Litli og stóri... Hilmir og Valtýr

29 október 2010

Bræður ? Ójá




Samanburður hefur sannreynt bræðerni Valtýs og Hilmis. Held það fari ekkert á milli mála en okkur finnst alltaf jafn gaman að skoða myndir af þeim á sama aldri og sjá svipinn.
Rétt tæplega 9 mánaða þarna báðir á þessum myndum.

28 október 2010

Myndavélafikt



Drógum fram "stóru" myndavélina okkar og bjuggum til ljósmyndastúdíó með bakgrunni, gæru og alles... alveg hreint ágætis afrakstur svona í fyrstu prufunni enda svo fallegar fyrirsætur sem við eigum ;)







10 október 2010

Stækkað aðeins ?!



Sami drengur. 8 mánuðum síðar.

Skriðtök



Valtýr er núna orðin jafn gamall Hilmi þegar sá síðarnefndi tók sín fyrstu almennilegu skriðtök, 8 mánaða og fimm daga. Það vantar ekki uppá æfinguna en einhvernvegin lætur hann sér nægja að toga sig áfram á höndunum í stað þess að láta hnén gera sitt. Er farin að ná býsna góðum hraða með þessari skriðtækni (sjá mynd) þannig að kannski hann láti sér það nægja.
Annars er hann komin með þriðju tönnina. Sú ku vera uppí efra gómi.

06 október 2010

8 mánaða skýrsla

Valtýr Karl formlega orðin 8 mánaða.
Ekki farin að skríða ennþá en vandar sig þeim mun meira við að standa og ganga. Getur gengið meðfram sjálfur en lætur sko alveg vita þegar hann vill fara í spássitúr um íbúðina með aðstoð (býður fram hendina sína í áttina að manni og *ööh! ööh!*). Hann getur ekki setist upp úr liggjandi stellingu en getur staðið upp sjálfur frá sitjandi. Þó skriðtæknin sé ekki komin alveg á hreint þá getur hann snúið sér í hringi á maganum og dregið sig áfram á höndunum örstuttan spöl ef mikið liggur við og einhvað óvenju spennandi er framundan. Hann getur veifað bless, sýnt hvað hann er stór og klappað. Tek fram að hann g e t u r gert þetta en gerir það ekkert endilega eftir beiðni... bara svona þegar vel liggur á honum ;) Blessveifið kemur til dæmis gjarnan þegar maður er hættur að veifa og hálffarin útúm dyrnar.

Hann er hættur að drekka mömmumjólk og er ágætlega duglegur að borða allan mat. Kannski ekki alveg jafn mikið matar-ryksuga einsog stóri bróðirinn, sem tróð í sig öllu sem látið var fyrir framan hann, en borðar alveg heila skammta af graut og mauki án vandræða. Pela fær hann fyrir lúranna sína og á morgnana til að lúllast aðeins áfram. Í nótt svaf hann fyrstu nóttina sína án þess að vakna neitt til að drekka í morgunsárið... vaknaði reyndar fyrir vikið úthvíldur kl 6 en iss hvað eru tveir hálftímar milli góðra vina ;)

Valtý finnst gaman að;
- brosa og "hlægja" en þá lokar hann augunum, hallar höfðinu aftur og skælbrosir svo sést í báðar tönnslurnar.
- fara útí vagn í labbitúr. Langskemmtilegast er að fara og gefa öndunum en þær koma svo nálægt vagninum að hann nær að virða þær vandlega fyrir sér.
- fá smá sjónvarpstíma og horfa á Baby Einstein þátt. Líkar misvel við þættina og lætur sko af því vita. Vinsælast er víst "numbers nursery" sem inniheldur mikið af handbrúðusenum.
- vera inní herbergi stóra brósa í göngugrindinni og fá að tæta allt neðanúr hillunum, að tæta í uppþvottavélinni er líka spennó
- fá að opna og loka hurðum, skápum, boxum. Hverju sem er með húni eða loki svo hægt er að sveifla fram og tilbaka.

og leiðinlegt að;
- láta skipta á sér, þolir hreinlega ekki að liggja útaf og láta afgreiða á sér bossann
- borða langar máltíðir. Hefur svo mikið að gera að hann má ekkert vera að þessu hangsi þarna í stólnum
- geta ekki komist áfram sjálfur. Að vera fastur sitjandi á rassinum eða liggjandi á maganum er stundum ansi vel pirrandi og þá lætur drengurinn heyra í sér.

Valtýr er annars orðin 9,5 kg og 71 cm.

05 október 2010

Sunnudagar í hverfinu




Hilmir á standandi deit á sunnudagsmorgnum með ástinni sinni einu henni Kötu. Hún er árinu eldri og byrjuð í skóla svo þau hafa ekki geta leikið saman einsog venjulega á leikskólanum. Þá er nú gott að mömmurnar geti samhæft aðgerðir og útiveru svo þau fari ekki of mikið á mis við hvort annað.
Núna þegar það er farið að hausta getur litlu kroppunum orðið dáldið kalt eftir hamaganginn þannig að síðasta sunnudag tók Kötumamman sig til og bauð uppá heitt kakó.
Á myndunum má sjá Hilmi í góðum félagsskap stelpnanna á leikvellinum. Við erum alveg glimrandi ánægð með að hann sé (vonandi) svona strákur sem fellur vel inn í hvaða kynjahóp sem er ;)

Tvö trikk í einni töku

Alltaf jafn gaman að því þegar börnin læra svona sirkúskúnstir. Og alltaf verður maður jafn rífandi stolltur af litla molanum ;)