Litli og stóri... Hilmir og Valtýr

31 ágúst 2005

Heimsókn frá ljósunni


(Tek fram að þetta eru ekki mínar loðnu lappir ;) just in case you were wondering)
Fengum heimsókn hingað heim í gær frá ljósmóðurinni "okkar", hún á semsagt að vera okkur til halds og traust þartil... jah... við flytjumst héðan burt býst ég við !
Var voða indæl og átti heillangt spjall við okkur meðan Hilmir svaf á sínu væra, neyddumst að lokum til að vekja hann til að ljósan gæti skoðað hann, vegið og metið. Okkur til mikillar gleði var hann búin að þyngjast um +200 grömm frá því við vorum útskrifuð af spítalanum og er núna því bara tæplega 200 gr. frá því að hafa náð fæðingarþyngdinni. Þetta þykir víst nokkuð gott og sagði ljósan að ekki færi á milli mála að hann væri að fá næga næringu. Var akkúrat það sem við þurftum að heyra eftir allt brjóstgjafabaslið og blés í okkur nýrri orku sem vonandi endist til að styrkja okkur þartil allt er farið að ganga einsog smurt ;) Einsog er stöndum við í allt að hálftíma barningi við að koma elsku drengnum á brjóstið og svo sýgur hann af áfergju í kannski korter.... klukkutíma síðar hefst svo leikurinn á ný. EN ! Það hefur vissulega skánað frá því fyrstu dagana þegar við vissum ekkert hvernig við áttum að fara að þessu... núna kunnum við öll trixin og reynum sem best við getum að díla við þetta með þolinmæði og elskulegheitum.
Posted by Picasa

27 ágúst 2005

Nýjar myndir á heimasíðuna

Vorum rétt í þessu að setja inn nýjar myndir á heimasíðuna okkar (www.beogin.com). Þar er semsagt að finna nokkrar myndir frá fæðingunni, heimkomunni o.sfrv. Allt á fyrstu æsispennandi vikunni í ævi Hilmis :) Hápunktur dagsins í dag var að fara í fyrsta baðið.... hann naut þess alveg svakalega og slakaði gjörsamlega á í vatninu. Var hinsvegar ílla við að vera svo tekin uppúr ! Vona að böðin verði alltaf jafn ljúf í framtíðinni :)

We´ve got a booby kind of love.....


Á viku afmælinu sínu ákvað Hilmir að gleðja foreldra sína, hætta að vera ringlaður/þrjóskur og brjóstagjöfin hefur gengið miklu betur síðan þá..... einsog sést á myndinni fer hann í milk-enduced coma eftir hverja gjöf ;) Hvað gæti verið betra í heimi hér ?? Posted by Picasa

25 ágúst 2005

Hilmir komin heim....


Hér er Hilmir í "heimferðarfötunum" sínum sem ég byrjaði að prjóna á hann um páskana :)

Létum loks verða af því að fara heim af fæðingardeildinni/fæðingarhótelinu í dag og brunuðum heim (á lúsarhraða) með verðmætið okkar í bílstólnum sínum. Var mjög skrýtið að koma aftur hingað á heimilið með þennan litla einstakling og vita það að héðan eftir verður hversdagsleikinn aldrei eins.
Okkur gengur annars ágætlega með hann og hann með okkur.... er pínu ringulreið akkúrat núna fyrstu dagana varðandi brjóstagjöfina (hann virðist stundum ekki vita hvað hann eigi að gera til að fá matinn sinn) og þessvegna smá barningur við hann greyið og til ýmiskonar galdrabragða tekið af hálfu okkar Ingó. En við vonumst nú til að það leysist á næstu dögum þegar hann er aðeins búin að átta sig á umheiminum. Annars er hann mjög rólegur, er að þyngjast eðlilega, búin að losna við guluna sem hann fékk snert af í byrjun og sefur vel enn sem komið er og lítið annað sem við getum kvartað undan varðandi foreldrahlutverkið annað en brjóstagjafavesenið.

Við þökkum kærlega fyrir allar góðar kveðjur sem okkur hafa borist, bæði hér á blogginu, með símtölum, sms-um og annarskonar "sendingum" hingað heim á Sandhamnsgötuna. Posted by Picasa

21 ágúst 2005


Hilmir Viktor Stangeland,
Kom í heiminn 20.8.2005 kl. 20:50
3700 gr, 52 cm.

