Litli og stóri... Hilmir og Valtýr

30 október 2007

Tungumálaflækja

Eins og kannski margir (eða ekki svo margir) vita eru mörg orð í íslensku og sænsku keimlík. Þess vegna reynist mörgum íslendingnum auðvelt að læra sænskuna, þarf ekki að breyta miklu frá móðurmálinu, vatn er t.d. "vatten" og blóm "blomma". Auðvelt ekki satt ?

Nei ekki aldeilis !

Þegar við vorum að venja Hilmi inná nýja leikskólann var ég beðin að fylla út smávegis eyðublað þar sem fram kæmi fjölskyldusagan okkar, hvaðan við værum, hvernig líf Hilmis hingað til hefði verið og hvaða væntingar við bærum til veru hans á leikskólanum. Þetta fyllti ég út samviskusamlega og lét koma fram að ég vonaðist til að fóstrurnar myndu meðal annars "ge honom den aga som han behöver för att utvecklas" ("veita honum þann aga sem hann þyrfti til að þroskast...") osfrv.
Kom svo seinna í ljós þegar ég var að spjalla við aðrar mömmur á innskóluninni að sænska orðið AGI væri afskaplega neikvætt orð og það lá við að þær litu mig hornauga þar til við gátum reitt úr tungumálaflækjunni að íslenski skilningurinn á aga væri barasta besta mál. Bara annað orð yfir uppeldi !
Einni mömmunni fannst þetta svo fyndið allt saman að hún endursagði söguna í brúðkaupi nokkrum vikum síðar. Og að lokum var þetta pikkað upp af einhverri ríkisútvarpsstöðinni sem hafði umfjöllun um þennan vandræðagang og um uppruna og notkun orðsins "agi".

Í ljós kom að sænska orðið agi þýddi upprunlega "uppeldi" en afbakaðist í áranna rás yfir það að vera hreinasta barnaofbeldi, kúgun og hvaðan af verra.

Þrátt fyrir þessa uppljóstrun ætla ég nú ekkert að fara að pína Svíana til að nota orðið í sinni upprunlegu merkingu. Held það flækji bara málin.
En einhvernvegin finnst mér ég (eða íslenska tungumálið yfirhöfuð) hafa fengið vissa réttlætingu ;)

Og hjólajól it is......


Þessi pæling með hjólajólin (sjá færsluna fyrir neðan) var ekki lengi í bígerð í hausnum á okkur Ingó. Skelltum okkur í hádeginu í dag og keyptum fallegt blátt hjól handa Hilmi (sjá mynd). Nebblegast útsala í gangi þessa dagana svo að (mínum) hagsýna hætti ákváðum við bara að kaupa gripinn strax og geyma til jóla. Sem betur fer les Hilmir ekki þetta blogg og myndi hvort eð er ekki skilja það ef einhver myndi reyna að kjafta því í hann hver hjólajólaplönin væru ;)
Við erum annars alveg að farast úr spenningi að "þurfa" að bíða eftir að gefa honum hjólið. Snjórinn er hinsvegar alveg að fara að koma svo það yrði dáldið antíklimax ef hann fengi að prófa það strax og þyrfti svo að bíða. Betra að bíða bara eftir að snjóinn leysi.
Nýjasti orðaforðinn þessa dagana er annars:
"Hih... fá vatn" (já... hann virðist kalla sjálfan sig Hih)
"þú/du líka" (farin að fatta þetta með þú og ég)
"hejsan... va gör ni ?... heheheh" (þessi kemur út einsog samtal en ég efast um að hann viti hvað hann er að spyrja að.. .bara svona smá kurteisishjal í drengnum með tilheyrandi hlátri í lokin)

28 október 2007

Alvöru stórustrákahjól !

Hilmir virðist hafa vaxið uppúr þríhjólinu sínu á þessum tveim stuttu mánuðum síðan hann náði færni á þessu hjóladæmi öllu saman.
Fórum nefnilega öll saman út að leika í morgun og fundum alvöru tvíhjól (með hjálparadekkjum) í reiðileysi fyrir utan einn leikskólann hérna í nágrenninu. Fengum það aðeins að láni til að gá hvort Hilmi tækist að hjóla á því og jújú... viti menn.... tók hann ekki margar mínútur að tækla þessa þraut.

