Litli og stóri... Hilmir og Valtýr

31 október 2005

Hilmir og kílóin

Í síðustu viku fórum við í vonandi síðustu heimsóknina í bili á BVC (ungbarnaeftirlitið) til að láta mæla og meta Hilmi. Þetta með þyngdaraukninguna var orðið hálfgerður stressfaktor hjá mér eftir allt vesenið með brjóstagjöfina og svoleiðis. Var samt nokkuð viss um að hann væri að þyngjast eðlilega og það þrátt fyrir að við höfum geta minnkað þurrmjólkurskammtana í samræmi við hvað hann hefur verið duglegur að taka brjóstið, og það án hjálpartúttunar blessuðu! Fegin er ég ef við verðum laus við þá tuðru. Á þann veginn fær hann líka svo miklu betur í sig mjólkina og er allur sáttari og hamingjusamari fyrir vikið.
Hann féll alveg í sína kúrfu bæði í þyngd og lengd; orðin 5,9 kg og 60,5 cm sem er einni kúrfu fyrir ofan "meðalkúrfuna". Skilst samt á Írisi að fá börn séu í meðalkúrfu því þessi blessaði kúrfuútreikningur hefur ekki verið uppfærður síðan 1960 eða einhvað álíka ;)

Næst á dagskrá er að mæta á BVC þann 22. nóv til að hitta aðrar múttur á svæðinu með svipað gömul börn í mömmugrúppu. Verður forvitnilegt og vonandi gaman.... vona heitt og innilega að ég verði ekki í hóp með svona snobb-mömmum en það er MIKIÐ af þeim á þessu svæði. Þið þekkið týpuna kannski, þessi sem strixar um í háum hælum með 100.000 þúsund króna Urban Jungle barnavagninn sinn. Barnið allt uppstrílað í Polarn o Pyret klæðum og ef það er drengur er hann með míní hanakamb einsog fótboltaspilandi pabbi sinn.... liggur við komin með skeggrót við 6 mánaða markið. Er ekki að grínast á þessari lýsingu, sá eina svona með eigin augum á BVC um daginn. Hún var að tala við aðra snobbmömmu um hvaða sprautur barnið þyrfti því þau ætluðu til Malasíu um jólin en voru hinsvegar nýkomin frá Suður Afríku !!

27 október 2005

Stora systir og litli bróðir


Hilmir er svo heppin að eiga Elísu að sem stóru systur. Hún kom og kíkti á litla brósa sinn þegar við vorum á Íslandi og ég held að þau hafi verið voða ánægð hvort með annað. Allavega sýndist okkur vera systkinasvipur með þeim (Ingó getur ekki neitað því að vera pabbi þeirra allavega!) sem eflaust á eftir að aukast eftir því sem Hilmir verður "mannalegri".
Elísa ætlar svo að vera hjá okkur hérna í Stokkhólmi í janúar þannig að þá fær Hilmir eflaust að njóta góðs af stóru systur við að láta halda á sér og leika við sig :) Posted by Picasa

26 október 2005

Bros fest á (digital) filmu


Hilmir var ekkert að spara sjarmabrosin þegar við vorum á Íslandi og eitt slíkt náðist á mynd ! Hann tekur oft bakföll af einskærri gleði og baðar út öllum öngum þegar mikið liggur við. Græni froskurinn á spiladósaróróanum sem hangir fyrir ofan rúmið hans er í sérstöku uppáhaldi og hann getur legið þar tímum saman og alltaf verið jafn hissa þegar froskurinn með trefilinn birtist á ný eftir að hafa horfið úr sjónlínu stundarkorn. Hilmir er líka afskaplega hrifin af fólki og brosir þá jafnt til barna sem fullorðinna og gleðst alveg hrikalega þegar hann fær bros tilbaka. Maður getur varla annað gert en brosa tilbaka þegar það lítur út einsog á myndinni... ekki satt ? :) Posted by Picasa

23 október 2005

Svíþjóð á ný

Flugferðin heim gekk alveg dæmalaust vel og ég hefði varla getað ímyndað mér betri ferðafélaga en mömmu (Hilmis-amman) og Hilmi sjálfan að sjálfsögðu.... Hann svaf einsog steinn alla leið til Keflavíkur, gegnum innritun og boarding inní vélina. Fékk smá að súpa við flugtak og sofnaði aftur akkúrat passlega til að við mæðgur gætum fengið okkur morgunmat ! Restin af flugferðinni fór í spjall við okkur, skoða flugvél og fólk, og svo vildi hann endilega skoða skiptiaðstöðuna á klósettinu tvisvar (fyrra skiptið meig hann á veggi og gólf ásamt sína eigin sokka, seinna skiptið reyndi á útsjónarsemi móðurinnar við að skipta um kúkableyju og athafna sig í mörgþúsundfeta hæð með takmarkað rými).

