Litli og stóri... Hilmir og Valtýr

17 nóvember 2010

Björgin okkar


Þeir bræður voru kátir litlir sláturkeppir hér í síðustu viku með að fá heimsókn frá Íslandi. Ingibjörg góðvinkona okkar gladdi okkur með nærveru sinni í nokkra daga og var mikið borðað, hlegið og kósístundast. Drengirnir fengu ófá knúsin og Hilmir naut meðal annars góðs af hálftíma kvöldlestri marga daga í röð uppúr glænýju herramannabókunum sínum sem honum voru færðar.
Myndin sýnir svo glöggt hversu stór Valtýr er orðin... og tennurnar í bæði efri og neðri góm ;)
Glatt á hjalla !

Fyrstu skrefin !

Valtýr getur ekki skriðið á eðlilegan hátt. Dregur sig áfram á maganum og virðist ekki fatta að setja undir sig hnén. En að sjálfsögðu vill hann komast áfram og því hefur hann verið alveg ótrúlega duglegur við að koma sér um standandi á afturfótunum einsog við mannfólkið í kringum hann.
Löngu farin að labba meðfram húsgögnum heimilisins og lætur sér nægja að halda í okkur með annari hendinni þegar á að leiða hann um íbúðina. Voða góður með sig og öruggur. Við höfum meira að segja geta haft ofanaf fyrir honum með því að búa til þrautabraut (raða stólum saman) svo hann geti komið sér frá einum enda herbergisins til annars.

Í dag, 17. nóvember kl 14 að staðartíma tók Valtýr sín fyrstu óstuddu skref. Hann var að skoða fjarstýringu á borðinu og vildi komast til mín þar sem ég sat á gólfinu rétt hjá honum. Ég sá að hann reiknaði út hvort hann næði til mín án þess að þurfa annaðhvort að kasta sér yfir til mín eða biðja um hendina (sem hann er annars duglegur að gera, réttir fram litlu búttuðu puttana sína og segir ákveðinni röddu "ah ah!"). Svo bara snéri hann sér á hæli og tók tvö skref til mín. Ætlaði varla að trúa þessu ! Stuttu seinna lét ég hann á gólfið og sleppti og hann endurtók tveggja skrefa gönguna að nærsta húsgangi.

Valtýr er þar með algjörlega búin að sprengja viðmiðunarskalann sem við erum með á þeim bræðrum. Í dag er hann tæplega 9,5 mánaða. Hilmir tók sín fyrstu skref 11 mánaða og gekk öruggur rétt um mánuði seinna.
Svo nú bíðum við spennt !

14 nóvember 2010

Haustganga

Þvílíkur dýrðarmorgun sem við Hilmir fengum að njóta með sænskum hverfisvinum í dag. Höfðum lengi talað um að fá að slást í för með útivistaráhugafólki og þriggja barna foreldrunum sem meðal annars eiga hana Kötu sem Hilmir ætlar að giftast þegar hann verður stór (og að sögn Kötu eignast 4 börn með).
Í dag kom loks sá dagur. Hittumst kl 10 í morgun og spásseruðum saman úti nærliggjandi skóg þar sem þau vissu af eldstæði sem hægt væri að nota. Þar var hoggin niður eldiviður á staðnum (já, þau voru með öxi í töskunni sinni) og kveikt upp í (já, þau kunnu svoleiðis).
Á eldinn var svo lögð heljarinnar panna (sem þau höfðu gert sér lítið fyrir og borið útí skóginn) þar sem steiktar voru pylsur, bakað brauð (já þau komu með deig) og í desert boðið uppá nýbakaðar krabbelurer-pönnsur velltar uppúr sykri (já.. þau stóðu fyrir því líka).

Krakkarnir fengu að rúlla, hlaupa og hoppa í skóginum og fylla svo mallakúta af mat. Þrem klukkustundum síðar vorum við komin aftur í menninguna leirug uppfyrir haus og hæstánægð. Frábær dagur sem við ætlum pottþétt að endurtaka næst þegar verður komin almennilegur snjór. Þá er stefnt á 10 km göngu og grill :)