Litli og stóri... Hilmir og Valtýr

23 febrúar 2008

Fyrsti hjólatúr "vorsins"

Hitamælirinn lofaði 16 gráðum og sól í heiði þegar við fjölskyldan risum úr rekkjum miðdagsblundsins í dag. Í tilefni þess ákváðum við að drífa okkur út í hjólatúr útá Akalla Gård sem er hér í hæfilega langri fjarlægð frá heimilinu; 2 lestarstöðvar ef við hefðum tekið lest og cirka 30 mín með hjóli. Passlegt.
Á Akalla gård er alveg heljarmörg leiktæki handa Hilmi að príla í og svo sull-sundlaug (plaskdamm) sem við þurfum að bíða eftir hlýrra veðri eftir.
Við fengum að finna fyrir því að við hefðum þjófstartað aðeins á vorferðinni okkar því engin kaffihús þarna í nágrenninu voru búin að opna. Gerist allt næstu helgi.... góð ástæða til að fara aftur ;)

Á myndinni sést hversu vel uppábúin við mæðgin vorum þrátt fyrir "hitann". Enda eins gott því það snarkólnaði niður í 5 gráður 2 tímum seinna !
Posted by Picasa

Viskubrunnur

Hilmir kann að telja uppað 12. Hann kann líka flestalla tölustafina, meira að segja líka núll. En stafina kann hann hinsvegar ekki, hefur bara ekki sýnt því áhuga þó við höfum reynt. ("H... eins og í H-i-l-m-i-r" og þá svarar hann tilbaka "H.. einsog í M-a-m-m-a" og skiptir svo snarlega um umræðuefni)
En eitt kann hann.
Og það eru bílamerkin !
Ef hann sér viss bílamerki galar hann upp nafnið á þeim og í langflestum tilfellum hefur hann rétt fyrir sér. BMW, Audi, Peugot og Toyota eru efstir á minnislistanum.

Einhverstaðar verður lærdómurinn að byrja ;)
Ingó ver þetta með þeirri ástæðu að hann er að læra tákn... sem er gott... svona grunnur að stafalærdómnum.

18 febrúar 2008

Meira af bling bling-Hilmi

Gleymdi að láta föstudagssöguna fylgja með skónum hér í fyrra innleggi. Það hefur allavega aldrei farið milli mála að Hilmi þykji gaman að dansa, oft sem við setjum í gang "100 íslensk barnalög" eftir kvöldmatinn og svo er haldin fjölskyldudanshátíð frammað háttatíma.
En á föstudaginn kom ný dýpt í málið.
Við mæðgin sátum í sófanum og vorum að horfa pínu á sjónvarpið áður en Hilmir fór uppí rúm... og þá byrjaði skemmtiþátturinn "Let´s Dance". ... drengurinn var ekki lengi að hlaupa inní herbergi og sækja kjólinn sinn (maður verður að vera í kjól þegar mar dansar) og úr varð hálftíma langt dans maraþon þar sem mér var harðbannað að setjast niður (enda var ég danspartnerinn hans í einu og öllu).
Notaði tækifærið í næstsíðasta auglýsingahléinu og sannfærði hann um að þátturinn væri búin svo ég gæti nú komið honum uppí rúm. Hann sofnaði 2 mín seinna algjörlega úrvinda og súpersæll.
Hilmir hefur definetly verið svona dansiballsgaur í fyrra lífi. Svona sem fór á öll sveitaböllin og bauð gellunum upp... íklæddur glimmerskóm !

16 febrúar 2008

Strákar þurfa líka að fá að vera fínir



Það er alveg ótrúlegt hvað spariskór á stráka eru.... BORING ! Í alvöru talað ! Það eru litir á borð við.... svart og... svart. Maður getur fengið þá í tvennskonar útgáfum; matt-svart eða lakk-svart.
Get sannað mál mitt hér .
Við erum nebblega á leið í fermingartörn um páskana svo mér fannst við hæfi að Hilmir fengi eigin spariskó svo hann þyrfti ekki að trampast um á gömlu allt of stóru silfurskónum sem hann var í um jólin.
Var ást við fyrstu sýn þegar hann sá þessa glimmerskó (sjá mynd) í H&M. Tók brjálæðiskast þegar hann fékk ekki að vera í þeim í lestinni á leiðinni heim en lét sig huggast við að fá að hafa þá á höndunum einsog vettlinga í staðinn. Það var svo stór stund þegar heim var komið og hann fékk að setja þá á fæturnar.

Hann á eftir að verða svo fínn í veislunum á Íslandi !!

Get ready for bling-bling Hilmir !!!

