Litli og stóri... Hilmir og Valtýr

25 júní 2008

Amma-eli ?

Amma Helga er í heimsókn hjá okkur þessa dagana. Hilmir er voða ánægður með alla athyglina og nýtur þess að láta leika við sig, lesa fyrir sig og knúsa og kreista.
Einhvað hefur hann nú samt misskilið öll tilkallsnöfn ömmu sinnar því þó hann skilji alveg að hún heiti Helga, að hún sé kölluð bæði amma og mamma (af pabba sínum) þá vill hann gjarnan kalla á eftir henni "ammaeli !!" (afmæli)
Hún svarar því nú líka alveg enda er fyrriparturinn alveg réttur ;)

Það annars renna uppúr honum setningarnar núna og okkur finnst hann bara alveg fulltalandi krakkabarn. "Saro má fá lánaðan peugobílinn minn", "baaara Hilmir veifa pabba og mömmu", "nei ég vil ekki fá mjólk, ég vil fá ROSA djúsinn"
Hann er því útskrifaður úr bæði bleyju- og taldeildinni = krakki !

18 júní 2008

Bætt í safnið

Þarna er frúin að bæta í safnið. Þriðja tattooið í höfn. Ákveðið nafn á hebresku. Og gettu nú !! ;)

Hafði lengi lengi langað að fá mér fleiri og dreif mig um leið og Ingó fékk sitt fyrsta... í fertugsafmælisgjöf.
Posted by Picasa

Hæ, hó jibbíjeij !

Við Stokkhólmsíslendingarnir héldum uppá þjóhátíðardaginn síðasta sunnudag (15. júní). Pikknikk á köflóttum teppum, blöðrur og fánar í fánalitunum.... og fána andlitsmálning á litlu andlitin. Svo var náttlega sungið og farið í leiki.
Hilmir naut þess í botn að fá að hlaupa um einsog kiðlingur með öllum hinum krökkunum. Vorum líka í stóóórum garði sem hreinlega bauð uppá að fá að hlaupa lengri vegalengdir án þess að hverfa úr augsýn.
Posted by Picasa

13 júní 2008

Útsjónarsemi


Útsjónarsemi okkar foreldranna á sér engin mörk. Nú þegar maður er fullútskrifaður í bleyjuskólanum (geta skipt um kúkableyju á flugvélaklósetti, vera alltaf með aukableyju í veskinu, bílnum og jakkanum) er klósettskólinn tekin við. Nú þarf maður að vera með á hreinu hvar nálægasta kló er og geta bjargað sér í hvaða bleyjulausa pikklesi sem er.
Eins og í gær.
Þá vorum við í stórri íþróttavörubúð í risa verslunarmiðstöð. Hilmir þurfti augljóslega að pissa en þverneitaði að fara á klósettið. Það stóð ekki til boða að halda á honum æpandi alla leiðina á klósettið því það er í 5 mín göngufjarlægð og kostar svo í þokkabót fimmkall.
Sem betur fer vorum við nýkomin af McDonalds og með mjólkurfernuna sem Hilmir fékk með matnum sínum í veskinu mínu.
Drengnum var þessvegna kippt inn í næsta mátunarklefa og boðið að létta á sér oní mjólkina.
Sagt og gjört.
Vandamálið leyst.
Nú er bara að passa uppá að maður sé með svona ferðakopp þegar við förum í búðarleiðangra :)

ÞREGGJA !

Þegar Hilmir er spurður að því hvað hann er gamall segist hann vera "þreggjára". Maður býst við að það sé einhvað sem er á milli 2gja og 3gja en svo réttir hann þrjá fingur upp í loftið til að staðfesta að það sé seinni talan.
Hann hefur líka spurt mig hvað ég sé gömul og þá hef ég sannarlega fengið að veifa báðum höndum með öllum puttum útí loftið þartil réttur tugur fékkst. Á morgun bætist svo einn putti í viðbót við þennan tiltekna tug. Hef ekki haft fyrir því að reyna að útskýra það fyrir Hilmi. Hann má alveg halda að ég sé þrisvarsinnumtíuputta gömul ;)

Á morgun er semsagt Begguhátíð í tilefni ellinar og verður deginum eytt í brunch með saumó, nuddi á uppáhalds tælenska spa-inu okkar Ingó og svo út að borða saman á einhverjum voða fancy veitingastað með geggjuðu útsýni.
Hilmir fær að vera heima með gömlu barnapíunni sinni henni A**** sem er þá að passa hann í næstsíðasta skiptið áður en hún flytur útá land (í aðra sænska borg) til kærastans síns. Eflaust álíka gaman hjá þeim einsog hjá okkur...

10 júní 2008

Bleyjuleysi - framhald

So far so good... enn er öllu haldið innan skekkjumarka... 1 slys á dag og það í leikskólanum þar sem stundum er dáldið langt í léttinn.
Það er nefnilega svoleiðis að við höfum leyft honum að "vökva" blóm, tré og runna þegar við erum útivið. En á leikskólanum er víst stranglega bannað að míga í grasið ! Væntanlega hreinlætisis vegna. Aldrei að vita hvað minnstu krökkunum dettur í hug að stinga uppí munninn á sér. Pissublautt gras er þá semsagt ekki efst á óskalistanum....

Við erum svo farin að leggja inn hugmyndir að næstu hraðahindrun. Snuddunum. Hann má varla geispa af þreytu nema vera með dudduna við hendi til að stinga uppí sig þegar skoltinn skellur saman aftur. Nefndi við hann að stórir strákar sem gengju í nærbuxum notuðu hvorki bleyjur né duddur. Hann gaf lítið útá það. Svo nefndi ég líka að kannski vildi jólasveininn fá hjá honum duddurnar til að gefa litlu smábörnunum þær.
Sjáum til...

