Litli og stóri... Hilmir og Valtýr

31 mars 2008

Bláa Lónið

Það kom "einn góður veðurdagur" á Íslandi um páskana og þá drifum við okkur með afanum og ömmunni í Bláa Lónið. Þetta var frumflutningur Hilmirs í Lóninu og honum fannst þetta allt saman mjög spennandi... svona skrýtið ljósblátt vatn og allt fullt af "skrímslum" (fólk með kísil í andlitinu).
Eftirá var stoppað á kaffihúsinu og fengið sér íspinna eins og siður er eftir sund. Hilmir vakti á sér athygli með því að veifa glaðlega til lónsgesta.
Posted by Picasa

27 mars 2008

Síðasta fermingin


..... 2 sekúndum seinna braut hann sig úr faðmi mínum til að fara að dansa við ungmeyju eina á sama aldri og hann sjálfur....
En það var sannarlega gaman í fermingunni hennar Katrínar systur. Hilmir lék við hvern sinn fingur, nokkra bíla og Guðrúnu frænku sína. Borðaði kökur og sleikti einn Macintoshbita áður en hann skilaði honum pent í hendina á pabba sínum.

18 mars 2008

Hilmir Viktor (also known as Emil í Kattholti)

Erum á Íslandi þessa dagana og Hilmir er að slá í gegn í fjölskylduboðunum. Ein ferming búin og önnur eftir.
Fyrsta fermingin var í heimahúsi og Hilmi tókst að fleygja brúnuðum kartöflubita þvert yfir stofuna þar sem hann endurkastaðist af rándýru málverkinu og endaði í brjóstaskorunni á langömmunni. Sem betur fer var langamamman úr hinni ættinni.. .kom okkur ekki við semsagt ;) Nei djók... bitinn endaði bara í sófanum hjá góðu gömlu konunni sem sagðist alvön svona peyjum einsog Hilmi.
En hann hélt áfram sigurreiðinni með því að græta sér eldri börn yfir bíladeilu og háma í sig bæði kalkúnabringu og ís.
Kvöldið endaði með því að við fengum lánað bílasettið ógurlega sem hann náðist ekki til að hætta að leika sér með til að koma heim. Grunar sterklega að við höfum einfaldlega verið keypt úr húsinu með þessum hætti.
Við þökkum Guðbjörgu, Trausta og Begga kærlega fyrir okkur og fyrir þolinmæðina og elskulegheitin við drenginn okkar... hann Emil-Hilmi.

02 mars 2008

Hilmir elskar....


Kjötbollur, pizzu, hlaupahjólið sitt, kex, ís og áfram mætti telja..... Og já, þessar yfirlýsingar koma í heilum setningum "Ég ÄLSKAR (insert word) "


Í dag fékk ég þó í fyrsta skipti að heyra það sem bræðir hvert mömmuhjarta. "Ég ÄLSKAR mömmu!" Og því fylgdi klapp, strokur, höfuðið lagt í mömmukjöltu og litið á mig með hvolpaaugum. Svo einlægt. Sérstaklega afþví því fylgdi engin beiðni um einhvað sem hann mátti ekki fá. Býst við að það komi seinna.

Lifði á þessu það sem eftir lifði dags.... ef ekki lengur ;)