Litli og stóri... Hilmir og Valtýr

31 ágúst 2009

Déjavú

Ekki laust við að maður fái smá déjavú við að upplifa dag einsog í dag og skoða svo mynd einsog þessa sem var tekin fyrir 4,5 ári síðan.
Ótrúlega stór áfangi finnst manni að vera komin hingað "aftur". Að telja vikurnar sem meðgönguvikur (í dag er 17+6) og bíða spennt eftir litlum einstaklingi til að bæta enn frekar við fjölskylduna okkar. 1. febrúar er víst dagsetningin sem er sett á stækkunina... bara 154 dagar í það !

Hilmir talar um "barnið okkar" og hlakkar voðalega mikið til að fá að verða loksins stóri bróðir. Við efumst ekki um að hann eigi eftir að sinna því hlutverki með mikillri prýði. Hann er t.d. þegar búin að skipuleggja það að ég og hann eigum að setja bleyju á barnið, en svo þegar barnið kúkar í bleyjuna má pabbi koma og skipta á því ;) Forgangsröðin alveg á hreinu hjá honum !

Í sónarnum fengum við að sjá alveg hreint fullkominn lítinn kropp sem er vonandi bara í óðaönn að vaxa og dafna þarna inní hlýjunni. Allt leit vel út og já við fengum að sjá á hvers kyns var. Einhver sem vill gera heiðarlega ágískun ?! Skjóttu á það í commentinu ;)
Posted by Picasa

30 ágúst 2009

Fótaróla

Posted by Picasa Já það eru sko engin aldurstakmörk á rólum. Hvorki dekkjarólum né heldur fótarólum einsog þessari sem við rákumst á við Överjärva gård þegar við fórum í það sem væntanlega verður síðasta útikaffihúsaferð sumarsins. Hilmir rólaði reyndar yfir sig þegar honum tókst í einhverjum æsingi að sleppa kaðlinum meðan hann var á uppleið svo hann fékk smá höfuðhögg og situr nú eftir með kaðalformaða kúlu á augnbrúninni. Kemur ekki að sök... það var alveg svo gaman að þessu annars :)
Posted by Picasa

Posted by Picasa

26 ágúst 2009

Emilstímabil

Nú er næsta skeið runnið upp hjá Hilmi. Það skeið er ekki að "vakna snemma á morgnana", "spyrja 100x á dag afhverju", "horfa á sömu sjónvarpsþættina í marga marga daga" eða einhvað álíka. Nei. Upp er runnið... óþekktarskeið að hætti Emils í Kattholti.
Hann er nefnilega búin að átta sig á því að;

a) ef maður lokar sig inní herbergi/baði/eldhúsi og þegir í 5 mín samfleytt getur maður komist upp með að plotta heimsyfirráð... eða í versta falli prakkarastrikast allverulega

b) ef maður segir "fyrirgefðu" og setur upp hvolpaaugu kemst maður upp með hvað sem er

c) það er jafnvel hægt að kenna öðrum um voðaverkin og þannig reyna að komast upp með þau

Þetta sannaðist allt saman í kvöld þegar hann náði vænni prakkarastrikaþrennu á innan við 2 klukkutímum.
- Nýja hárgreiðslubarbídúkkan fékk smá strípur (cirka þriðjung hársins) með grænum upphrópunarlitapenna.
- Það var tæmt úr heilum brúsa af froðubaði oní baðkarið... án þess að það freyddi þó...
- Einhverntíman meðan hann var með vin sinn G. í kvöldheimsókn fengu veggirnir inní herberginu hans smá makeover... með bleikum og fjólubláum vaxlitum... krass-style að sið 4 ára...

Þess ber að geta að töfraspreyið Vanish nær bæði upphrópunarpenna úr dúkkuhári og vaxlitum af veggum. Sem betur fer.

Við bíðum spennt eftir morgundeginum !

