Litli og stóri... Hilmir og Valtýr

30 júní 2006

Jordgubbi

Hilmir tók forskot á sæluna og fékk smá jarðaberjasmakk í kvöld. So far so good, það eru allavega engin skyndiútbrot komin í ljós þannig að vonandi er hann ekki með ofnæmi fyrir þeim. Eru hvort eð er bara nokkrar vikur í ársafmælið þegar hann verður "löglegur" jarðaberslega séð.

Okkur finnst hann voða stór strákur þessa dagana. Prófuðum í dag að minnka daglúrana hans niður í eitt stykki (í stað tveggja) og það reyndist bara falla í ljúfa löð hjá honum. Einusinniádaglúra prógrammið ætti svo vonandi bara að haldast næstu árin óbreytt. Fegin er ég því að útreikningar á svefnmynstri (hvað er nóg, hvað er of mikið og fer að trufla nætursvefn, hvernig er hægt að raða niður svo hann verði þreyttur á háttatíma os.frv.) var orðið nokkuð þreytandi ! Posted by Picasa

28 júní 2006

Hamagangur !

Það var sko ekki lítill hamagangurinn í íbúð einni hér í borg þegar ég og þrjár aðrar mömmur úr mömmugrúppunni minni hittust í gær ásamt börnum sínum. Ekki oft sem við hittumst núorðið þannig að það er gaman að sjá hvað börnin stækka hratt og þroskast samfara því.
Hilmir var (sem betur fer!) ekki sá "líflegasti" í hópnum þannig að hann fékk að hitta jafningja sína og ærslabelgi mikla af báðum kynjum. Á myndinni situr hann á gólfinu með Júlíu og David sem eru bæði mánuði yngri en hann..... Júlía nýfarin að skríða og standa með en David á leiðinni að fara að taka sín fyrstu skref... mismunandi hversu hratt þetta kemur augljóslega !

Ingó átti líka afmæli í gær þannig að Hilmir fékk að vera í pössun aleinn með glænýju barnapíunni í fyrsta sinn meðan við fórum út að borða. Nýja pían heitir Carmen og er fyrrverandi dagmamma og leikskólastarfskona á fimmtugsaldri og er frá Chile. Við erum öll að fíla hana í botn enda töluvert meira traustvekjandi og ábyrgari í háttarlagi en fyrri frökenin sem okkur fannst orðin frekar kærulaus.... og þá var bara að finna einhverja betri ;) Fyndið hvernig spænskumælandi barnapíur laðast að okkur ! Efast samt um að Hilmir eigi eftir að ná að tileinka sér þriðja tungumálið áður en við flytjum héðan !?Posted by Picasa

25 júní 2006

Have you seen this boy ??

Þessi net-grímuklæddi drengur réðist á móðurdrifna BríóKombí-vagninum sínum inn í barnavöruverslun eina hér í borg og hafði á brott með sér ótrúlega mikið af einskis verðum leikföngum..... hafin er leit að barninu en talið er að erfitt verði að bera kennsl á hann sökum afmyndunar á þeirri einu mynd sem af honum náðist.

(Við erum með "hlið" til að hólfa af forstofuna frá restinni af íbúðinni. Hilmir er farin að skella andlitinu á netið á hliðinu áhorfendum til mikillrar gleði) Posted by Picasa

24 júní 2006

Midsommar 2006

Það var nú ansi ósænskt midsommarið hjá okkur þetta árið.... en yndislegt útaf fyrir sig þó ekki væru sungnar snapsavísur eða dansað kringum midsommarstöngina með blóm í hári.
Hittumst þarna 8 fullorðnir og 4 börn (frá 3-12 mánaða) og fengum okkur ekta "sillunch" með Pripps, färskpotatis, gräddfil og eggjum... ásamt nýplokkuðum sænskum jarðaberjum að sjálfsögðu. Hertókum bekki á útivistarsvæði sem er hérna rétt hjá og nutum þess að vera úti í sólinni. Betra gerist það ekki.... Posted by Picasa

20 júní 2006

10 mánaða ökuþór

Posted by Picasa
10 mánaða er hann orðinn í dag... og þarmeð orðin tveggjastafagamall ;)
Áhuga- og getusvið hans er þvílíkt að aukast einsog myndin ber með sér. Fékk að prófa þennan sparkbíl um helgina síðustu og varð að sjálfsögðu yfir sig hrifin enda elskar hann allt sem er á hjólum. Hérna heima leikur hann sér að bílum og bláa vagninum sínum með ekta *bruuuum* hljóðum.
Síðustu daga hefur færnin í því að labba meðfram farið fram líka. Hann er orðin ansi kjarkmikill og lætur sig stundum vaða milli húsgagna þó að dálítið vanti uppá að hann nái án þess að sleppa hinni hendinni. Höfum líka séð hann standa sjálfan (án þess að hann fatti) stöðugan og fínan. Ef báðar hendur eru uppteknar að skoða einhvað þá má hann nú lítið vera að því að styðja sig ! ;) Líka fyndið að sjá hann einsog Spiderman ganga meðfram veggjum og skápum á heimilinu.

