Litli og stóri... Hilmir og Valtýr

28 mars 2009

Á leiðinni !

Þá erum við á leiðinni. Sitjum hérna heima og látum okkur leiðast, klukkutími í leigubílinn sem ferjar okkur og allan farangurinn okkar útá völl. Ingó yfirgaf okkur eldsnemma í morgun til að fara í maraþonpróftöku. Hann ákvað að nota tækifærið og taka sænska högskoleprovet sem er boðið uppá tvisvar á ári. Samræmt landspróf sem getur auðveldað manni að komast í rétt háskólanám.
Ég tók þetta próf vorið 2007 og fékk ágætis einkun.. nú er að sjá hvort big brained Ingó slái mér ekki við ;)

Hilmir vaknaði annars klukkan korter yfir fimm í morgun (NÓTT!) og óskaði eftir að fá nefsprey. Það varð ekki aftur snúið eftir það og drattast var á lappir. Vona þá bara að hann sjái sér fært að sofna aðeins í flugvélinni á eftir.

Við heyrumst og sjáumst vonandi á næstu tveim vikum kæru lesendur !! Ætla að næla mér í íslenskt símanúmer við lendingu og verð í sambandi :)

19 mars 2009

Síðustu metrarnir !

Nú á vorið að fara að koma til Stokkhólms. Það er allavega formlega komið til Uppsala svo ekki er það nú langt undan (til að það teljist vera "vor" á hitamælirinn að sýna plúsgráður samfellt nokkra daga í röð). Það er allavega á mörkunum að útifötin hans Hilmirs haldi sér þessa dagana... bestu kuldahanskarnir eru farnir að vera blautir að innan, húfan er farin að lykta einsog fótur... og þar af leiðandi hausinn á honum líka, og svo eru fóstrurnar farnar að klæða hann í pollabuxur utanyfir kuldagalann því sjálfur gallinn er grunsamlega nálægt því að hætta að vera vatnsheldur.

*dæs*

Mikið rosalega hlakka ég til að það verði flíspeysuveður !!

Annars kvartar Hilmir ekkert yfir þessu. Undanfarna daga þegar ég hef sótt hann hefur hann verið DRULLUskítugur eftir að hafa baðað sig í leirdrullupollum sem eru víðast hvar um útileikvöllinn núna þegar frostið í jörðinni er farið og snjóskaflarnir orðnir að litlum tjörnum. Í barnsaugum er þetta hið mesta ævintýraefni (leirinn þ.e.a.s) sem má gera drullukökur úr og láta bíla fara í torfæruakstur í. Svo hefur "grísaleikurinn" líka orðið vinsæll hjá krökkunum. Þið getið rétt svo gískað ykkur til um útá hvað hann gengur ;)

16 mars 2009

Dudduleysi - lokakafli

Já hann var sem betur fer sársaukalítill þessi lokaduddukafli. Hilmir virðist alveg hafa sætt sig við að duddurnar væru farnar fyrir fullt og allt... hefur bara beðið um þær einu sinni.
Við vorum alveg búin að búa okkur undir að þurfa að vakna svolítið oft þessa seinni duddulausa nótt en hann svaf bara alveg til sjö næsta morgun takkfyrirkærlega !

Húrra fyrir því ;)

15 mars 2009

Dudduleysi - dagur 1



Þar kom að því ! Enn eitt stóra skrefið tekið og það að frumkvæði Hilmis. Dudduleysi með meiru.
Við erum búin að vera að ýja að þessu síðan í desember með að gefa jólasveininum duddurnar (svo hann geti gefið litlu börnunum sem eiga engar duddur) og að hann fái þá að launum frá sveinka einhverja gjöf. En aldrei var Hilmirinn almennilega tilbúin til að stíga skrefið. Fyrr en í gær þegar hann sá alveg einstaklega girnilega Wall-E geimstöð útí búð.
Ég ætlaði eiginlega varla að trúa því að það væri komið að þessu og beið alltaf eftir að hann myndi hætta við og biðja um duddurnar sínar. En neinei.. þær voru tíndar saman í poka, bréf skrifað til sveinka og sett í pokann. Farið í bað, náttföt, lesið og að sofa. Aldrei beðið um duddurnar. Hann reyndar átti voða bágt með að sofna sjálfur og þurfti smá strokur og staðfestingar á tilverunni frá mömmunni. Greyið lá þarna og vissi varla hvað hann átti að gera við hendurnar á sér (sem vanalega hafa verið tryggilega fullar af duddum), klappaði sér um munninn og sofnaði svo að lokum.
Í nótt vaknaði hann tvisvar og átti pínu bágt með sig en bað samt aldrei um elsku duddurnar.
Og svo árla morguns klukkan sex vorum við vakin af ofuránægðum og duddulausum Hilmi sem stóð sigri hrósandi með risapakkann sinn frá jólasveininum :)

Ótrúlegt hvað er hægt að gera þegar viljinn er fyrir hendi.