Við foreldrarnir erum alvarlega að hugleiða hvort þessi jólin verði hjólajól ;)

Vel lukkaður pönnsusunnudagur

Fylltum heimilið okkar í dag af pönnsum, þeyttum rjóma, sultu.... og fólki ! Var dúndurgaman og Hilmir naut þess að leika við alla krakkana sem komu.
Í dag var líka "tímabreytingardagurinn" en þá er farið úr sumartímanum og klukkan færð aftur um 1 klst. Við notuðum tækifærið með öllum hamaganginum hérna í dag að rugla Hilmi ærlega í ríminu og það virðist hafa tekist. Hann steinsofnaði fljótlega eftir að síðustu gestirnir fóru og sefur vonandi til allavega 7 í fyrramálið.
Hann tók annars á móti fyrsta gestinum og kvaddi sömuleiðis þá síðustu bleyjulaus. Bleyjan fór reyndar á þarna inná milli í cirka klukkutíma eða svo en hann er orðin ótrúlega duglegur að halda fínu fínu nærbuxunum sínum þurrum.

22 október 2007

Amma og Hilmir

Amma er búin að vera í heimsókn hjá okkur síðan á föstudag. Ekki leiðist Hilmi það... einn í viðbót til að dáðst að sér við hvert tækifæri. Hann er nefnilega farin að rukka um það ef honum finnst hann vera duglegur og ekki er verið að taka eftir því ;)
Í gær fórum við öll saman í Moderna Museet í brunch. Eftirá kíktum við inn í listaverkstæðið sem er þarna fyrir börn. Þar var hægt að leira, lita og mála að hjartans lyst undir stjórn listaþroskaþjálfara. Hilmir þurfti nú ekkert að kalla í svoleiðis þjálfara enda er amman þrællærð í sínu (lista)fagi og kennir það svo í þokkabót. Bara aðeins eldri krakkar sem hún er vön að kenna en það kom nú ekki að sök.
Annars tókum við eftir því fyrst nún þegar myndirnar voru skoðaðar hversu vel samstillt Hilmir og amman eru. Bæði í grænum fötum og með rauða litinn í hárinu ;) Skylt fólk þarna á ferð.
Posted by Picasa

17 október 2007

Merkjadellan óumflýjanleg


Nú er orðið kalt og tími til komin að bæta vettlingum við útifötin á Hilmi. Ekki vinsælt. Alls ekki vinsælt. Við prófuðum allskyns tegundir af vettlingum, bæði fingravetlinga og þumalvetlinga. Ekki að gera sig, allt rifið af jafn óðum.
Þar til við duttum niðrá svona spidermanvettlinga sem eru ekki með fingrum fremst. Á myndinni sést hvað ég meina... þessir vetlingar eru tvöfaldir nefnilega og hægt að taka þá gráu af og nota þá staka.
Success !!
Fyrir það fyrsta getur hann ennþá notað puttana sína, bara lófarnir og hendin sjálf sem helst heit og góð.
Síðast en ekki síst er þessi líka roooosa flotta spiderman mynd á þeim. Ekki það að hann viti hver eða hvað spidermann er en þetta heillar hann alveg ofboðslega. Hann situr meira að segja og horfir á sjónvarpið með vettlingana á sér. Tekur þá snyrtilega af sér þegar hann þarf að borða (svo þeir verði ekki skítugir sjáðu til) en biður svo um þá aftur.
Ég er farin að skilja núna Spiderman nærbuxur, Alfons Åberg húfur og Latarbæjar-fatalínuna einsog hún leggur sig.
Erfiðu fötin (naríur, húfur, kuldagallar osfrv) fá að vera í friði á litlu kroppunum ef einhver karakter er á þeim.
Og við féllum í gildruna.
Lousy parents.
Get bætt við söguna að við létum hann máta kuldagallann um daginn. Hefði viljað eiga vídeó af því. Þetta var svo mikil leiksýning að það hálfa væri nóg; "Hilmir er svoooo flottur!" og "sjáðu, mamma ætlar að fara í gallan þinn!"
Við höfðum varnaglann að múta honum einsog foreldrar Eika gerðu um daginn. Hann var settur í kuldagallann með þeim skilyrðum að hann fengi svo "ís" (frosin barnajógúrt).
Held annars að Hilmir fatti ekki mútur. Hann skilur ekki að hann þurfi að þvo á sér hendurnar ÁÐUR en hann fær að horfa á sjónvarpið. Ef hann sér einhvað sem honum langar í þarf hann aðf á það strax.