24 ágúst 2009

Vel lukkuð veisla með meiru

Afmælisveisla aldarinnar var haldin í gær. Eða það vill Hilmir örugglega halda fram. Hann vill líka gjarnan hafa afmælisveislur allan daginn alla daga vikunnar... helst ;)

Buðum nokkrum leikskólakrökkum sem komu ásamt foreldri og systkinum svo úr varð heljarinnar partý með stuði og stemningu langt frammeftir degi. Foreldrarnir gæddu sér á kökum en vinsælast hjá krökkunum var kex og popp (sjá mynd). Einfalt að verða við því. Hilmir fékk nú samt afmæliskökuna sem hann var búin að panta uppúr blaðinu og sést þarna blása á kertin sín fjögur.
Verð líka að nefna það að hann var búin að taka fram að hann vildi láta syngja fyrir sig afmælissöngin á íslensku svo þegar ég spurði hann hvort það væri ennþá viljinn þá játaði hann og úr varð að við örfáu íslendingarnir á svæðinu fengum að standa fyrir söngskemmtun fyrir svíana sem ábyggilega hafa aldrei farið í barnaafmæli þarsem ekki var sungið "ja må han leva!".
Posted by Picasa

Rétt í blálokin á veislunni voru krakkarnir búnir að hlaupa úr sér alla orku með blöðrueltingaleikjum og almennum grallarskap úti í góða veðrinu. Þá kom sér nú vel að við vorum búin að lauma með okkur krítapakka og það sló sko í gegn ! Einbeitingin leynir sér ekki ;) Hilmir þarna (þessi í bleika... hvað annað) með Kötu, Idu, Sigrid og Joppe.
Posted by Picasa

21 ágúst 2009

4 ára !

Í gær var fjölskylduhátíð mikil hér á bæ þegar Hilmir Viktor varð formlega fjögurra ára gamall. Dagurinn byrjaði á ostabrauðsneið, bananakökusneið, afmæliskerti og afmælissöng. Það var tekið vel á móti honum í leikskólanum með hamingjuóskum og sérstakri tilkynningu á töflunni í anddyri deildarinnar hans með "grattis Hilmir, 4 år i dag" svo að allir gætu séð hver afmælisbarn dagsins væri.
Svo fékk hann samkvæmt alkunnri hefð að velja kvöldmat dagsins sem samanstóð af kjötbollum, kartöflumús og brúnni sósu. Eftir kvöldmat hélt svo dagskráin áfram með pakkaopnun en þá rættist heitasta ósk Hilmis um að eignast glænýja og ljóshærða Barbíe-dúkku. Liggur við að innihald annara pakka sem rötuðu undir hans hendur fengju ekki alveg sömu óskiptu athygli drengsins en hann hefur sem betur fer frammað jólum að melta allt þetta nýja dót sitt ;)

Á sunnudaginn er svo leikskóla-vina-veisla sem við vonum að eigi eftir að lukkast vel. Nógu lengi er hann nú búin að bíða eftir þessari veislu því við þurftum að fresta henni þegar hann veiktist þarna í síðustu (og þarsíðustu) viku.
Posted by Picasa

09 ágúst 2009

Pikknikkdagur

Fórum í smá lautarferð eftir læknisheimsóknina á föstudaginn. Þetta var smá nostalgíuferð fyrir okkur því þarna fengum við að ráfa um elskað Östermalm... miðbæjarhverfið sem við bjuggum í fyrstu 4 dvalarárin okkar í Svíþjóð. Notuðum tækifærið og fengum okkur langþráð wrap í Saluhallen í hádegismat (Hilmir lét sér að góðu pasta úr 7-11) og settumst niður í Humlegården með aðföngin.
Ekki laust við að maður sakni hverfisins með öllum sínum óneitanlegu kostum. Ingó var fljótur að rifja upp bílastæðaplássleysi, rándýr bílastæðin, dubbelparkeringar, hundaskít á gangstéttum og almenn þrengsli í strætisvögnunum. Hilmir kvartaði allavega ekki yfir að fá að fara á risaleikvöllinn þarna í Humlegården ;)
Posted by Picasa