20 ágúst 2005

Á leið á spítalann í morgunsárið

Væntanlega seinasta færslan hér í bili þartil hægt er að færa (vonandi) stórgóðar fréttir :) Mamma og Ragga voru báðar búnar að spá því að þetta færi af stað hjá mér í nótt og sú spá stóðs... vaknaði við að vatnið fór um kl. 1 og eftir símtal við fæðingardeildina og ráðfæringar við ljósmóðurina var okkur ráðlagt að vera heima við í nótt og koma í tékk núna kl. 8 um morgunin. Nóttin er búin að vera furðanlega góð miðað við stöðugar hríðir á 4-10 mínútna fresti og við höfum bæði náð að sofna í þessar örfáu mínútur sem gefast á milli. Tíminn semsagt liðið hratt og ég hef geta verið alveg sallaróleg og örugg með gang mála.
Hlakka til að koma með ítarlegri fréttir og vonandi mynd fljótlega !!
Knúsar til allra sem þetta lesa :)

19 ágúst 2005

Einhvað að gerast ?!

Vaknaði í nótt með verki sem ég get núna flokkað sem sterka "fyrirvaraverki". Þeir byrjuðu á ca 10 mínútna fresti og voru reglulegir en svo fór að lengjast á milli og eru núna algjörlega óreglulegir og óútreiknanlegir. Hef verið með samdrætti síðan á 36. viku sem lýsa sér í grjótharðri kúlu... en verkjalausri þó. Gat þessvegna alveg greint muninn á þeim verkjum og þessum þegar þeir komu þarna kl. 4 í nótt.

Ákvað eftir umhugsun að skella mér bara í vinnuna og sjá til hvernig mér liði í dag og hvort þetta ágerðist einhvað að ráði. Veit að svona fyrirvaraverkir geta staðið í marga marga daga þannig að ég var að reyna að æsa mig ekkert alltof mikið yfir þessu. Er allavega búin að afskrifa það gjörsamlega að vinna næstu viku einsog ég var búin að ákveða að ætla að reyna að gera. Formlega fæðingarorlofið byrjar hvort eð er á mánudaginn og ég ætlaði bara að reyna að lauma inn nokkrum "aukadögum" í plús ef mér liði vel. EF ekkert almennilegt gerist um helgina væri þessvegna vit í að nýta þá dagana í næstu viku til hvíldar og orkuppsöfnunar fyrir ATBURÐINN mikla ;)

15 ágúst 2005

Allt að smella saman

Helgin fór í últrashoppingferð í Babyland, keyptum þar allt þetta smá- og stórdót sem við vorum búin að vera að geyma að kaupa þartil núna; baðbala, rúmdýnu, skiptiborðsplast, pissulak, nebbasugu, regncover fyrir vagninn .... og sóttum í leiðinni væntanlega síðustu "notað og ódýrt" kaupin í bili; ömmustól á 300 kall, nær ónotaðan.
Átti von á að fá tíma í vaxtarsónar í dag, þarsem á fimmtudaginn var ljósmóðirin á miljón að reyna að finna tíma daginn eftir eða strax eftir helgi.... svo tala ég við hana áðan og þá gefur hún mér tíma á SUNNUdaginn kl. 19 ?! Skil ekki alveg hvaða gagn sónarinn á að gera svona stuttu fyrir áætlaðan fæðingardag en þetta gæti þá gefið frekari ástæðu til gangsetningar EF bingóstrákur er risastór eða útséð er að ég ætli að fara að ganga langt frammyfir áætlaðan dag. Sit þá bara róleg og klappa mína "grótesk" stóru bumbu (fékk að heyra það á föstudaginn að miðað við að horfa aftaná mig og að ofan þarsem ég liti "ekki ólétt" út... þá væri bumban framaná GRÓTESK stór. Fyndið orð ;)
Annars er semsagt bara flestallt klappað og klárt; flest öll barnafötin þvegin og reddí, taskan góða sem ég ætla að taka með á spítalan stendur tilbúin til áfyllingar (nei, ég er ekki byrjuð að pakka í hana ennþá!), allt komið í hús og við eigum bara eftir að sækja vagninn og barnabílstólinn oní geymslu.
Svo er bara spurning hversu hægt eða hratt dagarnir frammað fæðingu líða !!

