Litli og stóri... Hilmir og Valtýr

23 ágúst 2008

Fimur leikfimisstrákur

Loksins er Hilmir orðin nógu gamall til að fara í skipulagða hóptíma eins og dans, balett og leikfimi. Flestallt framboð miðar við að börnin séu lágmark 3gja ára.
Vorum alveg harðákveðin í að leyfa honum að fara í danstíma, skráðum hann og svo átti fyrsti tíminn að vera í dag.... en en.... það voru víst ekki nógu margir í hópnum svo það var fellt niður. Sem plástur á sárin var leikfimi í boði á sama stað (www.piggabarn.se).

Ætli fólk sé virkilega feimið við að senda börnin sín í dans ? Kannski þetta sé hverfisbundið. Í okkar hverfi er helst í boði magadans fyrir börn ! Sé alveg Hilmi fyrir mér í magadansbúningnum sínum frá Tyrklandi. Og já. Já við keyptum handa honum svoleiðis búning. Allar litlu stelpurnar í Tyrklandi voru í svona og hann leið vítiskvalir á hverjum degi við að fá ekki eins. Suðaði og suðaði. Fengum að heyra "snääälllaaaa" ótt og títt. Á endanum sprakk Ingó. Gafst upp og rauk inn í næstu búð og keypti bláan búning. Skárra en bleikt að hans mati. Hilmir búin að vera alsæll síðan þá.

En hann fer ekki í barnamagadansnámskeið fyrr en í harðbakkann slær. Látum leikfimina þarnæsta hverfi nægja í bili þartil dansinn kemst aftur á dagskrá. Hann var annars alveg voðalega ánægður með þennan fyrsta tíma í dag. Ingó fékk að sitja frammi og fylgjast með honum í gegnum glergluggann á salnum. Hilmir hljóp um, fór í kollhnís og hoppaði á stökkbrettinu einsog óður væri. Sofnaði svo vær og sæll eldsnemma í kvöld ;)

Ég verð að ljúka þessu innleggi með því að segja frá hvað ég fékk að heyra TVISVAR í dag. Það var sko nebblega flóamarkaður í hverfinu í dag og ég strunsaði út með alla skóna sem Hilmir er vaxin uppúr til að reyna að losna við þá fyrir smá pening.
Og tvisvar heyrði ég frá sitthvori manneskjunni; "eru þessir skór á strák eða stelpu". Umræddir skór voru annarsvegar brúnir og hinsvegar rauð-og hvítköflóttir. Are you kidding me ?! Eru fæturnir mismunandi á strákum og stelpum ?! Seriously ? Ef fólk sér ekki mun er það ekki þá bara að segja allt sem segja þarf ?

21 ágúst 2008

Þriggja ára snillingur


Hilmir var kallaður til þriggja ára skoðunar á barnaheilsugæslunni hér í hverfinu. Mamman fékk að fara með... ofcourse ;)
Þar var athugað með skilning, minni, orðanotkun osfrv. Drengurinn gjörsamlega brillaði og kom bæði mér og BVC hjúkkunni á óvart með hversu vel hann svaraði og brást við beiðnum hennar.
Til að nefna dæmi bað hún hann að standa á einum fæti. Lagði svo til að kannski væri best að fá að styðja sig við mömmu sína til að hjálpa jafnvæginu. Haldiði ekki bara að hann hafi leyst málið; hann studdi báðum höndum í gólfið og lyfti barasta upp öðrum fætinum eins og beðið var um !
Hann átti heldur ekki í neinum erfiðleikum með að sparka til hennar bolta... með sitt hvorum fætinum samkvæmt beðni..
Svo áttu þau bara svona almennt spjall um hvað fóstrurnar á leikskólanum hétu og bestu vinirnir. Hún sýndi honum myndaspjöld og bað hann að benda sér á hvað væri hægt að borða, drekka úr og klæða sig í. Hann leysti allar þrautir með snilldarbrag... ofcourse.... enda laaaaangt á undan öðrum börnum ;)
P.s. myndin er af Einstein sem ungum dreng. Sjáiði ekki alveg svipinn !!?? *fliss*

20 ágúst 2008

Pakkadagurinn stóri

Það er ekki leiðinlegt að fá pakka og í dag fékk sko Hilmir alveg fullt fullt af þeim ! Enda ekki á hverjum degi sem maður verður þriggja ára ;)
Hann var vakin með afmælissöng, afmæliskerti og afmælisköku í morgunmat... og að sjálfsögðu einum pakka.
Eins og hefð er fyrir má afmælisbarnið svo velja hvað fjölskyldan borðar í kvöldmat og ekki var það nú erfitt val fyrir afmælisguttann okkar; pizza var það heillin. Honum er alltaf jafn vel tekið á pizzastað hverfisins og þjónað eins og litlum prinsi. Ekki það að við förum þangað oft (!!) en hann er nú ekki beint týpan sem gleymist fljótt.
Eftir matinn var það svo ís og svo aðalpakkaopnunin úr sérsendingunni frá Íslandi. Við getum nú lesið fyrir hann alvöru norskan hræðsluáróður (Karíus og Baktus) og en meiri letibikkjuhræðsluáróður (Litla Rauða hænan). Allar nýju bækurnar voru að sjálfsögðu vígðar fyrir svefninn.
Á myndinni sést einbeitingin við opnunina. Það voru teknar nokkrar svona. Ingó kallaði á athygli og bros en ég var sú eina sem svaraði kallinu !
Posted by Picasa

