Litli og stóri... Hilmir og Valtýr

28 janúar 2010

Náðardagar


Algjör afslöppun og letilíf hefur einkennt undanfarna daga hér á heimilinu... allavega hjá mér ! :) Hef náð að slaka vel og vandlega á, sofa eins mikið og hægt er, baka, elda, þvo og skipuleggja heimilið frá toppi til táar. Og svo horft á sjónvarpið og prjónað þess inná milli.
Liggur við að ég geti alveg sætt mig við aðra svona viku ef litlabróður skyldi langa til að hafa það huggulegt inní kúlunni sinni aðeins lengur ;)
En annað myndi stóribróðirinn Hilmir segja ef hann yrði spurður. Hann vill helst hitta brósa sinn sem allra fyrst. Við höfum fengið að heyra ótrúlegustu sögur af þeim bræðrum (sögur skapaðar af Hilmi sjálfum). Til dæmis um hversu líkir þeir eigi eftir að verða þegar þeir eru stórir og farnir í "fullorðinsskóla" (Háskóla). Þá verði þeir þar að auki ekki lengur með krakkanef heldur fullorðinsnef einsog á okkur foreldrunum.
Vantar ekkert uppá ímyndunaraflið í drengnum.
Það er allavega allt tilbúið fyrir komu þess minnsta. Öll nauðsynleg húsgögn skrúfuð saman og stillt upp. Komin lánsvagga á heimilið. Búið að þvo öll litlu fötin og raða þeim oní skúffu. Birgja skiptiborðið með ogguponsulitlum bleyjum og tilheyrandi. Hreiðurgerð af bestu gerð sem ég loksins fékk að framkvæma í ró og næði :)

18 janúar 2010

Frívikan sem ekki varð....

Ekki byrjar nú undirbúningstíminn minn vel. Eftir langar og strangar vinnuvikur við ritgerðarskrif hafði ég séð í hyllingum að geta legið í leti í að minnsta kosti heila viku áður en mögulega-kannski litlibróðir ákveði að láta sjá sig. Vikan átti aðallega að fara í að horfa á og telja bólgnar tærnar, þvo ponsulitlu fötin og sjá til þess að allir kvistirnir í hreiðrinu lægju á sínum stað.
En í staðinn sit ég uppi með endurskrif á ritgerðinni sökum tæknilegra örðuleika (mistaka) sem urðu í gagnavinnslunni. Yndislegt alveg hreint... eða þannig. Vikan styttist því um helming *gúlp* *snökt*.

Hreiðrið er annars á góðri leið með að verða tilbúið. Í gær skrúfuðu Ingó og Hilmir saman gamla skiptiborðið hans Hilmis og öllu var komið fyrir á því. Hengdum upp lítinn óróa fyrir ofan það og dáðumst að því hvað það tæki sig vel út þarna á litla baðherberginu okkar.
Hilmir spyr núna á hverjum morgni hvort að það sé í dag sem við Ingó ætlum að fara á spítalann að sækja litlabróður. Vonandi getum við bráðum sagt já við þeirri spurningu. Bara spurning hvort ég hafi náð að láta mér leiðast (lesist: slaka á heima án skólaverkefnisins) áður en það gerist ;)

11 janúar 2010

Niðurávið og þá er allt frammávið !

Við erum mjög áttavillt þessa dagana. Öll nema litlibróðir sem ákvað að sjá að sér, hlusta á náttúrúlögmálið, og snéri sér í snarhasti niðurávið í mömmumaga.
Enda var síðasti sjéns til þess í dag. Fórum nefnilega í morgun eldsnemma niður á mæðravernd til að láta skella sónartæki á magann og athuga í allra allra síðasta sinn hvernig hann snéri svo hægt væri að bóka vendingu núna í vikunni ef hann væri ennþá í uppréttri stellingu. Ég var að sjálfsögðu búin að margundirbúa mig andlega undir bæði vendingu og sitjandi fæðingu. Hvoru tveggja ekkert sjálfgefið mál og mörg "ef" sem oft enda í að barnið er hreinlega tekið með keisara.
En viti menn ! Fallegt form (höfuðlaga)birtist á skjánum sem reyndist vera búið að koma sér langt oní grindina þannig að ljósmóðirin okkar útskrifaði mig sem "höfuðstöðu, fixerað" í skýrslunni.