10 mars 2009

Týndur ?

Það hlaut að koma að því að ég lenti í þessu klassíska "búin að týna barninu mínu í stórmarkaði"- mómentinu. Og eflaust hef ég litið út einsog geðveik manneskja sem hleyp framhjá ostaborðinu þrisvar á innan við 6 mínútum kallandi á Hilminn.

Forsagan er sú að við Hilmir förum saman að versla bara tvö á laugardögum. Hann tekur hlutverk sitt mjög alvarlega, fær að standa í innkaupakerrunni, raða oní pokana og svo banana að launum úr grænmetisdeildinni. Aldrei verið neitt stærra vandamál. En svo uppá síðkastið hefur hann viljað fá að skoða dótadeildina sem er næst síðasta deildin áður en komið er að kassanum. Þá hef ég oft stússast einhvað þarna í kring og haft hann í sjón- eða heyrnarfjarlægð.
Síðasta laugardag vill hann skoða og ég segi við hann að ég ætli í þarnæsta gang að sækja gos. Tók skýrt fram að hann mætti bara vera í dótadeildinni og ég kæmi strax aftur.
Þegar ég kom tilbaka örfáum mínútum seinna án þess að hafa heyrt hann kalla á mig (hefði heyrt það hátt og skýrt) var drengurinn horfinn. Bara einsog hendi væri veifað !
Hlaupa hlaupa, kalla kalla, hlaupa yfir sama staðinn aftur og aftur. Hugleiddi hvort ég ætti að láta kalla hann upp í hátalarakerfinu. Hugleiddi hvort honum hefði hreinlega verið rænt (mjöööög ólíklegt og þekkist varla hér í Svíþjóð). Hljóp að klósettunum. Hljóp að gá hvort hann hefði farið í grænmetisdeildina að ná ser í nýjan banana. Panikk-tilfinningin óx í maganum á mér....

Og þá sá ég hann koma á móti mér skælbrosandi. Ó hvað ég var fegin að hafa fundið hann aftur. En að "finna" hann gerir ráð fyrir að hann hafi verið týndur. Hann var nefnilega alls ekkert týndur !
"Mamma ! Ég fann TANNKREM!"
Tvær tannkremstúpur sem hann var búin að troða í vasann á flíspeysunni sinni og renna upp.
Ekki nema furða að hann hafi verið týndur í svona langan tíma....

04 mars 2009

Fer að líða að páskum

Bara örfáar vikur í næstu íslandsferð. "Mycket efterlängtat" einsog svíarnir orða það.

Hilmi hlakkar allra mest til að fara í flugvélina og heldur því fast fram að hún sé af millistærð (einhvað minna ógnvekjandi en risastór þota). Svo hlakkar honum líka til að fara í leikhús, afin og amman ætla nefnilega að bjóða honum á Kardimommubæinn. Undirbúningurinn er þegar hafin en hér er lesin fyrir hann einn kafli á kvöldi úr Kardimommubæjarbókinni sem afinn sendi honum í sérstakri sendingu frá Íslandi.

Á dagskránni er líka ferming stóru systurinnar og þar fær hún elskan í fyrsta skiptið að hafa öll systkini sín hjá sér... í einu ! Svona er nútímakjarnafjölskyldan víst orðin ;) Við eigum von á yndislegri stund öll stórfjölskyldan hennar samankomin. Svo fermist hún líka í Dómkirkjunni en þar var hún líka skírð 1995, við Ingó giftum okkur þar 2004 og líka ég skírð 1977 og foreldrar mínir gift á sama degi. Góðar stundir í áranna rás !

Að sjálfsögðu eigum við eftir að hafa nóg að gera við að banka uppá hjá fólki og heimsækja. Grunar að Hilmir eigi eftir að hafa mest gaman af því að heimsækja langafa og langömmu í Haðalandinu því þar er heilt dótaherbergi með álíka miklu magni af dóti einsog á litlum leikskóla. Langafi og langamma hafa nefnilega alið upp 5 drengi og 11 barnabörn sem öll hafa fengið að njóta góðs af gossinu í herberginu.

Af Hilmi er annars gott að frétta. Hann er ljúfur sem lamb og hraustur sem Herkúles. Börn og fullorðnir veikjast í kringum hann (á leikskólanum) en ekkert virðist það snerta hann *7, 9, 13*.
Hann skrifaði nafnið sitt sjálfur í fyrsta skiptið um daginn (með smá sýnikennslu á stöfunum). Var nefnilega að senda kort til afa síns með teiknaða mynd af afanum framaná og kvittaði svo fyrir sig í lokin ;) Ekki lélegt afrek þar á bæ þegar maður er bara þriggja og hálfs !