Litli og stóri... Hilmir og Valtýr

30 mars 2006

Barnapían hans Hilmis...

heitir Valeria, er 22gja ára og dóttir sendiherra Nicaragúa.... og það besta er... hún býr í sama húsi og við ! :)
Við fengum miða innum bréfalúguna í gær þarsem hún bauð fram þjónustu sína, við hringdum strax og hún kom og kynnti sig fyrir okkur og Hilmi núna í kvöld. Ferlega hress stelpa, opin, einlæg og augljóslega mjög hrifin af smábörnum. Hún fær að spreyta sig í smástund ein með Hilmi á þriðjudaginn og ef allt gengur vel ætti hún að geta passað Hilmi svo við Ingó getum skroppið frá einhvert kvöldið fljótlega. Kjempegreit !

Nota tækifærið og bendi áhugasömum uppskriftarsólgnum einstaklingum sem þetta blogg lesa á nýja uppskriftar- og matabloggið mitt. Þeir sem þekkja mig og vita útá hvað ég geng (eldamennska, uppskriftir, maaaatur) verða ekki hissa á þessu nýja bloggi mínu. Right ? ;)

29 mars 2006

Skriðæfingar

Posted by Picasa
Það eru sko daglegar skrið-æfingarnar hjá Hilmi og hvert tækifæri óspart notað til að fleygja sér úr sitjandi stellingu, vega salt og prófa balansinn, koma sér á hnéin og enda síðan hundfrústreraður á þessu öllu saman á mallanum. Reyndar alveg ótrúlegt hvað hann er sáttari við að vera á maganum núna enda er hann miklu betri í að fara yfir á hliðina en áður og nær ótrúlega vel að mjaka sér jafnvel heilan hring á maganum !
Erum búin að kaupa öryggisgrind til að loka af óæskilega hluta íbúðarinnar þegar sá dagur rennur upp að hann fer á flakk. Verður eflaust ekki langt að bíða....

28 mars 2006

Leikskólinn skoðaður

Vorum ákaflega ósænsk þegar við mættum á leikskólann, skoðuðum jákvæð allt sem okkur var sýnt og báðum svo um pappírana til að skrifa inn drenginn samstundis. Flestir fara sko að "athuga" marga leikskóla áður en lokaákvörðun er tekin. Skil reyndar ekkert í því vegna þess að það er skortur á leikskólaplássum og þá sérstaklega hérna á Östermalm. Fólk er augljóslega sumt að ferðast yfir í aðra bæjarhluta til að koma börnunum að á "rétta" leikskólanum.
Okkur leist nú bara svo vel á pleisið að við vorum ekkert að spekúlera meira í málinu og sögðum bara játakk á staðnum. Þarna er allt flúnkusplúnkunýtt og fínt. Æðisleg aðstaða til hreyfingar, allskyns klifurgrindur, bolltar og græjur í sérherbergi, tónlistarherbergi, dótaherbergi og margt fleira. Svo er verið að byggja rosa fínan útileikvöll þarsem gert er ráð fyrir að börnin séu bæði fyrir og eftir hádegi.
Hann byrjar semsagt þarna 21. ágúst þegar hann verður orðin 1 árs og 1 dags gamall. Bara 20 vikur í það !!!
Spennandi með meiru ;)
P.s. nei Sara... það er ekkert dýrara þarna en á þessum ríkisreknu leikskólum. Það er tekin prósenta af tekjum foreldra, max einhver ákveðin upphæð sem ég held að sé um 1.400 SEK á mánuði :)

