Litli og stóri... Hilmir og Valtýr

28 febrúar 2010

Bless í bili amma

 

Bugga amma búin að dvelja hjá okkur síðan á þriðjudaginn. Margnýtt í að gæta minnsta eintaksins meðan eldað er, baða stærra eintakið og lesa fyrir svefninn, sauma myrkvunargluggatjöld, prjóna sokka, laga buxur og úlpur... ja... upptalningin gæti verið löng.

En í dag var komin tími til að segja bless í bili og keyra útá flugvöll. Hilmir lýsti því yfir strax í gær að hann myndi sakna hennar og það held ég að við eigum öll eftir að gera. Nú er bara að setjast niður með dagatalið og telja dagana frammað sumri þegar við fáum smá ömmuskammt aftur (og afaskammt, frænkuskammt, systraskammt osfrv osfrv).

Bless amma og takk fyrir okkur !
Posted by Picasa

26 febrúar 2010

3gja vikna Valtýr

Í dag er föstudagur. Sem þýðir að Valtýr er þriggja vikna í dag. Hann hefur notið undanfarinna daga við að láta móðurömmu sína sem er í heimsókn frá Íslandi dáðst að sér í hvívetna, drekka móðurmjólk og sofa. Og stækka !! Já ekki má gleyma því. Hann er búin að lengjast um einn sentimeter frá fæðingu og þyngjast vel og vandlega. Búin að þyngjast svo mikið að hann er búin að hoppa upp á næstu kúrfu fyrir ofan á skipulagsvaxtaritinu hjá ungbarnaeftirlitinu. Orðin heil 4.870 grömm :) Ágætt að fá enn og aftur staðfestingu á að mömmumjólkin sé að gera gott og litli unginn að fá nægju sína (og vel það!).

Í næstu viku ætlum við að fara að vinna í því að koma einhverskonar hversdagsskipulagi á litlu fjögurra manna fjölskylduna okkar. Hilmir "má" bara vera í leikskólanum frá 9-15 meðan foreldri er í fæðingarorlofi þannig að það þarf aðeins að endurraða morgun- og eftirmiðdagsrútínum. Valtýr sefur til 9 á morgnana ef hann fær að hafa sinn háttinn á en einhvað þarf að sannfæra hann um að sofna fyrr á kvöldin svo hann geti vaknað fyrr og komið í vagnalabbitúr með okkur Hilmi á morgnana. Veit ekki alveg hvernig maður sannfærir svona lítinn kút um að hnika líkamsklukkunni sinni.... ekki þurfti ég að hafa neinar svona pælingar þegar Hilmir var lítill ;)

19 febrúar 2010

Myndaorgía !!!

Ingó kveikti á heimasíðuperunni sinni. Já það var víst dulítið langt síðan nýjar myndir voru settar inn *hmmm*.
Svo hann vatt sér í verkið og setti saman best-of seríu fyrir árið 2008, 2009 og að sjálfsögðu "fæðingarseríuna" hans Valtýs.

Gefur allt á að líta hér á www.beogin.com.

18 febrúar 2010

Snuddan samþykkt

 

Hann Valtýr var á góðri leið með að koma sér uppá lagið með að nota mig sem snuð. Ekkert að því svosem þar sem það örvar brjóstagjöfina og allt það en þegar nætursvefninn skerðist niður í nánast ekki neitt því að lítil vera vill vera með einhvað uppí sér (og það ekki til að nærast!)... þá var mér hætt að lítast á blikuna.
Svo eftir skylduferðina í ungbarnaeftirlitið í gær þar sem staðfest var að kappinn litli væri búin að þyngjast vel og vandlega undanfarna dagana ákváðum við að byrja dudduþjálfunina samdægurs.

Og hann tók í fyrsta ! Trúði því varla sjálf en svoleiðis súpersáttur Valtýr sem lá í fanginu á mér og malaði með silkisílikontúttuna uppí sér (sjá mynd). Nóttin var líka töluvert betri en þær undanförnu. Bara tvisvar sem ég þurfti að svara kalli til næringar og restina tók duddan að sér ;)
Posted by Picasa

16 febrúar 2010

Fyrsta barnavagnaferðin




Loksins loksins gátum við drifið okkur út í smá göngutúr með litla peðið í vagni. Búið að vera svo fallegt vetrarveður undanfarnar vikur og ferlega súrt að hanga inni allan liðlangan daginn. Ástæðan hefur verið barnavagnaleysi en í gærkvöldi leystum við einfaldlega málið, keyptum notaðan vagn á Blocket og þurfum þá ekki lengur að pirra okkur á hversu svifaseinir DHL eru.

Valtýr brást annars voða vel við þessu nýja svefnplássi sínu. Var sofnaður í lyftunni á leiðinni niður og rumskaði ekki einusinni þar sem vagninn skoppaði um í snjófærðinni. Við létum okkur nægja lítinn hring svona til að byrja með en eigum örugglega eftir að ná að grandskoða nærliggjandi göngustíga á komandi mánuðum. Hlakka bara mest til að fá vorið beint í æð ! ;)



Posted by Picasa

14 febrúar 2010

Upprennandi burðarpokabarn ?

