Litli og stóri... Hilmir og Valtýr

20 júlí 2009

Fyrsta uppskeran

Við kotbændur þrömmuðum útí gróðurreitinn okkar (kólónílotinn) ásamt hinni kotbændafjölskyldunni núna á sunnudaginn. Þar ákváðum við eftir miklar spekúlasjónir að taka upp fyrsta kartöflubeðið (af samtals 5) og þær gulrætur og rauðbeður sem væru orðnar nægilega stórar til suðu.
Afraksturinn má sjá hér á efstu myndinni. Kartöflurnar voru vinsælastar hjá krökkunum enda mikil fjársjóðsleit sem hófst hjá þeim um leið og búið var að stínga uppúr moldinni. Þeim var samviskusamlega safnað saman í bala og skipt bróðurlega milli heimilanna tveggja.

Posted by Picasa Þarna erum við Hilmir í tínslunni. Reyndar fékk Hilmir greyið ekki að leika lausum hala þarna í beðunum því að sumt grænmetið er ennþá svo pínuponsulítið að það þarf að gefa því nokkrar vikur í viðbót þarna í moldinni. Hilmir og Ida létu sér því nægja að sulla smá í vatnskrananum og klippa blómvendi handa mömmunum sínum með dótaskærunum hennar Idu.
Í gærkvöldi var því ofnbakaður lax með nýuppteknum soðnum kartöflum, gulrótum og búðarkeyptum smjörbaunum. Að sjálfsögðu með vænni klípu af smjöri (og salti handa okkur eldri en 4 ára). Er ekki frá því að grænmetið hafi bragðast alveg extra vel í þetta skiptið. Meira að segja Hilmir borðaði gulræturnar með bestu lyst (búðarkeyptum gulrótum fúlsar hann við) ! Rauðbeðurnar eru svo á dagskrá í kvöld með fetaosti og valhnetum. *kjams*

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home