Litli og stóri... Hilmir og Valtýr

29 apríl 2005

Skoðun á 23. viku

Enn er allt í ljósfríðum ljóma hjá Bingóbauninni og mér. Var í skoðun hjá ljósmóðurinni í morgun og hún var hæstánægð með allar tölur sem hún sá (blóðþrýstingur, blóðsykur, þyngd, hjartsláttur baunarinnar o.s.frv.) og sagði að legið og krílið væri allt á sínum stað og yxi og dafnaði sem skyldi. Er hundfegin því að þó að ógleðin hefði hrjáð mig aaaaaalltof lengi og ég virðist fá öll kvef og pestir sem mögulega eru að ganga þá virðist restin af kroppinum mínum vera að standa sig. Hef ekki (ennþá) fengið grindarverki eða íllt í bak né fætur, engin bjúgur... jah... virðist bara vera nokkuð hraust ! Tek samt fram að ég er þó ekki farin að hlaupa berfætt um engi og skóglendi með fangið fullt af sólblómum og mallann standandi útí loftið. Óléttugleðin ógurlega á semsagt ekki heima hjá mér... er ég kannski of rökrétt og niðurnjörfuð til þess ?

26 apríl 2005

Barnavagnagleði

Örlögin höguðu því svo að ég keypti lítið notaðan barnavagn í gær á spottprís. Vorum akkúrat búin að vera að ákveða okkur með hverskonar vagn við ættum að kaupa og vorum búin að fastákveða Brio Kombi vagn með loftdekkjum. Mætti í vinnuna nokkrum dögum seinna og þá kom á faxinu auglýsing frá einhverjum í Svissneska sendiráðinu sem var að selja 2gja ára lítið notaðan Brio Kombi vagn með loftdekkjum ! Var næstum of gott til að vera satt !! Fór í gær og hitti hjónin sem eru að selja vagninn og þau voru alveg yndisleg, vildu ekki hleypa mér út fyrr en þau væru búin að kenna mér á vagninn (sem er gott því þetta er einsog kínversk gestaþraut) og mér sýndist vagninn varla hafa verið notaður... var svo hreinn og fínn... sá varla á honum.
Keypti hann semsagt bara á staðnum á 3.800 SEK en til gamans má nefna að nýr svona vagn kostar um 7.000 SEK. So I make money yes :) Svo er bara spurningin hvort við þurfum ekki að reyna að troða vagninum inní geymsluna okkar þarsem hann fer ekki í notkun fyrr en eftir 4 mánuði....... verður fljótt að líða mar.....

21 apríl 2005

Fylgihlutir ungbarna

Er komin í barnavagna-skiptiborðs-baðbala-brjóstapumpu-pælingar... ef mar á nóg pening og pláss er hægt að kaupa um það bil ALLT milli himins og jarðar. En ég reyni nú að nota eins mikið af skynsemi einsog ég á í mínum kroppi og miða við að kaupa bara það sem mér finnst við þurfum á að halda nokkuð nauðsynlega og það sem við höfum yfirhöfuð pláss fyrir. Svo virðist sem flest allir hafi mismunandi skoðanir á þessum málum, t.d. varðandi skiptiborð. Heyri annarsvegar; "hvaaa... þú skiptir hvort eð er bara alltaf á rúminu ykkar" og "það er betra að hafa barnið fyrir framan þig í vinnuhæð á alvöru skiptiborði með allar græjurnar (smyrsl, vatn, bleijur o.sfr.v) innan seilingar".
Átti mjög "skemmtilegt" samtal við mömmu um daginn sem var að reyna að koma því inn hjá mér að ég þyrfti sko ekkert að vera að eyða pening í einhverja brjóstapumpu... mar bara HANDmjólkar sig !! Hugur minn leitaði í snarheitum til sumarsins sem ég eyddi í sveit við að mjólka beljur í 4 tíma á dag. Langar ekki að handmjólka mig.. noway.
Er nú þegar komin með lista yfir hluti sem mér finnst ég þurfa á að halda og svo lista yfir hluti sem mér finnst óþarfir, einsog t.d.:
- vagga, fáum hvergi að láni og viljum ekki eyða pening í einhvað sem barnið sefur bara hvort eð er í í nokkra mánuði og svo búið....
- sérstaka kúkableyjuruslafötu... þarf engra útskýringa við !
- næturljós fyrir barnið... við sofum í myrkri... why not baby too ?
- skiptiborð með inniföldu barnabaði og kommóðu.... RÁNdýrt !
- ungbarna HÁRBURSTA... þarf engra útskýringa við...
- ungbarnamjólk í duftformi og pelar... stóla í blindni á að ég þurfi ekki á svoleiðis að halda strax þarsem ég hef tröllatrú á getu og hæfni til að gefa brjóst úr mínum júgrum :)
Ætla líka að bíða með hluti einsog hoppirólur, leikföng, stól til að barnið geti setið og borðað með okkur o.sfr.v. Það ásamt fleiru getur beðið eftir að baunin stækki .....
Það versta við allar þessar pælingar er það að barnavöruverslanir hérna í Svíþjóð eru með glæpsamlega óhjálpfúst starfsfólk ! Allt einhverjar heilalausar ungar stelpur sem kunna ekkert að "selja" manni eitt né neitt (þó maður grátbiðji um það) heldur rétta manni bara bækling sem inniheldur allt nema verðið ! og segja manni að panta bara þegar mar er búin að ákveða sig. Held að Babyland ætti alvarlega að hugsa um að flytja inn nokkra tugi íslenska bílasölumenn og gá hvort yrði ekki bara rífandi sala !