Var ferlega skrýtið að koma "heim" til Svíþjóðar aftur. Að hluta til gott að koma í sitt eigið heimili og hitta eiginmanninn... en jafnframt erfitt að skilja við Íslandið og alla góðu hlutina sem voru að gerast þar hjá okkur Hilmi eftir höfuðbeina og spjaldhryggsmeðferðina og að vera í fjölskyldufaðmi. Var næstum farin að tengja Svíþjóð og heimilið hér við erfiðleika og óhamingjusaman drenginn :( En hann er enn allur að koma til og kemur okkur öllum á óvart með hverjum deginum sem líður;
- Hádegislúrinn sem var alltaf bara 1 klst er núna komin uppí 3 klst.
- Hægt að svæfa hann í vagninum sínum, líka fyrir nætursvefninn (næsta skref er svo að flytja hann í sitt eigið rúm í staðinn fyrir okkar rúm)
- Farin að liggja á bakinu algjörlega afslappaður með hendur útmeð hliðum
- Búin að minnka þurrmjólkurþörfina og láta sér nægja brjóstið meira í staðinn (jibbí)
- Óstöðvandi-nema-með-pela-grátköstin orðin nánast engin, og nöldurþörfin sem var stanslaus er horfin !
- Farin að taka snuddu til að sefja sogþörfina (minna álag á mig sem stórasnudda)

Enn eigum við nokkra daga eftir í "fullkomin árangur" eftir meðferðina þannig að við bíðum enn spennt og vonumst bara til að þessir góðu hlutir sem nú eru komnir inn fari ekki aftur !

17 október 2005

Spennandi dagar....

Ferðin til landsins gekk einsog í sögu... reyndar orgaði Hilmir úr sér lungun þegar inn í vélina var komið en sem betur fer voru restin af farþegunum frammi við gate-ið ennþá og heyrðu ekki ósköpin. Flugfreyjurnar komu okkur vel fyrir í þremur sætum og tóku svo við að hleypa restinni um borð meðan Hilmir saug nautnalega mömmubrjóst. Restin af tímanum fór í að sjarma nærstadda farþega með brosum og hjali, einstaka pirringssmágrátur heyrðist af og til en mestmegnis bara legið á brjósti og sofnað þess á milli. Hæstánægð við lendingu bæði tvö :)

Á laugardaginn fórum við svo til Guðrúnar í höfuðbeina og spjaldhryggsjöfnunina. Hún sagðist vissulega finna fyrir spenningi í litla kroppnum og var heilan klukkutíma að vinna í honum Hilmi. Full áhrif eiga að vera komin í ljós eftir ca 10 daga en við ætlum nú samt að fara í einn tíma í viðbót á miðvikudaginn svona til öryggis. Okkur finnst samt öllum vera munur á honum með hverjum deginum sem líður... örlítið ánægðari eftir gjafir og unir sér jafnvel liggjandi uppí rúmi að horfa útí loftið ! Farin að sofa líka á bakinu með afslappaðar hendurnar liggjandi beint útmeð hliðunum einsog krossfiskur (svaf áður í fósturstellingu á hlið... ALLTAF!). Gladdi mig líka óskaplega þegar hann svaf í vagninum í gær í 2 klukkutíma í stað 1 einsog venjulega.

Þannig að þetta eru spennandi dagar framundan hjá okkur og bara vonandi að hann verði sáttur við lífið þegar við komum aftur til Stokkhólms.

13 október 2005

Komin í ferðagírinn (og töskuna!)


Vorum að pakka fyrir íslandsferðina... fannst tilvalið að pakka bara Hilmi oní líka (passar svona líka voða vel í töskuna) en það er víst skylda að hafa svona kríli sem handfarangur.. bókstaflega! Posted by Picasa

12 október 2005

700 grömm á 7 dögum !

