Litli og stóri... Hilmir og Valtýr

24 nóvember 2009

Jólamarkaðsdagurinn okkar


Lögðum á okkur klukkutíma akstur síðasta laugardag til að fara á jólamarkaðinn í Taxinge slott. Fórum þangað í fyrra þegar Sara var í heimsókn hjá okkur og féllum alveg kylliflöt fyrir huggulegheitunum. Ekki nóg með að þarna væru ógrynni af skemmtilegu handverki heldur líka allskyns ófjöldaframleiddur matur (ostar, grafðir og reyktir silungar, paté, pylsur, sultur, saft, súkkulaði......). Og svo rúsínan í pylsuendanum er stærðsta kökuhlaðborð norður Evrópu í sjálfum kastalanum. Allir fengu að velja sér eigin kökusneið (sumir fengu kökusneiðAR) og ekki var Hilmir lengi að hugsa sig um þegar honum var bent á ostakökuna. Hann ætti í alvöru talað að fara á styrk hjá Osta - og smjörsölunni. Gæti lifað á osti einum saman.
Hilmir fékk líka að fara í smá reiðtúr og sat sænska hrossið með öllum íslensku genunum sínum sem að sjálfsögðu gerir hann að liprum reiðmanni af guðs náð.





Hérna má svo líta á okkur mæðgin í smá heybalapásu milli sölutjaldanna. Hilmir með uppáhaldsnammið sitt, brenndar "hnautur" (samansett orð af hnetu + nöt). Ekta síslenska.

Bumbufréttir

Komin heilar 30 vikur með meðgöngulengdina og nú vill ljósan fá mig í heimsókn til sín á tveggja vikna fresti. Verða heilmargar ferðir uppá spítala því að þangað á ég líka pantaðan tíma í svokallað Aurorusamtal (fæðingarundirbúnings) og aukasónar fljótlega til að athuga hvort litlibróðir sé ekki örugglega nógu stór og stæðilegur miðað við hversu lengi hann er búin að lúra sér þarna í bumbunni.

Hann er allavega ekki búin að snúa sér niðurávið heldur er þvermóðskulega á þvert þarna inni. Ágætt fyrir mig því þá losna ég við spörkin niðurávið í smá stund ;)

Á morgun eigum við Ingó svo tíma í Profylax-námskeiði, fyrsta af tveimur, sem er einhvað sem við höfðum ekki alveg nógu sterka trú á síðast til að tíma fjárútlátum í það... en núna vitum við hverslags skemmtilegheit eru framundan svo að fá smá öndunartækni og markmiðssetningar verður alveg hreint tilvalið.

19 nóvember 2009

Bumbulist



Mallinn er orðin stórfenglega stór, ákaflega klappvænn og knúsilegur... Hilmi finnst gaman að láta bumbuna yfirgnæfa sig og reyna að troða sér undir hana þegar ég er standandi þannig að hann næstum hverfi í samanburði. Hámarkinu var svo náð þegar legobrunabíllinn lenti á mallatunglinu og keyrði nokkra hringi í rannsóknarleiðangri.

18 nóvember 2009

Hreiðurgerð fyrir litlabróður



Við stefnum á róleg jól hér á bæ svo að þá er eins gott að sanka að sér öllu smábarnadótinu núna meðan það er hægt að gera það í rólegheitunum líka.
Barnavagn er á leiðinni frá Þýskalandi, burðarrúmið í það stendur inní geymslu, pínulitlu fötin og skiptiborðið sömuleiðis í geymslunni og bíður þess að vera tekið fram og þvegið og/eða skrúfað saman á ný. Í gærkvöldi fór svo Ingó og keypti þennan líka fína notaða barnabílstól sem að sjálfsögðu vakti óskipta athygli Hilmis sem fékk að spreyta sig á stórabróðurtöktunum. En fyrst það er engin litlibróðir að æfa sig á verður Meme að vera staðgengill. Hilmir fékk aðstoð frá pabba til að stilla sætisbeltin rétt og svo burðaðist hann um með varninginn sinn. Krafðist þess svo að fá sjálfur að setja litlabróður í stólinn á spítalanum þegar hann kæmi heim með okkur.... Sjáum nú til með það ;)