27 mars 2006

Stóri strákurinn með stóru matarlystina

Við erum búin að vera á nýja matarprógramminu með hann Hilmi núna síðan á föstudaginn og erum ekki frá því að það sé töluverður munur á honum ! Rólegri einhvernvegin og skapbetri... við áttum nú ekki von á því svosem þannig að það kemur skemmtilega á óvart og jafnframt poppar upp spurningin "var hann orðin svona svangur?" í huga okkar.
Hann er semsagt síétandi alvöru mat (ekkert pelasull lengur) og líkar það vel !
Erum svo líklega búin að finna leikskólapláss fyrir hann í ágúst. Leikskólinn sá heitir Olympen og leggur aðaláherslu á hreyfingu í leik og lærdómi. Þetta er einkarekin leikskóli sem er í 10 mínútna göngufæri frá vinnunni minni þannig að ég sé þá um að sækja og skila... og fæ smá hreyfingu í leiðinni ;) Fáum líklega að koma og skoða í vikunni... skrýtið og spennandi en aðallega furðulegt að hugsa til þess að hann verði bráðum eins árs og "sjálfstæður", þ.e. ekki með mér eða pabba sínum á daginn.

25 mars 2006

*blúbbglúbb*

Posted by Picasa
Að kafa er nú ekki í neinu stóru uppáhaldi hjá Hilmi.... hefur alltaf orðið hundfúll útí mig og sár þegar ég hef gert það við hann. Bað þessvegna þjálfarann í ungbarnasundinu að "kafa" hann þegar það kom ljósmyndari í heimsókn í næstsíðasta tímanum. Hann varð minna fúll við hana enda vanari handtök á ferð ;) Ég stóð bara nervös við hliðina á og horfði á þjálfarann stinga honum á bólakaf !
Myndin varð allavega fín... þó hann væri með lokuð augun :D

23 mars 2006

Ótrúlegt !

Posted by Picasa

Smelltum af þessari mynd áður
en Hilmir fór í "mömmubað"
(segir sig nú sjálft hvað það þýðir). Þegar ég sá hana minnti hún mig svo svakalega á þessa mynd sem var tekin fyrir sex mánuðum síðan.
Svaðalegt hvað tíminn þeytist áfram og drengurinn stækkar og dafnar.

Peli ?! Fuss og svei !!

Hilmir tók uppá því alveg á eigin spýtur að vilja ekki pela... brjóstinu neitar hann ekki þegar það er í boði en pelanum slær hann frá sér. Fyrst héldum við að þetta væri útaf því að hann hefði verið lasin en núna hefur þetta gengið svona í næstum 2 vikur og engin bót á máli.
Marie á BVC (ungbarnaeftirlitinu) sagði okkur að prófa að bæta við máltíð hjá honum seinnipartinn svo hann fengi graut rétt fyrir háttinn. Myndi þá koma í staðinn fyrir magafylli af pelamjólk og vonandi hjálpa honum að sofna og sofa enn betur :)
Ingó á þessvegna eftir að vera í fullu starfi við að gefa drengnum að éta ! Jógúrt og brauð má til dæmis fara inná matseðilinn þannig að þetta verður voða spennandi... svo ekki sé minnst á þæginlegt því endalaus upphitun á mat og graut getur verið aaaansi þreytandi og tímafrekt. Sérstaklega þegar Hilmir tekur uppá því að dóla sér við að borða og allt orðið kalt og ógeðslegt í lokin.

22 mars 2006

Spænskumælandi ?

Við Ingó erum ekkert lítið að reyna að ráða frammúr babblinu í Hilmi þessa dagana og "hæ", "bæ", "pabbi" og "mamma" eru efst á óskalistanum og þessvegna endurtekin í gríð og erg í þeirri veiku von að Hilmi þóknist að svara með endurtekningu.
Hann speglar nú ágætlega og nær í besta falli að herma og segja "æjh" (næstum því hæ eða bæ) og "baba" (samsuða á pabba/mamma?).
Í morgun kom hinsvegar góð útskýring á því afhverju hann er ekki búin að láta útúr sér fleiri orð nú þegar. Drengurinn er spænskumælandi !! Satt og ekki logið !!
Sem mótmæli við ítrekuðum skeiðum af graut þó hann væri orðin hundleiður á því að sitja þarna og japla á gumsinu án þess að geta varið sig með skiljanlegum orðum sagði hann skýrt og greinilega; HABLA ! (þýð; TALA)
So... Hablamos espanol ?

20 mars 2006

Fattarinn ekki alveg komin í gang....