Á mánudaginn fórum við öll þrjú í heimsókn til barnalæknisins í ungbarnaeftirlitinu. Tilgangurinn var tveggja mánaða skoðunin og auðvitað vorum við Ingó spenntust að sjá töluna á viktinni. Vorum alveg handviss um að hann væri búin að þyngjast, liggur við að við hefðum fundið það sjálf á þessari viku síðan við fórum að gefa þurrmjólk með brjóstagjöfinni. Hilmir hafði sannarlega tekið stökk; orðin 5,1 kg ( sem er 700 gramma aukning frá því seinast þegar hann bætti bara á sig 70 grömmum). Var semsagt komin aftur á sína þyngdarkúrfu og allir ánægðir með það :) Við ætlum bara að halda áfram á sama striki varðandi gjafirnar, hann er orðin nokkuð sáttur við að taka bæði pela og brjóst með "mexíkanahattinum" einsog áður en núna erum við þó nokkuð viss um að hann sé að fá nóg mjólk/þurrmjólk því hann getur látið lengra líða milli matmálstímanna og er allur að verða sáttari við lífið. Barnalæknirinn hvatti okkur eindregið til að missa ekki niður brjóstagjafirnar því það væru alveg líkur á að hann tæki við sér og gæti tekið brjóstið án hjálparhattsins og þarmeð fengið nægju sína eingöngu með brjóstagjöf. Krossum bara puttana !!
Barnalæknirinn lét okkur líka heyra það sem öllum foreldrum þykir best; þið eruð með hraustan og fínan strák í höndunum !

07 október 2005

Ekta ísslingur


Auðvitað er engin ekta íslendingur nema eiga flíspeysu frá 66° norður! Íris og Óli gáfu Hilmi þetta líka fína outfitt sem var prufukeyrt í vagninum í dag með fínum árangri.

Í öðrum fréttum er ekkert skemmtilegt eiginlega; Hilmir var ekki að þyngjast einsog venjulega (bara 70 grömm í stað 300) í seinustu viktun hjá ljósunni svo okkur var "ráðlagt"/skipað að gefa honum þurrmjólk eftir hverja einustu brjóstagjöf. Það gerði það að verkum að hann var fljótur að afneita brjóstinu en varð svo hálfómögulegur þegar þessar notalegu stundir við brjóstið urðu skyndilega MUN færri !? Hann er þessvegna ferlega dyntóttur þessa dagana, grætur mikið og líður voðalega skringilega. Við foreldrarnir sitjum bara með stórt spurningarmerki og ennþá þreyttari og vonlausari í huga og hjarta en fyrri daginn. Vonum bara innilega að þetta sé bara erfitt tímabil sem eigi eftir að ganga yfir með farsælum endi hvort sem hann fari alveg yfir á pelagjafir eða brjóstagjafir í bland með þurrmjólkurábót.
Bindum líka miklar vonir við höfuðbeina og spjaldhryggsjöfnunarmeðferð sem hann á pantaðan tíma í laugardaginn eftir að við komum til Íslands (ég og hann komum 14. okt og verðum í viku, stutt ferð sem aðalega á að létta álagi á mér og skipta um umhverfi). Svona meðferð á víst að gera kraftaverk á börn einsog hann sem hafa átt í erfiðleikum frá fæðingu, sérstaklega með það í huga að hann var tekin með sogklukku sem hefur ábyggilega gefið honum dálítið erfiða kynningu á umhverfinu til að byrja með.Posted by Picasa

02 október 2005

Fyrsta fjölskyldusjálfsmyndin


Við Ingó höfum safnað "sjálfsmyndum" af okkur frá upphafi sambandsins. Eigum góðan sjóð af myndum af okkur við hin ýmsu tækifæri og ferðalög, allar teknar með útstrektri hendi minni. Fyrsta sjálfsmyndin af okkur með Hilmi var tekin í síðustu viku. Sést þarna vel hversu þreytt og útpískuð við erum.... og hversu vel haldin Hilmir er :)
Hilmir er annars að taka stór skref á þroskabrautinni þessa dagana, allt í einu er hægt að leika við hann (= hann sér og hefur áhuga á hlutum, sérstaklega skærlitum og sem heyrist í), spjalla við hann (= hann hjalar og býr til hljóð sem líkjast barnababbli æ meir) og svo brosir hann til okkar meir og meir á ólíklegustu stundum. Posted by Picasa