Litli og stóri... Hilmir og Valtýr

31 júlí 2009

Legið á hleri

Hilmir er með heimsókn. Stórvinur hans af leikskólanum og næstum-því-nágranni hann G. er í heimsókn. Við foreldrarnir sitjum frammí stofu og liggjum alveg óvart á hleri, flissandi yfir samtölunum sem eiga sér stað þarna inní herberginu.

Hilmir reyndi lengi og vel að fá G. til að leika með sér í Barbí. Án árangurs.
Svo stakk Hilmir uppá að þeir fengju lánaðan kíkirinn hans pabba síns og horfa útum gluggann. Það vakti stormandi lukku í 2 mínútur slétt.
Þegar G. stakk uppá að þeir myndu leika "hárgreiðslumann" gerðum við okkur ferð framhjá herberginu til að gera statustékk. Síðast þegar G. lék þennan leik á leikskólanum þurfti að snoða drenginn sem lenti í að vera kúnninn. 3 fallegir skallablettir prýddu höfuð hans, það gleymdist nefnilega að afvopna börnin af skærum sem höfðu verið í notkun eftir föndurstund ;)
Engin skæri voru í sjónmáli inní herberginu hans Hilmis svo við létum þá vera.

Svo hófst metingur um hvor þeirra fengi að horfa á Spidermanmyndir. Þeir komu fram til að láta okkur fullorðna fólkið staðfesta muninn á bíómyndum sem væru bannaðar börnum og svo teiknimyndum sem væri í lagi að horfa á.

Núna eru þeir að leika "hundur og manneskja". Titillinn útskýrir væntanlega hvað er í gangi í þeim leik....

Við erum með backup-plan sem fer í framkvæmd eftir cirka 10 mín.
Íspinnar í frystinum.
Klikkar aldrei.

20 júlí 2009

Fyrsta uppskeran

Við kotbændur þrömmuðum útí gróðurreitinn okkar (kólónílotinn) ásamt hinni kotbændafjölskyldunni núna á sunnudaginn. Þar ákváðum við eftir miklar spekúlasjónir að taka upp fyrsta kartöflubeðið (af samtals 5) og þær gulrætur og rauðbeður sem væru orðnar nægilega stórar til suðu.
Afraksturinn má sjá hér á efstu myndinni. Kartöflurnar voru vinsælastar hjá krökkunum enda mikil fjársjóðsleit sem hófst hjá þeim um leið og búið var að stínga uppúr moldinni. Þeim var samviskusamlega safnað saman í bala og skipt bróðurlega milli heimilanna tveggja.

Posted by Picasa Þarna erum við Hilmir í tínslunni. Reyndar fékk Hilmir greyið ekki að leika lausum hala þarna í beðunum því að sumt grænmetið er ennþá svo pínuponsulítið að það þarf að gefa því nokkrar vikur í viðbót þarna í moldinni. Hilmir og Ida létu sér því nægja að sulla smá í vatnskrananum og klippa blómvendi handa mömmunum sínum með dótaskærunum hennar Idu.
Í gærkvöldi var því ofnbakaður lax með nýuppteknum soðnum kartöflum, gulrótum og búðarkeyptum smjörbaunum. Að sjálfsögðu með vænni klípu af smjöri (og salti handa okkur eldri en 4 ára). Er ekki frá því að grænmetið hafi bragðast alveg extra vel í þetta skiptið. Meira að segja Hilmir borðaði gulræturnar með bestu lyst (búðarkeyptum gulrótum fúlsar hann við) ! Rauðbeðurnar eru svo á dagskrá í kvöld með fetaosti og valhnetum. *kjams*

01 júlí 2009

Með tvær í takinu...

Daginn eftir Gröna Lund ævintýraferðina lögðum við af stað til að fara í margumtalað og mikið með mæltu Lådbilslandet. Þegar þangað var komið var barasta lokað svo við tókum næstbesta valið og fórum á Trafikleken í Tumba. Svipað dæmi bara minna. Kom þó ekki að sök, Hilmir þeysti þarna um á litlum rafbílum og eyddi tíköllum foreldra sinna einsog um krónur væri að ræða. Sem betur fer vorum við nokkuð vel birg.

En ekki voru nú öll börn svo heppin að eiga tíkallabirga foreldra og þar á meðal má nefna þessar tvær ungu stúlkur sem létu sér nægja að dáðst að Hilmi og aksturshæfileikum hans (sem eru þónokkrir.. klessti ekkert á og virti meira að segja stöðvunarskyldu!). Hilmir hikaði ekki og bauð stúlkunum far. Sem þær þáðu að sjálfsögðu. Svo þarna rúntaði hann um... með tvær í takinu...

Við sáum framtíðina ljóslifandi framfyrir okkur. 18 ára á sportbíl að hanga á rúntinum með vinkonum sínum. Ójájá.
Posted by Picasa

Fyrsta rússíbanaferðin

Loksins kom að því að Hilmir yrði bæði nógu hugrakkur og spenntur fyrir því að fara í "alvöru" tæki í Gröna Lund tívólíinu...og... væri með réttu hæðina til að vera löglegur í fleiri tæki en bara smábarnatækin.
Svo í Maríuhænuna var farið ! Sem betur fer var Ingó með því þegar tækið lagði af stað varð þetta víst aðeins skelfilegra en hann hafði reiknað með. Kom dáldið skjálfandi út en hann beit þó saman og stoppaði af tárin. Þverneitaði þó að fara aftur. Kannski verður það búið að breytast á næsta ári þegar hugrekkið hefur vaxið aðeins ;) Skelfingarsvipinn má sjá á myndinni.
Posted by Picasa