 

Hafandi reynsluna af því að hafa margnotað og ofnotað BabyBjörn burðarbeisli ákváðum við í þetta skiptið að prófa einhvað annað. Í burðarpoka/sjala frumskóginum eru til endalausir valmöguleikar og ákváðum við að prófa þetta einfalda Tri-Cotti teygjusjal sem er algjörlega imba- og aulahelt. Bara svippa því á sig og troða krakkanum inní. Og þar býr hann einsog lirfa í eggi... eða barn í móðurkviði réttara sagt ;) Frammað tveggja mánaða aldri verður þetta eina stellingin sem er í boði (sjá mynd). Sjáum til hversu lengi þetta verður vinsælt...
Posted by Picasa

12 febrúar 2010

Þyngdaraukningar

Velmegunarmæling á ungabörnum er fyrst og fremst mæld í grömmum. Þyngdargrömmum. Þetta erum við einstaklega meðvituð um eftir að hafa komið Hilmi á legg með tilheyrandi áhyggjum, þurrmjólkurábótum og snemmbúnu grautarsulli vegna lítillrar þyngdaraukningar.

Valtýr byrjar allavega á öðrum tónstiga en bróðirinn. Fyrir það fyrsta var hann þyngri við fæðingu og svo núna viku síðar er hann búin að ná upp fæðingarþyngdinni og heilum 100 grömmum betur en það ! 4.180 gr mældist hann hjá ungbarnahjúkkunni sem kom í heimsókn til okkar í dag. Hún staðfesti líka hversu óskaplega fallegur og fínn hann væri... ekkert að efast um semsagt ;)

11 febrúar 2010

Tveir gullmolar

 

Ein vinsælasta spurning sem brennur á vörum vina og vandamanna þegar innt er eftir fréttum af okkur nýstækkuðu fjölskyldunni er "hvernig tekur Hilmir svo bróður sínum?".
Svarið er; með miklum kærleika og forvitni.

Miðað við pínulitla og viðkvæma litla einstaklingin virðist Hilmir stór og klaufalegur. Það þarf mikið að minna hann á að fara varlega og passa hvar hann er með olnboga og hné... þetta minnir dálítið á karakterinn Lenny í myndinni "Of Mice and Men".. ("Eeeeaassy there Lenny"). Hann vill bæði knúsa, kyssa og klappa í heitfengum kærleiksbrima að það er stundum erfitt að ráða við það enda er hann nú bara 4 ára þessi stóri stóri bróðir :)

En allt kemur þetta frá góðum stað og stóru hjarta sem á örugglega eftir að reynast þessari litlu veru vel í framtíðinni.
Posted by Picasa

09 febrúar 2010

Litlu lappirnar

 

Valtýr er með ofursæta og dáldið spes fætur. Pínu krumpaðir og svo blakar hann þeim alla leiðina aftur að fótlegg. Eins og froskur eða baksundsfótatak hjá keppnismanni ;)
Barnalæknirinn sagði þetta ekkert til að hafa áhyggjur af og myndi lagast af sjálfu sér á komandi mánuðum... Á meðan dáumst við bara að þessu...
Posted by Picasa

Hokkífrillan

 

Það eru mörg útlitslegu smáatriðin á Valtý sem minna mig svo á Hilmi að það er næstum eins og ég sé komin 4,5 ár aftur í tímann. Eins og til dæmis hárin í hnakkanum á honum. Eða hárlufsinn réttilega sagt. Hokkífrillan. Sveipurinn. Alveg gerður til að grafa nefið oní og snusa smá ;) Sést hér á Hilmi.
Posted by Picasa

Undrið eina

 

Enn sem komið er gerir litlibróðirinn lítið annað en sofa og drekka. Vaknar af og til og skoðar okkur þá með undrunarsvip og einbeitingu...
Posted by Picasa

07 febrúar 2010

Fyrsta myndin... fyrstu kynnin

Posted by Picasa

Það besta í lífinu... sofa

Posted by Picasa

Ég og strákarnir mínir

Posted by Picasa

Komin heim

Posted by Picasa

Litlibró !!

Valtýr Karl Stangeland fæddist á Danderyds spítalanum í Stokkhólmi föstudaginn 5. febrúar kl 18.20. Hann var 4.085 gr og 53 cm. Er voða duglegur að drekka og sofa og heilla okkur fjölskylduna sína sem bara dáumst að honum og fáum aldrei nóg.
Posted by Picasa

05 febrúar 2010

Dagurinn í dag ?!

Það þýðir víst ekki að gera einhverja undantekningu á reglunni varðandi komu litla bróður. Síðasta bloggfærslan hingað inn áður en Hilmir kom í heiminn var til að láta vita af stöðu mála og væntanlegri ferð uppá fæðingardeild.
Og nú er komið að því enn á ný !
Fékk sterkari verki uppúr kl 2 í gærdag en skráði það bara sem fyrirvaraverki enda voru þeir bara á klukkutíma fresti. Frá kl 20 fóru þeir að vera reglulegir á korters fresti og frá 02.30 á tíu mínútna fresti. Profylaxöndunin er alveg að hjálpa til og það er ekkert stress á okkur að fara uppá fæðingardeild strax.
Hilmir vaknaði eldsnemma og skreið uppí til okkar. Var ekki alveg að fatta hvað ég væri alltaf einhvað að blása og pústa svona en varð voða kátur þegar hann fékk að heyra að líklega væri það í dag sem litlibróðir kæmi í heiminn. Ingó fór svo með hann á leikskólann og hann veit að langlíklegast verður hann sóttur og fær að gista hjá nágrönnum okkar og vinum þeim Ólöfu og Atla.

Svo hér sitjum við hjúin og teljum mínúturnar á milli verkja. Bætum reglulega á orkuforðann, glápum á sjónvarpið og ég reyni að hvíla mig sem mest ég má þessar dýrmætu mínútur sem ég fæ inná milli.

Getum vonandi deilt með ykkur fréttum og myndum von bráðar. Fylgist með ;)