Litli og stóri... Hilmir og Valtýr

18 janúar 2010

Frívikan sem ekki varð....

Ekki byrjar nú undirbúningstíminn minn vel. Eftir langar og strangar vinnuvikur við ritgerðarskrif hafði ég séð í hyllingum að geta legið í leti í að minnsta kosti heila viku áður en mögulega-kannski litlibróðir ákveði að láta sjá sig. Vikan átti aðallega að fara í að horfa á og telja bólgnar tærnar, þvo ponsulitlu fötin og sjá til þess að allir kvistirnir í hreiðrinu lægju á sínum stað.
En í staðinn sit ég uppi með endurskrif á ritgerðinni sökum tæknilegra örðuleika (mistaka) sem urðu í gagnavinnslunni. Yndislegt alveg hreint... eða þannig. Vikan styttist því um helming *gúlp* *snökt*.

Hreiðrið er annars á góðri leið með að verða tilbúið. Í gær skrúfuðu Ingó og Hilmir saman gamla skiptiborðið hans Hilmis og öllu var komið fyrir á því. Hengdum upp lítinn óróa fyrir ofan það og dáðumst að því hvað það tæki sig vel út þarna á litla baðherberginu okkar.
Hilmir spyr núna á hverjum morgni hvort að það sé í dag sem við Ingó ætlum að fara á spítalann að sækja litlabróður. Vonandi getum við bráðum sagt já við þeirri spurningu. Bara spurning hvort ég hafi náð að láta mér leiðast (lesist: slaka á heima án skólaverkefnisins) áður en það gerist ;)

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home