12 nóvember 2009

Hrekkjavökufjölskyldan


Síðustu helgi fórum við í hrekkjavökuskapi og hrekkjavökubúningum á hrekkjavökuball Íslendingafélagsins.
Hilmir fór ekkert útaf hefðinni sem myndaðist í fyrra og naut þess að vera "álfastrákur". Álfastrákar eru, einsog allir vita, nefnilega oft í pilsi og með ljósbleikt naglalakk á öllum fingrum.
Mamman var bangsimon og þá kom sér vel að vera með stóran framstæðan maga enda eru bangsimonar jú oft soldið mjúkir.... sérstaklega þegar er að koma vetur og margra mánaða dvöl í híði framundan ;)
Pabbinn tók skelfingarhlutverkið aðeins alvarlegra og skrýddist bæði kryppu og gervitönnum. Hræddi börnin stór sem smá !

04 nóvember 2009

Prjónadugleg


Það verður dálítill munur á þeim bræðrum ef heimferðasettin eru skoðuð. Kannski dáldið stemningin sem er í gangi á prjónafrontinum hjá móðurinni ? Á Hilmi prjónaði ég úr kríthvítu bómullargarni, mikið af blúnderíi og bláir satínborðar hér og þar... mjög smekklegt og fínt. Varfærnislegt einhvernvegin. Einsog ég var sem fyrstabarnsmóðir.
En nú kennir annara grasa. Það er lítill hippi á leiðinni nefnilega ! Garðaprjón all the way, ekta sænsk handlituð ull í samsetningu við merínóull af mýkstu gerð... dáldið meira kæruleysislegt og töff.
Ég er alveg agalega stollt af myndarskapnum í sjálfri mér, það verður að segjast.

03 nóvember 2009

Lok 6. mánaðar...

... og byrjun þess sjöunda og þar með er þriðji þriðjungurinn, lokaspretturinn sjálfur, að hefjast. Og þá lítur maður svona út (sjá mynd)! :)

Já litli bróðir stækkar og dafnar, og bumbuhylkið hans líka þar með. Allir típísku óléttukvillarnir sem fóru að hrjá mig á síðustu 2-3 vikum Hilmismeðgöngu eru mættir á staðinn nú þegar. Ljósmóðirin segir það eðlilegt og meðan það er ekki að hrjá mig ótæpilega mikið megi ég telja mig heppna. Flestir kvillarnir eru hvort sem er tengdir því hversu hratt ég geng (þ.e. strunsa) svo ég veit alveg hvernig ég á að sleppa því að vera með hlaupastíng og netta grindargliðnunarverki. Hinsvegar er frekar pirrandi að finnast stundum erfitt að anda en er ekki súrefni dáldið ofmetið ;)
Annars eru aðrar heilsufréttir ósköp jákvæðar. Blóðþrystingurinn er fínn, járnið orðið gott aftur (eftir 4ra vikna járntöflu skammt) og sykur sömuleiðis í jafnvægi í óléttukroppinum mínum.

Litli bróðir hreyfir sig sem mest hann má og þá sérstaklega þegar Hilmir spjallar eða syngur til hans og svo sparkar hann gjarnan hressilega í lófann á Ingó þegar hann ber kvöldkremið á stækkandi bumbuna. Annars er dáldið fyndið að segja frá því að honum er alveg afskaplega ílla við að láta hlusta á hjartsláttinn á sér með svona dopplertæki. Sparkar þá gjarnan beint uppí hljóðnemann og ljósmóðirin búin að gefast tvisvar upp á því að ná almennilegri mælingu á honum. Nógu hress hlýtur hann að vera fyrst hann getur miðað svona vel og látið óánægju sína í ljós.

Allt sem ég var búin að viða að mér barnadóts-tengt á eftir að koma sér vel núna. Ég get verið hin rólegasta á öllum vígstöðvum. Eina sem við eigum eftir að græja er barnabílstóll og nýr barnavagn en það verður látið bíða þartil eftir jólin væntanlega. Allavega ekki jafn mikið verkefni einsog þegar von var á Hilmi... og fegin er ég því nóg er um annað að hugsa á stækkandi heimili...
Posted by Picasa