16 október 2007

Samsæriskenningar, ísát og fimleikar

Við Ingó erum orðin jafn fær og Dr. House að kryfja sjúkdómstilfelli oní nafla. Allavega í barnalækningum.
Afleiðafræði ætla ég að kalla það.
Nýjustu samsæriskenninguna fengum við frá barnalækninum í gær. Fórum þangað í smá spjall og planeringu um hvað skal gera varðandi eyrnabólguna, bakflæðið og allt það. Komumst að því að Hilmir virðist aðallega fá eyrnabólgu á sumrin. Í sumar hefur hann verið með það 1x í mánuði frá apríl - ágúst. Ekki gaman það.
Barnalæknirinn vildi meina að það væri líklegt að hann væri með ofnæmi fyrir grasi eða birki. Að þá lækkaði ofnæmisþröskuldurinn svo mikið að hann fengi vírusa sem orsakaði svo eyrnabólgur.
Hún vildi gera ofnæmispróf á honum í febrúar til að tékka betur á þessu.

Góðu fréttirnar voru nú samt þær að Hilmir var ekki með eyrnabólgu, lungun hljómuðu vel, var orðin heil 15 kíló og rétt tæpir 90 cm að lengd.
Hún dáðist líka að því hvað hann væri duglegur að tala, og það á tveim tungumálum. Varð hissa á því kommenti því ég miða hann gjarnan við eldri börn (Eika) og/eða stelpur á svipuðum aldri (Emilía, Áslaug Edda).
Miðað við þennan undraskara er hann bara einsog babblandi baby. En augljóslega, miðað við síns eigins aldur og kyn er hann stórkostlega duglegur :)

Við verðlaunuðum hann fyrir dugnaðinn hjá lækninum með mjúkís á McDonalds. Hann fór í fýlu þegar hann fékk ekki druss (Dajm) einsog mamma svo við sköffuðum smá Smartiesdrussi á hans ís. Þá varð hann glaður og sat á stólnum sínum og kroppaði upp Smartísinn úr ísnum. Lét ísinn vera en át það litla nammi magn sem var að finna þarna ;) Hljóp svo um eftirá og sýndi fimleikakúnstir (til að ná úr sér orkunni) vegfarendum til millrar skemmtunar.
Hann heldur nefnilega alveg rosalega að hann sé að standa á höndum einsog Elísa stóra systir þegar hann setur hendur og höfuð í gólfið en lyftir einum fæti upp í einu.

11 október 2007

Vogue - Hilmir style....


Danssporin (sjá mynd) voru tekin á höstbufféinu í leikskólanum núna áðan.... mikið leikið, mikið spjallað og miiiiikið borðað. Ég held ég hafi aldrei séð jafn mikið úrval af hakk- og beikonréttum ;) Pastasallatið sló að sjálfsögðu í gegn.
Það var gaman að fá að vera svona á leikskólanum með Hilmi og hitta "kompisana" hans og foreldra þeirra.
Fóstrurnar á deildinni eru líka rosalega duglegar við að taka myndir af börnunum og því sem þau eru að gera þarna á daginn, svo fékk myndasýningin að rúlla á tölvuskjá svo allir sæju. Hvert barn er svo með eigin möppu með myndum af sér í. Hilmirs mappa var með myndum af honum að lita, mála, leira, leika úti og inni, borða og sofa.....
Var búið að spá snjókomu í dag en það varð aldrei úr... í staðinn var hellihellirigning sem við fengum sannarlega að bragða á á heimleiðinni úr leikskólanum. Kannski snjórinn komi á morgun í staðinn ?

Snäääällaaaa...

Hilmir skreið uppí til mín í morgun. Pabbi hans hafði sent hann inn til að "segja mömmu að koma á fætur". Hilmir hlýddi og kom uppí og fann fæturnar mínar og benti stolltur á þær; "fætur!".
Svo hófst beiðnin. "Sjónvarp" segir Hilmir og bendir á núorðið lítið notað sjónvarpið í svefnherberginu. Ég reyndi að þræta fyrir, klukkan orðin margt og við yrðum að drífa okkur frammúr svo næðist að borða morgunmat áður en þeir feðgar legðu af stað í leikskólann.
"Sjónvarp!" hélt Hilmir áfram og skimar um eftir fjarstýringunni.
Mamma þrætir enn fyrir.
Þartil stubburinn bætti við "Snälla".
Þá bráðnaði ég og kveikti á kassanum.

Hann er orðin nokkuð góður í þessum smáorðum. "líka", "núna" og "seinna" eru alveg á réttum stað í setningunni. "mamma koma líka" (með honum í rennibrautina) er til dæmis vinsælt.