17 júní 2006

Sjálfstæður með meiru

Posted by Picasa
Stórt skref tekið í dag við sameiginlegt borðhald fjölskyldunnar... Hilmir fékk sinn eigin disk og borðaði aaaalveg sjálfur ! Ótrúlegt eiginlega og kom okkur verulega á óvart því hingað til hefur hann bara sýnt disknum sjálfum áhuga og innihaldið fengið að sigla sinn veg. Kannski var hann bara nógu svangur og það sem var á disknum nógu spennandi ? Þarna var meðal annars að finna; pastaskrúfur, kjúkling, grænar og gular baunir, gulrætur og brokkolí. Litríkt með meiru ;)
Vorum allavega voða ánægð með strákinn okkar...

16 júní 2006

Koppaþjálfun hafinn ??

Posted by Picasa
Neeeeiii ! Hilmir er nú ekki það mikið undrabarn og við ekki það eftirvæntingarfullir foreldrar að við ætlum okkur að byrja koppaþjálfunina svona snemma. Við bara fylgdum ráðleggingum (og eflaust tískustraumum líka) og keyptum snemma handa honum svo hann hafi marga marga mánuði að venjast þessum nýja hlut sem mun koma í stað bleyjunnar eftir kannski ár eða svo. Þá getum við öll farið í þessa þjálfun með rólegheitum og jákvæðum brag :)

Annars er skemmst frá því að segja að Hilmir var og er með eyrnabólgu og er komin á pensilín. Það var það sem hafði verið að angra hann og þessvegna sem hann er búin að vera með hita af og til í 2 vikur tæpar. Við vorum nú voða fegin að fá að vita hvað væri að svo það væri hægt að fixa það en eyrnabólga er nú ekki það skemmtilegasta. Svo þarf hann að fá ógeðslegasta pensilínmeðal sem til er tvisvar á dag í tvær vikur. Smakkaði það sjálf og get sko alveg staðhæft að það er viðbjóður.... öfunda hann ekki þegar ég sprauta þessu uppí hann liggjandi öskrandi mótmæli.
Krossa bara puttana og vona að hann verði ekki "eyrnabarn".

14 júní 2006

Ári síðar.... afmælisstelpukona enn á ný

Posted by Picasa
Enn eitt árið liðið og ég kemst markvisst nær því að verða þrítug ! Akkúrat ár síðan þessi mynd var tekin af mér með Hilminn innanborðs á afmælisdeginum mínum. Ýmislegt fleira búið að breytast annað en það að ég sé orðin mamma lítils gríslings, er til dæmis komið með STUTT hár (allavega miðað við hversu sítt það er búið að vera undanfarin árin) og er enn að venjast van-lengdinni á því.
Við fórum öll fammilían út að borða í kvöld í tilefni dagsins. Völdum barnvænan en þó fínan veitingastað sem við eigum pottþétt eftir að fara á aftur ! Þarna var leikhorn fyrir Hilmi og bæði þjónar og aðrir gestir kipptu sér ekkert upp við ærslaganginn í drengnum. Hilmir fékk meira að segja barnamatinn sinn (upphitaðan úr krukku sem við tókum með okkur) fram borin á voða fínan disk og lagt var á borð fyrir hann tvær gerðir af skeiðum sem hann "notaði" óspart.

12 júní 2006

Stóðst öll próf

Fór með Hilmi í 10 mánaða skoðun hjá barnalækninum í morgun. Reyndar var þessi skoðun aðeins á undan áætlun því hann á alveg tæpar 2 vikur í að vera orðin 10 mánaða... en Marie BVC hjúkkunni okkar fannst hann bara vera "nægilega þroskaður" til að standast öll próf. Og vissulega var hann það, ekki að spyrja að öðru.
Þarna var tékkað á því hvort hann gæti hermt hreyfingar og slegið saman tveim hlutum, staðið upp sjálfur og setist niður, farið í feluleik, fylgt ljósi með augunum og ýmislegt fleira. Barnalæknirinn var mjög ánægð með hvað hann var á góðri braut í líkamlegum og andlegum þroska, sagði að þarna væri einstaklega hraustur og heilbrigður drengur :) Vissi það nú alveg en það er alltaf gaman að fá það staðfest !
Hann mældist svo 11,1 kíló og 76,5 cm.