15 febrúar 2008

Homies alonies - february edition

Er að koma að lokum þessarar einsemdarviku okkar Hilmirs. Hann er alveg hættur að leita að pappa sínum á morgnana eða kalla eftir honum þegar við komum innum útidyrnar eftir leikskólann ("hææææ pabbiiii" er staðalkallið). Finnst rosa stuð að heyra í honum í símanum á kvöldin, vill þá gjarnan að við tökum símann með okkur uppí rúm og lesum öll saman bílablaðið. Hann virðist ekki gera sér grein fyrir því að pabbi sjái ekki gegnum símtólið. Þvílíkt tæknisinnaður. Algjört tvöþúsundaldarbarn.

Ég þakka guði fyrir að við séum með barnapíuna á standby. Hún sótti Hilmi í leikskólann í gær þegar ég fékk mígrenikast um hábjartan dag niðrí miðbæ og rétt náði að koma mér heim áður en ég ældi.
Hilmir virtist á einhvern furðulegan hátt gera sér grein fyrir höfuðfötlun mömmu sinnar þetta kvöldið. Strauk mér um hausinn og fullvissaði mig um að þetta yrði allt í lagi... "ingen fara mamma..."
Stóla bara á það.

09 febrúar 2008

Hafnað á hárgreiðslustofunni

Ég fékk mjög "pena" neitun á hárgreiðslustofunni sem ég fór á í gær. Konan sem augljóslega var líka eigandi stofunnar (og mjög líklega eini starfsmaðurinn) hafði svo augljóslega engan áhuga á að klippa strákinn sem sat þarna óvitandi af höfnuninni í vagninum sínum.
Ekki það að ungi egypski maðurinn á stofunni í götunni okkar klippi hann einhvað ílla... en það bara er oft dáldið subbulegt því hann vandar sig svo mikið að það eru cirka 3 umferðir af smáhárum á bæði mér og Hilmi eftirá. Svo ég ákvað að prófa einhvað nýtt enda nóg af stofum í hverfinu.
Fór þess vegna og bankaði uppá hjá þessari og spurði hvort hún ætti lausan tíma sama dag. Svarið var "nei því miður".
En á fimmtudaginn ? "Nei alveg upp bókuð út vikuna"
Og svo kom pena höfnunin; "ég get eiginlega sagt það hreint út að ég er alveg uppbókuð næstu tvær vikurnar".
Riiiiiight. Hún spurði ekki einusinni hvaða tíma dags ég væri að hugsa um.
Hafði bara augljóslega engan áhuga á svona haus sem ekki þurfti að setja permanent og lit í !

En ég bara þakkaði pent fyrir mig og fer í regnfötum, vel varinn hárum, til Egyptans í næstu viku ;)

07 febrúar 2008

Sóttur á leikskólann

Í gær var Hilmir sóttur á leikskólann af barnapíunni sinni henni A***u. Fyrsta skiptið sem hún sækir hann þangað (hún náði bara að sækja hann 2x á hinn leikskólann fyrir langa langa löngu áður en flutningarnir komu til). Hann varð voða hissa að sjá hana dúkka upp þarna og var sko alveg til í að fara heim með henni enda var pizza í boði þegar þangað yrði komið. Hann fékk svo að horfa á bílamyndina sína (Cars) þartil við komum heim af okkar mynd, við fórum nefnilega á gamalmennasýningu (klukkan 3 að degi til) á sænska stórvirkið "Arn Tempelriddaren". Vorum definetly yngsta fólkið á þeirri sýningu fyrir utan 12 ára strákinn sem var þarna með ömmu sinni.
Í morgun þegar við vorum að fara á leikskólann spurði Hilmir mig "A***a koma svo sækja?". Fer ekki á milli mála að hún er dáldið uppáhald hjá honum ;)

En já til að svara kommenti hér að neðan frá Söru systur; nei, við erum ekki homies alonies ennþá. Ingó fer af landi brott (til Seattle á tölvunördaþing) á laugardagsmorguninn og þá hefst einsamvera okkar Hilmis. Erum búin að bjóða okkur sjálfum í fullt af matarboðum, heimsóknum og fleira svo vonandi leiðist okkur ekkert alltof mikið....

03 febrúar 2008

Loksins !

Loksins loksins kom vetrarsnjórinn til borgarinnar. Kyngdi svoleiðis niður í gærkvöldi og hætti ekki fyrr en seinnipartinn í dag... en þá tók líka rigningin við svo það var ekki seinna vænna að drífa sig útí brekku með sleðana og nýta tækifærið.
Eiki og foreldrar hans komu til að renna sér með okkur (litla systirinn svaf bara á sínu græna meðan á öllu stóð) og svo var gúffast á kaffi og pönsum eins og skylt er eftirá.

Bílaæðið er komið á nýtt stig hjá Hilmi. Í staðinn fyrir lestur barnabóka á kvöldin er Ingó farin að lesa með honum bílablaðsviðaukann úr Dagens Nyheter. Þar þylja þeir upp allar bílagerðirnar; Audi, Volvo, Peugot... og svo... merkið sem allir þekkja... B-M-Voff !!
Posted by Picasa