Dressuðum Hilmi upp í "matarsvuntu", stöppuðum banana í barbapabbaskálina hans og festum við borðið með sogskál. Biðum svo spennt eftir að sjá hvað snillinn myndi gera.
Hann eyddi dágóðum tíma í að hræra í maukinu í skálinu og sullast með því og ég held að fæst hafi ratað rétta leið. Fannst þetta samt voða spennandi og endaði á því að draga þá ályktun að best væri að "cut out the middle man" (hendurnar á sér) og færa muninn beint að skálinni. Endaði á því að líta út einsog svín við trog.
Bananadrengurinn er annars 7 mánaða í dag orðin. Tíminn líður... hratt/hægt og örugglega ;)

Posted by Picasa

15 mars 2006

Algeng sjón

Posted by Picasa
Þessi mynd er algeng sjón á Sandhamnsgötunni þessa dagana. Helga amma situr og prjónar í stólnum "sínum" og Hilmir situr á gólfblettinum "sínum" og leikur sér (fallega) við dótið sitt. Allir í sátt og samlyndi.
Þau Hilmir og Helga eru líka sá helmingur heimilisfólks sem kvebbaður og lasin er. Við Ingó sleppum vonandi !

Hvæsandi

Hilmir er hvæsandi og hóstandi einsog stórreykingarmaður og/eða asmasjúklingur án lyfja þessa dagana. Náði sér í andstyggðarkvef sem situr svo pikkfast í öndunarfærunum. Hann hefur auðvitað ekki enn náð tökum á að ræskja sig þannig að þetta fær bara að vera þarna og bögga hann.
Sem betur fer (sjö, níu, þrettán) er hann ekki með neinn hita að ráði en hinsvegar ferlega slappur og þreytulegur.
Mest angrar þetta hann á nóttunni þegar slímið fer ranga leið og hann nær ekki að hósta neinu uppúr sér. Vaknar grátandi með andnauð og þarf á huggun að halda sem ekki felur í sér brjóst, pela eða snuddu (því það er vont að sjúga).
Merkilegt hvað maður venst því að sofa lítið á nóttunni. Allavega ekki fastasvefni því ég er á stöðugu varðbergi þarsem ég er sú eina sem get auðveldlega sinnt honum. Ingó var fyrirskipað að sofa með "stígvélið" sitt í allavega 3 vikur í viðbót. Hann er þessvegna ekkert voða fljótur yfirferðar, held meira að segja að Hilmir sé farin að þekkja pabba sinn á göngulaginu.
Í kvöld ætlum við að testa nefdropa og hækkun á rúminu hans höfuðmegin. Vona að það virki.

13 mars 2006

Mömmukoss

Posted by Picasa
Að fá koss frá Hilmi er mjög... blautt ! Hann á það til að fagna mér að vinnudegi loknum með því að ráðast á mig og "kyssa" mig lengi vel. Ef hann væri komin með fleiri tennur myndi hann eflaust fá sér mömmubita.
Einlægt og huggulegt ;)

*frrrruuuussss*

Vaknaði í morgun við frussandi barn. Barnið hélt áfram að frussa þó snuddan væri uppí litla munninum. *frrrrrrrrruuuuuussss* heyrðist í glöðum Hilmi sem fannst þetta nýjasta uppátæki rosa sneddí.
Ekki dróg úr frussáhuganum þegar við Ingó fengum bæði hláturskast og frussuðum á móti.
Hann var samt það kurteis að sleppa frussinu þegar hann fékk morgungrautinn sinn. Ég tók samt enga sjénsa þarsem ég var komin í vinnufötin (sem ég vil helst hafa grautarslettulaus) og setti á mig svuntu.
Allur er varinn góður.

08 mars 2006

Getan eykst með hverjum degi

Ansi margt að fara að smella inní "fattarann" hjá Hilmi og við bíðum spennt eftir að sjá hvaða trix hann sýnir okkur fyrst og þá að yfirlögðu ráði.
Sem dæmi má nefna:
- þegar verið er að gefa honum mat þá gerir hann "mmmmm" hljóð (nammigott mmmmm) og bíður eftir að viðkomandi sem er að mata hann staðfesti með öðru "mmmm gott" hljóði. Ekki kannski fyrsta orðið en allavega fyrsta hljóðið sem er með ráðum gert.

