Litli og stóri... Hilmir og Valtýr

29 október 2009

Jólaundirbúningur í lok október

Hilmir er afar áhugasamur um þennan augljósa menningarmun sem er á íslandi og svíþjóð þegar kemur að jólasveinunum. Hann er með það alveg á hreinu að íslensku sveinarnir 13 heimsæki bara íslensk börn og að þau sænsku sitji þar með uppi með einn fátæklegan svein ... og engar skógjafir !

Það er augljóst að þetta verður jólasveinajólin miklu. Nú vill hann hafa þetta allt á hreinu og spyr endalausra spurninga sem oftast byrja á "afhverju", "hvenær", "hvernig" og "hversvegna". Við erum vel undirbúin þökk sé föðurömmunni sem var búin að koma til okkar bók um þá bræður 13 ásamt jólaóróunum frá Brian Pilkington sem sýnir þá hvern og einn. Ætlunin er að taka upp einn jólasveinaóróa á dag þegar skógjafatíðin byrjar svo hann geti nú fylgst með því hver sé að gefa honum hvað í skóinn.

Hann á samt voðalega erfitt með að skilja afhverju hann eigi að vera svona þægur "þegar jólasveinninn er að fylgjast með" þegar þeir sveinar sjálfir eru svona voðalega óþekkir ! Útskýringin er að sjálfsögðu sú að þeir séu vaxnir uppúr þessum prakkarastælum... svona að mestu leyti... og séu núna fyrirmyndar samfélagsþegnar sem taki að sér að halda börnum á mottunni í desembermánuði.
Er þaggi ?!

17 október 2009

Svar að innan

Hilmir fann í fyrsta skiptið almennilegt spark frá litla bróður núna í kvöld. Lágum og vorum að hafa það notalegt uppí rúmi eftir kvöldmatinn, lesa og spjalla. Það fór svo yfir í að hann vildi bera krem á bæði mig og pabba sinn (svo við héldum nú mýktinni) og að sjálfsögðu fékk hann það. Mallakútur fékk líka smá krem (svo litli bróðir verði ekki þurr) og bumbubúanum litla varð svo mikið um hamaganginn... og raddirnar þarna fyrir utan kúluna sína... að hann gaf Hilmi spark beint í lófann.
Hef sjaldan séð jafn "priceless" svip á Hilmi. Hann varð svo hissa og glaður að fá loksins að finna almennilega fyrir þessu sem ég hef talað um við hann. Þessi staðreynd um að nýr fjölskyldumeðlimur væri inní maganum á mér fékk alveg glænýja vídd. "Ég fann!" og stærðsta bros í heimi á eftir að sitja lengi og vel í minningunni. Óborganlegt.

Annars er það helst í fréttum að ég er nú komin með hina víðfrægu svínaflensusprautu. Óléttar konur eru í algjörum forgangshóp hérna í Svíþjóð svo ég fór hlýðin niðrá mæðravernd á föstudaginn og lét góðlátlega ljósmóður stínga mig með risanál. Svo stórri risanál með svo miklu eitri í að ég er helaum í hendinni eftir þetta. Ekki laust við að ég væri svo hálf flensukennd í dag með pínuponsuhita og hausverk. Vona bara að það verði farið á morgun. Við bumbubúi erum þá allavega orðin svínavarin... fyrir þetta árið allavega ;)

14 október 2009

Að velja sér starfsgrein

Ingó spurði Hilmi um daginn hvað hann ætlaði sér að verða þegar hann yrði stór. Þessi spurning hefur ekki verið lögð fram áður svo það var vissulega spennandi að athuga hvert svarið yrði.
Hilmir hugsaði sig um vel og lengi og sagði svo með ákveðnum rómi; Kokkur !
Þegar hann var spurður að því hvað kokkar gerðu þá sagði hann að þeir löguðu mat og fengu að baka. Núna á undanförnum dögum hefur þetta starfsval þróast yfir í að hann ætlar sér að verða bakari.
Mér líst jafn vel á hvoru tveggja... hvað annað ;)

05 október 2009

Von á góðu í janúar

Mér finnst ég vera komin heilan hring í barnaskemmtiatriðum þegar ég pantaði miðana fyrir mig og Hilmi að fara á Disney On Ice sýninguna í janúar.

Þetta er árviss viðburður hérna í Stokkhólmi og fyrstu árin eftir að við fluttum hingað fórum við með Elísu á þessa sýningu... alveg þartil hún varð skyndilega ofurstór unglingsstúlka og hætti að hafa jafn einlægilega gaman af þessu einsog þegar hún fór fyrst 8 ára gömul.

Nú er komið að litla brósanum hennar honum Hilmi. Þessum sem hefur óheyrilega einlægilega svakalega gaman af listskautasýningum, Disneyprinsessum og dramatík. Ég er viss um að þetta verði viðburður aldarinnar í hans augum. Slái jafnvel við komu litla systkinisins þarna nokkrum vikum seinna ;)