15 apríl 2005

Vaxtakippur ?

Lítið að frétta af mér annað en að baunin virðist stækka með hverjum deginum... og þar af leiðandi minna og minna pláss inní kúlunni þannig að það er sparkað í mig innanfrá lon og don í mótmælaskyni. Kannski ekki mótmælaskyni, kannski er það bara að koma sér fyrir og láta vita af sér ? Svona "halló, hér er ég... ekki gleyma mér!". Fæ alltaf samviskubit ef ég leggst óvart á flöt á magann (uppáhalds svefn-stellingin mín) og það byrjar strax að láta vita af sér, eflaust allt í kremju þegar frúin leggst oná sig í öllu sínu veldi. Er farin að setja kodda fyrir framan mig þegar ég ligg á hlið svo ég fari nú ekkert "óvart" að leggjast á magann í svefni. Aumingja Ingó fær fyrir vikið voða lítið contact við mig.... tala nú ekki um hvernig það verður þegar ég innleiði Viggó aftur inní líf okkar.
Útskýring: Viggó er aflangur, þykkur og stór hvítur risa-koddi með appelsínugulri rönd sem skilur milli einsog til að aðgreina búk og andlit sem ég keypti í Ikea fyrir ekki svo löngu, vissi að hann kæmi að góðum notum til að liggja uppað, setja milli fótanna ef ég skyldi þjást af grindarverkjum, setja undir lappirnar þegar ég fæ náladofa osfrv. Ég veit ekki afhverju koddinn heitir Viggó... hann bara sagði mér það (p.s. nýja fína leðurtaskan mín heitir Nína, hlutir sem eru mér hjartfólgnir heita nöfnum..... no... I´m not crazy).

07 apríl 2005

Meðgöngujógað byrjað...

Fyrsti meðgöngujógatíminn var í gær, var voðalega "meðvituð" um sjálfa mig og fannst ég náttlega vera sú eina sem ekki þekkti neinn OG vera með minnstu kúluna ;) Einhver ósjálfráð samanburðarviðbrögð sem fara í gang þegar 15 óléttum konum er safnað saman í þröngum sal... allar fóru að gjóa augum á hvor aðra og mæla hinar út. Auðvitað allt á jákvæðan og léttan hátt, með bros á vör og glaðlegt "hej!" svo mér leið nú alls ekki ílla þarna inni... not at all.
Þessi tími fór aðallega í að kynna það sem í vændum var (jógalega séð) og æfa öndun sem aðallega er gegnum nefið. Öndunarparturinn var fyrir mitt leyti pínu erfiður því ég er nýbyrjuð að jafna mig eftir svakalegt kvef þannig að nefgöngin voru ekki beint tilbúin að taka að sér súrefnisinntöku fyrir allan líkamann !
Var annars að lesa mér til um svokallaðar "Lamaze" öndunaræfingar í gær, fannst þær alveg meika sens og prófaði svona lauslega að anda einsog mælt var með um leið og ég las textann. Um leið og ég byrjaði fór Bingóbaunin á miljón inní mallanum mínum og um leið las ég textann "prófaðu endilega að gera æfingarnar, eflaust áttu eftir að finna fyrir barninu fara á kreik þegar byrjað er að anda á þennan hátt enda er verið að reyna á vöðvana sem umkringja legið". TELL ME ABOUT IT ! Augljóslega virkar þetta ;)