór þangað slypp og snauð, skuldug og peningalaus. Fékk ró og næði til að vinna einsog brjálæðingur, djamma einsog enn meiri brjálæðingur og hlaupa af mér hornin. Tók mig 2 1/2 ár. Fann svo Ingóinn minn og fór að búa mér til alvöru heimili.
4. Lönguhlíð. Fyrsta alvöru heimilið mitt. Bara ég og Ingó. Æðisleg íbúð þarsem sólin steig réttu megin hússins og settist hinummegin. Áttum fá húsgögn en það var í lagi því leigusalarnir skildu eftir það sem okkur vantaði. Grétum næstum því yfir að flytja þaðan burt.

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum.
1. Portúgal. Djammferð ævinnar með Taby vinkonu. Drukkið á hverju kvöldi og legið í sólbaði á daginn. Ekkert nytsamlegt gert enda eiga svona ferðir ekki að vera þannig. Kynntumst allskyns ókunnugu fólki á ýmsum aldri. Bara gaman.
2. Þýskaland- Ítalía með Ingó. Fyrsta sumarfríið okkar. Degi of seint í flugið og lentum í vitlausri þýskri borg. Keyrðum Autobahn yfir allt Þýskaland á einum degi til að lenda á réttri áætlun. Feneyjar, Gardavatn, ófá gistihús með og án loftkælingu. Ég kann að lesa kort, Ingó að keyra. Fullt af upphafsminningum sambandsins sem varð að hjónabandi.
3. Amsterdam með Ingó. Rauðahverfið, "kaffihús" og hórur öskrandi "I do you both!!!".
4. New York með Ingó að heimsækja Ólöfu og Atla. Aldrei verslað jafn mikið á ævinni. Fórum ekki útá frelsisstyttu heldur notuðum tímann frekar að fara í fleiri búðir. Festumst í outletti fyrir utan bæinn og komum ekki heim fyrr en að ganga miðnætti... svo mikið var kaupæðið. Íslendingur í utlöndum hvað ?

Fjórar síður sem ég skoða daglega.
1.
www.familjeliv.se
2.
www.mbl.is
3.
www.barnaland.is
4.
www.island.se

Fjórar bækur sem ég les oft.
1. Birth and Beyond; from minus 9 months, plus 9. Uppflettirit um meðgöngu og fyrstu 9 mánuði í ævi barns.

2. Lord of the Rings... tek hana upp reglulega til að reyna að komast áfram... gefst svo upp eftir smástund... vil samt svo gjarnan !
3. og 4. Hinar ýmsustu uppskriftabækur, á fjölmargar og glugga oft í þeim.

Fjórir staðir sem ég vildi vera á núna.
1. Balí með Ingó og Hilmi (og einhverri indælli barnfóstru)
2. Ein á lúxus helgarspa
3. Í London eða New York að versla með góðum shopping buddy
4. Á Íslandi með fjölskyldunni minni

Fjórir sem ég skora á að gera þetta.
Nú stranda ég á upptalningunni því að alltof margir skemmtilegir sem ég þekki blogga ekki ! (hvernig er það hægt !?) eða eru þegar búnir að svara svona áskorun.... isss... skora þá bara á stórvini okkar brottflutta;
Íris og/eða Óli ásamt Emilíunni