Litli og stóri... Hilmir og Valtýr

17 október 2009

Svar að innan

Hilmir fann í fyrsta skiptið almennilegt spark frá litla bróður núna í kvöld. Lágum og vorum að hafa það notalegt uppí rúmi eftir kvöldmatinn, lesa og spjalla. Það fór svo yfir í að hann vildi bera krem á bæði mig og pabba sinn (svo við héldum nú mýktinni) og að sjálfsögðu fékk hann það. Mallakútur fékk líka smá krem (svo litli bróðir verði ekki þurr) og bumbubúanum litla varð svo mikið um hamaganginn... og raddirnar þarna fyrir utan kúluna sína... að hann gaf Hilmi spark beint í lófann.
Hef sjaldan séð jafn "priceless" svip á Hilmi. Hann varð svo hissa og glaður að fá loksins að finna almennilega fyrir þessu sem ég hef talað um við hann. Þessi staðreynd um að nýr fjölskyldumeðlimur væri inní maganum á mér fékk alveg glænýja vídd. "Ég fann!" og stærðsta bros í heimi á eftir að sitja lengi og vel í minningunni. Óborganlegt.

Annars er það helst í fréttum að ég er nú komin með hina víðfrægu svínaflensusprautu. Óléttar konur eru í algjörum forgangshóp hérna í Svíþjóð svo ég fór hlýðin niðrá mæðravernd á föstudaginn og lét góðlátlega ljósmóður stínga mig með risanál. Svo stórri risanál með svo miklu eitri í að ég er helaum í hendinni eftir þetta. Ekki laust við að ég væri svo hálf flensukennd í dag með pínuponsuhita og hausverk. Vona bara að það verði farið á morgun. Við bumbubúi erum þá allavega orðin svínavarin... fyrir þetta árið allavega ;)

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home