- klappar saman höndunum ! Ekki með báðum lófunum og eflaust ekki með vilja gert en þetta er hluti af æsingnum og gleðinni. Horfir svo á mann furðu lostinn þegar mar fer að klappa með honum ;)

- fikrar og færir sig um með bleyjubossanum sitjandi á gólfinu. Spurning hvort hann vilji nokkuð skríða þegar hann er búin að fatta þetta almennilega ? Fer víst á góðum degi heilan meter eða tvo úr stað.

- þegar hann liggur á maganum ýtir hann litla bossanum sínum beint uppí loftið og reynir að koma undir sig hnjánum (til að skríða)... en fattar svo ekki næsta skref ! Ferlega fyndið að sjá hann liggja þarna og "hömpa" gólfið hamslaust. Fær svo leið á þessu öllu og nöllar þartil hann er tekin upp.

- ýta á takka. Sjálf get ég ekki staðfest þetta þarsem Ingó er búin að vera að þjálfa hann í að ýta á lyftutakkann sem verður blár á litinn við það.

- kyssa og knúsa ! Þegar hann er mikið þreyttur eða ofsa glaður og langar að knúsa mömmu sína þá vil hann helst fá að éta mann; tekur á móti andlitinu á mér með opin munninn og heldur mér heljargreipum með báðum höndum meðan hann smellir á mig ansi blautu knúskossi. Hann er hinsvegar búin að læra af reynslunni að andlitið á pabba stingur (skeggið) þannig að hann gerir þetta þá bara við hnéið á Ingó í staðinn ;)

05 mars 2006

Grandma to the rescue !!

Helga amma er komin til bjargar slitnu fjölskyldunni og verður hér sem plástur á sárið næstu tvær vikurnar. Hún er búin að vera í Hilmisþjálfun hérna síðan á laugardaginn og tekur við full-time (með Ingó í kallfæri) á morgun þegar ég fer í vinnuna :)
Ómetanlegt að eiga ömmu að þegar bjátar á !
Annars er það í fréttum að aðgerðin hjá Ingó tókst vel, þeir voru klukkutíma að krukka í honum og hann var svo sendur heim í stígvéli/gipsi sem hann kallar "storm-trooper-boot" enda líkist það óhugnalega þeim búnaði. Hann má stíga í fótinn að fullu eftir 3 vikur en losnar ekki við stígvélið fyrr en eftir 6 vikur.
Hilmir er annars alveg hæstánægður með viðbótina í fjölskylduna okkar og hlær dátt að ömmu sinni þegar hún gantast í honum. Hún var líka svo góð að gefa honum fyrsta kubbadótið hans sem samanstendur af risakassa af ungbarna Legói.

01 mars 2006

Slitin fjölskylda

Við á Sandhamnsgötunni erum gatslitin þessa dagana.
- Ingó sleit á sér hásinina (akkilesarhællinn) á sunnudaginn og þarf að fara í aðgerð á morgun. Ekki mikið útlit fyrir að hann nái að vera heimavinnandi faðir og sinna Hilmi hoppandi um á einum fæti.
- Ég var nýbyrjuð í vinnunni og segja mig úr fæðingarorlofi. Vinnan var búin að gera ráð fyrir að ég væri að koma aftur og fólk hagað sínu starfi eftir því. Erfitt að fara aftur þegar maður er nýkomin tilbaka. Þarf líka á því að halda að komast að gera aðra hluti en vera bara Hilmismamma.
- Hilmir tekur breytingunum og umrótinu frekar ílla. Vill hvergi vera, óánægður og nöllaður greyið. Sefur ílla og vill helst vakna klukkan 5 á morgnana. Frekar óþolandi fyrir vikið.

Lýsum hér með eftir heimilisaðstoð, sjúkraliða og barnapíu (helst íslenskumælandi). Borgum flugfarið og lofum afbragðs matargerð á hverjum degi (þegar ég er komin úr vinnunni).
Áhugasamir setji sig í samband !