Litli og stóri... Hilmir og Valtýr

25 apríl 2009

Bændur í Svíþjóð það erum við

Öngvar fréttir eru víst góðar fréttir ;)
Það er allavega blússandi sumar komið til Stokkhólms svo mikið er víst. Við fáum að njóta veðurblíðunnar extra vel þessa dagana þar sem við erum komin í samstarf við granna og leikskólaforeldra (yngsta dóttirin var á sömu deild og Hilmir) um "kólónílott" eða ræktunarblett sem þau leigja hérna í hverfinu. Markmiðið er að hjálpast að við að rækta blettinn, setja niður grænmeti og leyfa krökkunum að hjálpa til (lesist.. leika meðan fullorðna fólkið vinnur baki brotnu) ásamt því að eiga góða uppskeru síðsumars.

Í dag fórum við mömmurnar því ásamt yngsta fjölskyldumeðliminum þeirra (7 mánaða) og grófum upp moldina svo við getum sett niður kartöflur næsta föstudag. Hilmir og Ingó slógust í för síðasta klukkutímann og Hilmir fékk að setja á sig "moksturshanska", tína upp steina úr beðunum og sveifla skóflunni fagmannlega um.
Held að þetta verði alveg prýðileg reynsla fyrir hann. Man eftir því sjálf hvað það var hrikalega gaman að taka upp kartöflur með langafa og pabba. Moldinni snúið og svo var fjársjóðsleit og tínt í fötu. Og náttlega engu síðra að éta glænýjar kartöflur í hýðinu með smjörklípu vænri ;)

16 apríl 2009

Komin heim að heiman

Já þessar tvær vikur á Íslandi voru skotfljótar að líða. Hápunktarnir voru að sjálfsögðu fermingin hennar Elísu, fyrsta leikhúsferðin hans Hilmis með afa sínum og ömmu (Kardimommubærinn) og svo fyrsta súkkulaðipáskaeggið hans.
Það er nú alveg saga að segja frá því. Vona að ég geti sett inn myndir frá þeim viðburði fljótlega og ítarlegri lýsingu ...

Hilmir eyddi stórum hluta gærdagsins í að endurkynnast öllu dótinu sínu. Okkur foreldrunum til mikillrar ánægju enda eru langar leikþagnir sjaldséður gestur á heimilinu. Í dag fór hann svo aftur á leikskólann sinn, fékk faðmlög frá fóstrunum og gleðihróp frá krökkunum. Frétti svo að hann hefði leikið sama leik og heima hjá sér daginn áður: langar leikþagnir og augljóslega voðalega ánægður með að vera komin aftur í eðlilegt umhverfi sitt.

En ekki er nú laust við að hann sakni Íslandsins góða og alls þess sem þar var að finna. Hann spyr t.d. reglulega ennþá hvar afi og amma og Katrín móðursystur séu. Held að í hans draumaheimi þá hefðu þau bara fylgt með heim til Svíþjóðar. Get svosem alveg tekið undir þá dagdrauma ;)

09 apríl 2009

Fermingardagurinn hennar Elísu, skírdag 9. apríl 2009




Nú þurfum við bara hreinlega að þjóðnýta bloggið hans Hilmis til að fá að grobba okkur af stóru stelpunni, stóru systur og frumburði Ingó sem fermdist í dag í Dómkirkjunni. Þetta var voða fallegur dagur, sólin skein í heiði og varla að þyrfti yfirhafnir. Hentaði mér ágætlega þar sem ég skrýddist erfðargrip frá langalangaömmu; peysufötum. Elísa var voða glæsileg og þjóðleg í upphlut.
Það gleymdust nátturlega alveg óhemju mörg myndatækifæri en við reyndum að bæta það upp í blálokin. Þá náðist þessi mynd af Elísu með systkinum sínu þeim Perlu, Hilmi og Arney litlu. Rík stúlkan ;)

04 apríl 2009


Það eru miklir hamingjudagar hérna hjá okkur í Reykjavíkurborginni. Hilmir nýtur þess sérstaklega að fá að rifja upp kynni við land, þjóð og hana Emilíu vinkonu sína. Í dag fórum við svo í roki, rigningu, hagli og glampasólskini (já, svona ekta íslenskt sýnishornaveður) í Fjölskyldu og húsdýragarðinn með Emilíu, foreldrum hennar og litlu systur. Þau Hilmir og Emilía hjálpuðust að við að skoða allt sem fyrir augu bar, fengu að komast aðeins á hestbak og leiddust svo þess inn á milli.
Þessar elskur ;)