17 ágúst 2008

Stórafmælisdagur nr. 3

Það voru svo sannarlega veisluhöld hér hjá okkur í dag þegar Hilmir hélt uppá þriggja ára afmælið sitt með pomp og prakt. Bestu vinunum úr leikskólanum var boðið (ásamt foreldrum) svo það voru svíar í meirihluta, aldrei þessu vant.
Þema veislunnar var "bleikt og bílar", algjörlega í anda drengsins okkar sem var hæstánægður með þetta allt saman ;)
Við fengum að kynna séríslenska kaffiboðsrétti fyrir svíunum; kleinur og heita brauðrétti. Og svo tók ég mig til og bakaði eitt stykki princesstårta algjörlega frá grunni. Ekki létt verk en lukkaðist stórvel og fékk fullt hús stiga hjá innfæddum en kökuverk þetta er eitt af því sem telst algjörlega sérsænskt.

Svo verða míníhátíðarhöld hjá okkur á miðvikudaginn þegar hann verður formlega orðin TRIGGJA !!
Posted by Picasa

09 ágúst 2008

Upp í munn og oní.....

Nú þegar Hilmir er farin að tala svona mikið (og skilja /fatta alveg óheyrilega margt) hrynja uppúr honum gullkornin.
Í gær kom eitt sem vert er að segja frá.
Eins og allir vita þá fer maturinn "uppí munn og oní maga". Hilmi finnst það athyglisvert og tuggði á þessari setningu í nokkra daga áður en hann botnaði svo með "já og svo aaaallla leið oní tær" !

Náttlega algjörlega rökrétt miðað við þyngdarlögmál og svoleiðis ;)

04 ágúst 2008

Alþjóðlega leiktúngumálið

Passar ekki Hilmir alveg inní þessa mynd ? Þetta eru fjórir strákar á aldrinum 4-7 ára sem við rákumst á á búðarrölltinu okkar í Konakli um daginn hér í Tyrklandi. Konakli er gamall ferðamannabær sem leggst í hýði á veturnar en vaknar svo til lífs þegar túristarnir á nærliggjandi hótelum streymir að. Dáldið svona einsog tíminn standi í stað þarna (cirka 1986) og við fílum það alveg ágætilega... gaman að röllta um og láta búðareigendurna lokka sig inn að skoða skran og eftirhermumerkjavörur á tómbóluprís.

Í fyrradag leituðum við hælis í skugganum í miðjum flísalögðum verslunarkjarna sem er hálftómur fyrir utan nokkra klæðskeraholur, rakara, te-sala og kebab-eldhús.
Hilmir sá glitta í strákana og stökk af stað. Gekk fyrst varlega að þeim, sagði ekkert og fylgdist bara með. Strákarnir sátu við sitthvorn stólinn kringum þetta borð þarna sem var svo hægversklega hlaðið með bílunum, kubbum og öðru strákadóti sem þeir voru að skiptast á að leika með. Þeir voru ekkert að kippa sér upp við að skjannahvítur aðkomudrengur skyldi birtast.
Hilmir vildi augljóslega vera memm í þessum leik og sem betur fer vorum við með leiktöskuna hans með sem inniheldur hluta af þeim bílum sem hann er búin að vera að sanka að sér í þessari ferð okkar. Það virkaði sem aðgöngumiði í leikinn og 5 mínútum seinna var hann orðin órjúfanlegur hluti af þessum leik þeirra Konaklistrákanna. Þó þeir töluðu ekki einusinni sama túngumál nægði algjörlega að nota fingramál, líkamstúngumál... og svo fyllti *bruuuummmm* út í restina. Hilmir lánaði þeim sitt og fékk svo að leika sér að þeirra dóti. Ekkert "MITT!" einsog er svo vinsælt hjá honum annars.
Ingó notaði tækifærið og skellti sér til rakarans í kjarnanum á meðan við Elísa sátum og fylgdumst með leiknum.
Það er eiginlega á svona stundum sem ég bara skil ekki hvernig fólk getur talað um mismunandi menningarheima, rasisma, kúltursjokk og annað slíkt.... börnin eru eiginlega ágætis fyrirmynd !
Posted by Picasa