Litli og stóri... Hilmir og Valtýr

28 janúar 2010

Náðardagar


Algjör afslöppun og letilíf hefur einkennt undanfarna daga hér á heimilinu... allavega hjá mér ! :) Hef náð að slaka vel og vandlega á, sofa eins mikið og hægt er, baka, elda, þvo og skipuleggja heimilið frá toppi til táar. Og svo horft á sjónvarpið og prjónað þess inná milli.
Liggur við að ég geti alveg sætt mig við aðra svona viku ef litlabróður skyldi langa til að hafa það huggulegt inní kúlunni sinni aðeins lengur ;)
En annað myndi stóribróðirinn Hilmir segja ef hann yrði spurður. Hann vill helst hitta brósa sinn sem allra fyrst. Við höfum fengið að heyra ótrúlegustu sögur af þeim bræðrum (sögur skapaðar af Hilmi sjálfum). Til dæmis um hversu líkir þeir eigi eftir að verða þegar þeir eru stórir og farnir í "fullorðinsskóla" (Háskóla). Þá verði þeir þar að auki ekki lengur með krakkanef heldur fullorðinsnef einsog á okkur foreldrunum.
Vantar ekkert uppá ímyndunaraflið í drengnum.
Það er allavega allt tilbúið fyrir komu þess minnsta. Öll nauðsynleg húsgögn skrúfuð saman og stillt upp. Komin lánsvagga á heimilið. Búið að þvo öll litlu fötin og raða þeim oní skúffu. Birgja skiptiborðið með ogguponsulitlum bleyjum og tilheyrandi. Hreiðurgerð af bestu gerð sem ég loksins fékk að framkvæma í ró og næði :)

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home