11 júní 2006

Fyrsta alvöru fjölskyldupikknikkið

Sáum okkur tilneydd að fara aðeins út fyrir hússins dyr eftir margra daga inniveru (vegna veikinda Hilmis). Vorum frelsinu fegin og þá mest guttinn sem naut þess að vera á táslunum í góða veðrinu. Eiginlega er það of gott núna... 26 stig er varla Íslendingum bjóðandi... nema maður sé í skugga.
Á myndinni sést Hilmir grandskoða það sem honum var boðið uppá í lautarferð þessari; ávaxtamauksgrautur í krukku, ferskja sem hann fékk að naga sjálfur og svo ískallt vatn. Posted by Picasa

09 júní 2006

Böööö !

Posted by Picasa
Feluleikur er uppáhalds...
Sama hversu stórt eða lítið tuskustykkið er sem Hilmir finnur þá dreipar hann því yfir höfuðið á sér og "felur" sig þartil pabbi eða mamma segja hissa "hvaaaar er Hilmir" og finna hann aftur.... klikka aldrei hlátrasköllin hjá honum þegar hann er böaður úr felustaðnum.
Við höfum aldrei farið útí að tékka á hversu oft hann nennir að endurtaka þetta en hann virðist sjaldan þreytast.

08 júní 2006

Nýjar myndir

Vorum að skella inn nýjum myndum á heimasíðuna okkar, maímánuður einsog hann lagði sig... þ.e.a.s ef maður horfir bara á Hilmi... og stundum okkur Ingó ;) Eigum eftir að gera upp við okkur hvort við leggjum á okkur að setja vídeómyndbrot á heimasíðuna líka. Erum búin að ná nokkrum stórgóðum; Hilmir að vínka "bæbæ", Hilmir að labba með vagninn sinn í fyrsta sinn, Hilmir að tala við sjálfan sig í baði... en okkur grunar sterklega að það sé bara einhvað sem við höfum mikið gaman af... smábarnaforeldrar þið vitið...

Við Hilmir erum föst heimavið þessa dagana enda Hilmir með hita greyið. Ekki mikið gaman hvorki fyrir hann né mig, verður voða lítill greyið og á hálf bágt með sig. Vill helst láta halda á sér og það er sko ekki auðvelt þegar hann er farin að síga í 12 kílóin ! Vona samt innilega að það fari að slá á þetta hjá honum svo við komumst að hitta mömmugrúppuna í pikknikk á laugardaginn. Verð að muna að taka myndavélina með í það skiptið enda er stórmerkilegt að hafa verið búin að fylgjast með öllum þessum börnum (og mömmum þeirra) frá því þau voru um þriggja mánaða. Held samt að Hilmir sé stærðstur í hópnum enda fæddur örlítið fyrr (munar mest 3 dögum) og sannur víkingur í líkamsbyggð. Engin Abba-Björn-och-Benny-peð á mínu heimili ;)

04 júní 2006

Komin af stað... með stuðning

Allt fínt af okkur Sandhamnsgötufólkinu að frétta. Ingó farin að vinna aftur eftir þriggja mánaða (fyrri part) fæðingarorlofs síns og ég tekin við næsta 1 1/2 mánuðinn. Við vorum fljót að skapa okkur nýja rútínu ég og Hilmir, förum eitthvað út strax eftir hádegismatinn í gönguferð, strætóferð.. einhvert á vit ævintýra.. (búðarráp, kaffihúsaráp, opni leikskskólinn).
Prófaði á föstudaginn að snúa vagninum við, þ.e. þannig að hann snúi í akstursstefnu og Hilmir fái allra herlegheitana sem við erum að ganga á móti notið. Hann var nefnilega farin að hálf hanga úr vagninum og snúa sér hálfa leið afturábak til að sjá hvert við værum að fara ! Núna situr hann pollrólegur og afslappaður ... heyrist varla í honum.... stend mig oft að því að kíkja oní vagn til að tékka hvort hann sé ekki örugglega ennþá á sínum stað ;)

Í göngumálunum er það að frétta að hann er farin að labba um með litla vagninn sinn. Var orðin ansi lúnkinn í að ýta á undan sér stólum og ryksugunni þannig að við buðum honum að nota vagninn (hingað til hafði hann ekki verið nógu stöðugur sjálfur til að geta nýtt sér hann) og helduru ekki bara að hann hafi hlaupið af stað með vagninum ! Ekkert smá fyndið að sjá það og okkur næstum hálf brá. Þvílíka stuðið hjá drengsa að vera komin á svona fína ferð !