09 júní 2008

Bleyjuleysisárangur

Hilmir var bleyjulaus alla helgina. Bara eitt slys og það finnst okkur nú alveg innan skekkjumarka. Hann er nú búin að vökva flestalla runna og grasbala í 5 km radíus frá heimilinu.

Nú reynir á þessa nýju ábyrgð hans á leikskólanum. Við létum stóran poka af aukafatnaði fylgja með í morgun.
Erum að sjálfsögðu voða stollt af stóra stráknum okkar. Bara verst að við vorum nýbúin að kaupa bleyjupakka sem er ennþá óopnaður ! Ætli búðarstarfsmennirnir séu skilningsríkir á svona lúxusvandamál ? Annars er bara að færa leikskólanum pakkann....

08 júní 2008

Baby Elvis

Við erum búin að bóka flugmiða til Las Vegas árið 2022. Stífar æfingar byrjaðar. Glimmerskór og palíettumussur.
Kóngurinn lifir !
Posted by Picasa

04 júní 2008

Bókaormur

Lýsi hér með eftir íslenskum barnabókum !
Hilmir er komin með þvílíkan áhuga á að láta lesa fyrir sig og við erum svo búin að marglesa sænskar barnabækur að okkur finnst skömm og synd að geta ekki auðgað íslenskuna hans með upplestri.
Hann á það til að biðja mann að koma uppí stóra rúm að lesa og "mýsa" (hafa það notalegt). Setjast með sér á pulluna í sínu herbergi og lesa... nú eða jafnvel rétta manni bók meðan við fullorðna fólkið erum enn að borða og biðja um að láta lesa fyrir sig.

Við Ingó könnumst bæði við þessa áráttu. Vorum miklir bókaormar á yngri árum. Sjálf kláraði ég barnabókadeildina í gamla Borgarbókasafninu fyrir 11 ára aldur og færði mig yfir í ævi- og ástarsögur á fullorðinsdeildinni uppúr því.
Mig hlakkar mest til að fá að lesa með honum bækur einsog Míó minn Míó og Ronju ræningjardóttur. Fá smá upprifjun á barnæskunni.

En já... ef einhverjum vantar að losna við barnabækur. Sækjast eftir hugmynd að afmælisgjöf handa kappanum eða bara langar að gleðja okkur... þá vitiði væntanlega heimilisfangið ;)

03 júní 2008

Fattarinn á fullu

Það er svo ofboðslega margt að detta inn hjá Hilmi núna. Svona hversdagslegir hlutir sem maður tekur ekki eftir að séu mikilvægir eða merkilegir fyrr en hann sýnir fram á þá.
Eins og að til dæmis:
- telja hluti og sýna hversu margir með puttunum. 1 er ekkert endilega sýndur með vísifingri heldur löngutöng. Dáldið fyndið að sjá hann þarna með F*kk-puttann á lofti "EINN!"

- að fá að "klára" hluti. Biður um að fá að klára þáttinn sem hann er að horfa á, klára brauðsneiðina sína osfrv. Og vera svo "búin" þegar hann er búin að "klára".

- samspil með orðum. Þegar ég strýk honum í framan og segist elska hann svo mikið þá segir hann tilbaka "Hilmir elskar mömmu svooooo mikið líka".
Í gærkvöldi lágum við nýkomin úr sturtu uppí rúmi undir sitthvorri sænginni. Ég fann allt í einu skrýtna lykt og fór að hafa áhyggjur af því að hann væri að hafa það aðeins of notalegt þarna undir sænginni. Snéri mér því að honum og sagði "Hilmir... ertu búin að bajsa?". Hann svaraði því neitandi. Þá spurði ég "Hilmir... ertu nokkuð búin að pissa?". Aftur neitandi. En svo kom frá honum mótsvarið "Mamma... varstu að prumpa?!"

- hann lætur reiði sína í ljós á SVO heilbrigðan hátt. Við Ingó ættum að taka þetta okkur til fyrirmyndar. Ef hann vill ekki einhvað þá öskrar hann á það. Frústrasjónin farin. Þá meina ég ekki að hann öskrar á fólk heldur t.d. skó, baðkarið, útidyrahurðina. Bara eitt nett *skríííík* og svo er allt búið. Dagurinn heldur áfram.

02 júní 2008

Hvort er mikilvægara: mamma eða bílarnir ?

Mér var varla heilsað í morgun af litla stubbnum. Fyrsta setningin beind að mér var "Hvar eru nýju bílarnir ?".
Ekki búin að sjá mig síðan á fimmtudagsmorguninn og hann hafði meiri áhuga á nýju bílunum sem ég var búin að lofa að kaupa í London heldur en að fagna mér almennilega.
Eftir að hafa grandskoðað þá og gefið þeim blessun og samþykki fékk ég þó faðm, koss og "takk ástin mín". Einnig yfirlýsingu um að bílarnir væru fínir og hann væri glaður.

Ef hann væri aðeins eldri myndi hann kannski líka hafa áhuga á öllum fötunum sem ég keypti á hann í London. Aðallega þó boring hlutir sem fást ódýrt í Marks and Spencer og Primark. Náttföt, sokkar og nærföt. Eina sem ég vissi að hann myndi hafa áhuga á keypti ég að sjálfsögðu. Þarna fengust nebblega stutterma náttföt með Íþróttaálfinum (a.k.a Sportacus) á 4 pund (600 ISK) ?! Ég bý í röngu landi.... miðað við innkaupaáhuga.