Í dag erum við búin að boða okkur í haustbuffé á leikskólanum. Þá eiga allir foreldrarnir að mæta kl. 16.30 og hafa með sér einhvern matarrétt sem hægt er að hafa á sameiginlegu hlaðborði. Svo verður mumsað og spjallað meðan börnin leika sér. Ingó verður útundan en honum leiðist nú ekki því hann er að fara á Sushigerðarnámskeið í kvöld.
Ég ætla að gera pastasalat með kjúkling, beikon, pestó og fetaosti. Vona að það verði nú étið af öðrum en mér og Hilmi ;) Hann gæti sko étið pasta allan daginn, alla daga ef hann fengi að ráða ! Pasta Carbonara er í uppáhaldi en það staðfesti hann með því að segja "gott pasta, besta pasta í heeeeiiimi!". Pabbinn hjálpaði náttlega aðeins til með orðavalið. En gott var það nú.

07 október 2007

Stórir strákar fá raflost... og fara svo í bíó

Viðburðarríkur dagur í dag. Hilmir fékk sitt fyrsta raflost og fór svo í bíó í fyrsta skiptið !
Raflostið fékk hann á rafmagnsgirðinu hjá kusunum útá túni þegar hann var í morgungöngu með pabba sínum. Það var marg búið að banna honum að snerta girðinguna, og margoft hafði hann snert hana alveg óvart án þess að kæmi straumur.... en svo gerðist það.... hann snerti og akkúrat þá kom straumpúlsinn á vírinn. Hann skædli voða lengi en ætli honum hafi ekki bara brugðið mest. Ekki svo mikill straumur á þessu sem betur fer !

Eftir hádegislúrinn skelltum við okkur svo barasta í bíó. Það endaði á því að við sáum byrjunina á einni mynd... og svo endirinn á annari. Skiptum þessu svona bróðurlega á milli ;) Ástæðan var sú að Hilmir varð hálf smeykur þegar ljósin slokknuðu og svo var fyrsta teiknimyndin frekar hæg. Þannig að við rölltum barasta yfir í næsta sal og kíktum á framboðið þar. Þar festist Hilmir í söguþræðinum og lifði sig alveg svakalega inn í allt... öskraði af öllum kröftum þegar spennandi atriðin komu og svona ;)
Að sjálfsögðu var í boði popp og fernudjús, ekta bíóferð.
Posted by Picasa

Skógarferð í haustveðrinu

Í gær lögðum við af stað í stuttan labbitúr með nesti og nýja skó... ferðin átti að vera stutt og laggóð en endaði í tveggja tíma skógarferð og heimkomu rétt undir klukkan 6 að kvöldi til. Við komumst nefnilega að því að Hilmir er algjör skógarálfur og elskar að labba um göngustíga, klifra í trjám og vellta sér um í grasinu. Hann gekk og hljóp sjálfur í heilan klukkutíma og varð alveg brjálaður þegar við, uppgefnir foreldrarnir, buðum honum að setjast í vagninn svo við gætum nú drifið okkur heim á leið.....
Sem betur fer erum við heppin að heimilið liggur alveg við Järvafältet sem er gríðarstórt náttúrusvæði með fullt af gönguleiðum og skóglendi. Hérna eru meira að segja kusur á beit !
Posted by Picasa

Baka

Hilmir er búin að fatta þetta með að "hjálpa til við" að baka. Það þýðir að þá fær hann að hræra aðeins um í deiginu, hella hveitinu úr einu íláti í annað osfrv. Einhvernvegin endar hjálpsemin alltaf í því að hann stendur og sleikir allt sem hefur snert deigið. Deig með kakóbragði er náttlega ekkert vont ;)
Posted by Picasa

01 október 2007

Á fullri ferð

Posted by Picasa

Posted by Picasa
Sjaldan hægagangur í Hilmi, hvort sem hann sé að hjóla eða hlaupa... þá gerist það helst hratt !
Þessar myndir eru teknar á innrigarðinum hjá íbúðinni okkar. Við stoppum yfirleitt alltaf við á leiðinni heim úr leikskólanum annaðhvort þar eða á rólónum rétt hjá. Svona rétt aðeins til að smakka enn frekar á fríska loftinu áður en við förum inn að gera kvöldmatinn (Hilmir fær að glápa á Playhouse Disney á meðan). Hann er þá yfirleitt búin að vera úti frá klukkan hálfþrjú, svona til viðbótar því að vera úti 9-10.30 og alveg gjörsamlega búin á því. Þreyttur og sæll strákur.