Litli og stóri... Hilmir og Valtýr

30 október 2007

Tungumálaflækja

Eins og kannski margir (eða ekki svo margir) vita eru mörg orð í íslensku og sænsku keimlík. Þess vegna reynist mörgum íslendingnum auðvelt að læra sænskuna, þarf ekki að breyta miklu frá móðurmálinu, vatn er t.d. "vatten" og blóm "blomma". Auðvelt ekki satt ?

Nei ekki aldeilis !

Þegar við vorum að venja Hilmi inná nýja leikskólann var ég beðin að fylla út smávegis eyðublað þar sem fram kæmi fjölskyldusagan okkar, hvaðan við værum, hvernig líf Hilmis hingað til hefði verið og hvaða væntingar við bærum til veru hans á leikskólanum. Þetta fyllti ég út samviskusamlega og lét koma fram að ég vonaðist til að fóstrurnar myndu meðal annars "ge honom den aga som han behöver för att utvecklas" ("veita honum þann aga sem hann þyrfti til að þroskast...") osfrv.
Kom svo seinna í ljós þegar ég var að spjalla við aðrar mömmur á innskóluninni að sænska orðið AGI væri afskaplega neikvætt orð og það lá við að þær litu mig hornauga þar til við gátum reitt úr tungumálaflækjunni að íslenski skilningurinn á aga væri barasta besta mál. Bara annað orð yfir uppeldi !
Einni mömmunni fannst þetta svo fyndið allt saman að hún endursagði söguna í brúðkaupi nokkrum vikum síðar. Og að lokum var þetta pikkað upp af einhverri ríkisútvarpsstöðinni sem hafði umfjöllun um þennan vandræðagang og um uppruna og notkun orðsins "agi".

Í ljós kom að sænska orðið agi þýddi upprunlega "uppeldi" en afbakaðist í áranna rás yfir það að vera hreinasta barnaofbeldi, kúgun og hvaðan af verra.

Þrátt fyrir þessa uppljóstrun ætla ég nú ekkert að fara að pína Svíana til að nota orðið í sinni upprunlegu merkingu. Held það flækji bara málin.
En einhvernvegin finnst mér ég (eða íslenska tungumálið yfirhöfuð) hafa fengið vissa réttlætingu ;)

2 Comments:

  • Ótrúleg saga þetta og að þessi mistúlkun hafi endað í brúðkaupi og útvarpi! Við vitum það auðvitað að þú ert alveg einstök Begga, en þetta slær næstum því íslensku stelpunni við sem í ræðu í partýi sagðist vera svo "glad och kåt" (glöð og kát vildi hún meina, en þýðingin verður glöð og gröð... á sænsku) yfir því að vera boðið... hahaha !
    Kveðja,
    Íris

    By Anonymous Nafnlaus, at 2:03 e.h.  

  • hahaha... ég elska svona sögur. Ég var einu sinni fyrir löngu síðan í partíi þar sem íslenskur strákur, sem ólst uppí Kanada og talaði mjög bjagaða íslensku, sagði okkur söguna af því þegar hann fékk nál í heilan en skyldi svo ekkert afhverju fólkið á slysó var endalaust að skoða á honum hausinn. Á endanum útskýrði hann á ensku: "I got a nail in the heel"! :) kv., Sandra í amó

    By Blogger Unknown, at 6:33 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home