Bólurnar

Verður maður ekki að taka mynd til að sanna bólulegt útlit drengsins ? Kannski sést það ekki nógu vel... okkur finnst hann hrikalegur og sjálfur tekur hann andköf þegar hann stendur fyrir framan spegil.
Greyið...
Posted by Picasa

08 ágúst 2009

Veikindi í þriðja veldi

Hilmir lítur út einsog hann sé með unglingabólur af verstu gerð. Sérstaklega slæmur í andlitinu og ekki skánar það ef mar lyftir upp bolnum og kíkir á mallakútinn.
Ekki nóg með að hann sé með sínar venjubundnu frauðvörtur heldur bættist ofan á það svokölluð kossageit (svinkoppor) sem lýsir sér einsog bólur sem verða fljótlega að sári. Við vorum hjá barnalækni með hann í gær til að tala um bakflæðið og að prófa ný lyf gegn því, og þá tók hún eftir þessum bólum. Staðfesti að þarna væri líklega á ferðinni þessi kossageit og að við ættum að bera á þær bakteríudrepandi krem svo þær fjölguðu sér ekki um of. Svo væri þetta smitandi og við ættum þess vegna að halda honum frá öðrum börnum.
Sagt og gjört.
En svo í morgun..... þá fór ég að kíkja á viðbætur næturinnar. Og haldiði ekki að ég hafi fundið á drengnum klassískar, gamlar og góðar, HLAUPABÓLUR!
Aumingja strákurinn okkar :(

Sem betur fer er hann ekki með hita ennþá. Og sem betur fer vorum við hvort eð er búin að plana rólega viku fyrst hann væri með kossageitina... og erum þar að auki öll í sumarfríi !

En það er ekki sjón að sjá hann blessaðan. Hann tekur andköf þegar hann kíkir á sjálfan sig í spegli..... "Ég er með svo margar bóóóólur!"

04 ágúst 2009

Verkefni helgarinnar

Lögðumst í smá verkefni um helgina. Viðarhúsgögnin sem hafa staðið í herbergi Hilmis frá því hann var smábarn voru orðin ansi vel sorgleg í útliti eftir áralanga krass-meðferð með hinum ýmsu vax-, tré- og tússlitum. Ákváðum því að splæsa málningu og smá í endurnýjun.

Hilmir fékk að sjálfsögðu að velja litinn og benti með harðákveðnum svip á bleikasta bleika litinn á sýnishornaveggnum í búðinni.
Svo hófst verkið með aðstoð ungherrans. Hann stóð sig reyndar ágætlega en að vinna við hliðina á spenntum bleikglöðum bráðum 4ra ára dreng er eins og að vinna við hliðina á tímasprengju. "Ekki dýfa penslinum svona djúpt oní!" var vinsælasta setning dagsins.
En stollt vorum við mæðgin daginn eftir þegar allt var þornað og húsgögnin fengu að fara aftur inní herbergið :)
Posted by Picasa

Afmælisundirbúningurinn hafin


Það styttist í stórafmæli. 4 ára stórafmæli. Eru ekki annars öll afmæli frammað 11 ára "stórafmæli" sem verðskulda tilheyrandi veisluhöld ?

Í gær deildum við út boðskortum. Leikskólafélögum boðið. Hilmir vildi bjóða ÖLLUM en ég dróg línuna við að ég yrði að þekkja mömmu barnsins. Vissulega teygjanlegt hugtak en minnkar hópinn úr 40 boðsgestum niður í 8. Passlegt það.

Hilmir benti á mynd á forsíðu glanstímaritsins "Elle Mat & Vin" og pantaði sér súkkulaðiköku með jarðaberjum og rjóma í afmælisveisluna sína (sjá mynd). Mér er það ekki ofaukið nema síður sé svo í næstu viku hefst bakstursundirbúningurinn.

Óskalistinn inniheldur allt sem við kemur hinni nýfimmtugu, klassísku og hábeinfættu fröken Barbie. Gjarna með ljóst hár og í glimmerprinsessukjól. Svo já, hlaupahjólið sem við ætluðum að gefa honum í afmælisgjöf bíður bara til jóla og víkur fyrir þessari ljóshærðu ;)