Nú er bara að slaka á og leyfa hlutunum að gerast á sínum hraða :)

07 janúar 2010

Litlabróðursfréttir

Það er ekki hægt að hafa fréttir af litla bróður án þess að sýna risahylkið sem umlykur ungann... MIG ! Komst í óléttuteygjujólakjólinn einsog sést á myndinni en glöggir lesendur verða varir við að ég er bæði nælonsokkabuxna og skólaus. Verður svo að vera þegar fætur verða bæði þreyttir og bólgnir ;)

Litli bróðir er ekki enn búin að fatta hvernig heimurinn snýr og þrjóskast við að vera uppréttur í maganum. Kannski í mótmælaskyni við matarofneyslu hátíðardaganna. Ætti þá að vera viðvörunarmiði á Malt og Appelsín dósunum um að "börn gætu átt í hættu að snúa sér EKKI í fæðingarstellingu".
Er núna komin 36 vikur og lögum samkvæmt á hausinn að vera farin að bora sig niður í grind til að undirbúa fyrir komuna í heiminn.
Í næstu viku er búið að bóka mig í sónar til að tékka hvernig í málunum/maganum liggji og ef hann er ennþá uppávið verður reynt að snúa honum með handafli niður. Heppnast víst í 50% tilvika svo ég bið alla að krossa putta og tær og vonast til þess besta.

Annars gengum við frá öllu jólaskrautinu í gær, á þrettándanum. Pakkað samviskusamlega oní kassa og stungið samviskusamlega aftast í geymsluna okkar. Í sömu andrá tókum við samviskusamlega fram gamla smábarnadótið hans Hilmis; skiptiborðið, brjóstagjafapúðann, leikteppið og pínulitlu fötin ásamt því sem við erum búin að vera að sanka að okkur undanfarnar vikur; barnabílstól, burðarrúm og fleira smálegt úr Ikea og Babyproffsen.
Á komandi vikum ætlum við svo í rólegheitunum að skrúfa saman skiptiborðið og setja upp rimlarúmið í hjónaherbergið. Verður skrýtið að fá alla þessa hluti í notkun aftur.
Ég skila inn síðasta skólaskilaverkefninu á mánudaginn og mæti svo á síðasta fyrirlestur föstudaginn í sömu viku. Og svo er ég búin í bili ! Og sé frammá náðuga daga við að þvo föt, prjóna, hekla og sofa :)
Posted by Picasa

Vel varinn

Það margborgar sig að vera vel varinn fyrir veðri, vindum, kulda og skoteldum þegar á að fara út á gamlárskvöld til að sprengja stóru raketturnar.

Hilmir lét sig hafa það að afskrýðast glimmergallanum (jólafötunum) sínum og fór með okkur út eftir hamborgahrygginn til að skjóta upp smávegis með grönnunum okkar. Flugeldasýningin var að hætti íslenskra útrásarvíkinga og fljótlega flokkuðust sænskir grannar út og stóðu með okkur í metersdjúpum sköflum í 15 mínusgráðum og störðu upp í himininn. Ég held að gleðin hafi verið stærðst og mest hjá þeim félögum Hilmi og Arnþóri (4 og 6 ára) sem voru ósparir á tilkynningarnar um hver "ætti" hvaða rakettu. Það er hvaða pabbi það hefði verið sem hefði kveikt í ljósadýrðinni á himninum ;)

Eftir sprengingarnar flýttum við okkur aftur heim í kot, fengum okkur desert og horfðum öll saman á Disney teiknimynd með snakkskálarnar. Hilmir var sofnaður hálftíma síðar, hefð samkvæmt, ofaná mömmumalla.....
Posted by Picasa