11 ágúst 2005

Stórabumba Beggu


Enn og aftur mælist ég með lítillega yfir "meðallag efri marka" bumbu sem þýðir vaxtarsónar númer tvö í boði mæðraverndarinnar væntanlega á mánudaginn ;) Seinast var ég send í svona þegar haldið var að ég væri með sykursýki því þá var bumban líka aðeins yfir meðallagið miðað við meðgöngulengd..... en allt var í fínu með bingóstrák sem var akkúrat passlega stór... ég hlýt bara að hafa svona einstaklega aðlögunarhæft leg sem gerir sitt besta til að búa vel um krílakroppinn og hafa nóg pláss ! *fliss*
Annars var allt í góðu einsog venjulega í mæðraskoðuninni og blóðsykurinn hlægilega lár miðað við sykur-cravingið sem ég er búin að vera að þjást af; er með ÆÐI fyrir kexi, kökum og kaffibrauði. Kannski líkaminn bara þurfi á þessu að halda ? Eða kannski finnst mér 2-3 kexkökur eða 1 mínímuffins á dag vera ofneysla miðað við að þetta sé ekki einhvað sem ég leyfi mér svona dags daglega ? Kannski mar fari frekar að hafa áhyggjur þegar neyslan er komin uppí "pakka á dag" :)
Posted by Picasa

09 ágúst 2005

Öll hin litlu börnin á fæðingardeildinni

Er búin að vera mikið að dunda mér við að skoða nýfædd börn (myndir) og fæðingarfrásagnir annara kvenna. Gaman svona þegar maður er farin að spekúlera í því hvernig bingóstrákur eigi eftir að líta út... hverjum hann eigi eftir að líkjast meira/mest og allt þetta klassíska. Það sem ég sjálf hlakkar mest til að sjá er hvort hann verði með HÁR ! Ingó megin er hárleysið ríkjandi en lubbinn er það hinsvegar mín megin. Var einmitt í klippingu í gær og Elín "frissan" mín (frisör = hárgreiðslukona) heimtaði að ég kæmi með hann til hennar í snyrtingu í framtíðinni ef hann reyndist með lubba :)
Uppáhalds nýfæddrabarnasíðan mín er að sjálfsögðu "Baby Online" sem er síða Danderyd spítalans, þess sem ég kem til með að fara á, þarsem nýbökuðum foreldrum býðst að birta myndir af litlu krílunum sínum til að sýna ættingjum og vinum online ;) Bingóstrákur verður þarna væntanlega von bráðar !!

07 ágúst 2005

Tímamót; árs brúðkaupsafmæli


Umrædd herragarðshelgi á Krusenberg var algjört æði ! Byrjaði á inntékkun á hótelinu, fórum svo í smá göngutúr og enduðum með "afternoon-tea" á herragarðinum. Það var sko frænkukaffi af bestu gerð með nýbökuðum skonsum, heitu kakói og kökum bornum fram með rjóma. Eftir það áttum við pantaðan tíma í sitthvort klukkutíma heilnuddið sem yndisleg kona að nafni Jeanette framkvæmdi á okkur. Við vorum svo ánægð með umhverfið sem nuddið fór fram í.... í sér "bryggju"húsi rétt hjá herragarðinum sem var einsog risastór kósí sumarbústaður með útsýni yfir Mälaren (vatn). Þarna gat maður legið hálfnakin í nuddinu, með opna gluggana og heyrt í vatninu slettast letilega uppvið bryggjuna fyrir utan... algjör unaður. Um kvöldið var svo þriggja rétta gourmet-dinner í æðislegu herragarðsumhverfinu og eftir það hafði okkur boðist að fá lánað bryggjuhúsið sem við þáðum og fengum okkur "kvöldölið" þar áður en við steinsofnuðum eftir æðislegan dag. Tókum þessa mynd í bryggjuhúsinu ... ekki margar myndirnar til af okkur BÁÐUM þessa dagana :)

Posted by Picasa

03 ágúst 2005

Lítið gerist og samt líður tíminn

Nánast ekkert að "frétta" frá mér og kúlunni þessa dagana.... við hjónin sitjum eiginlega bara og horfum á bumbuna hefast einsog deig (stækka enn frekar) og endurtökum setninguna hvort við annað; "nú fer þetta að fara að verða búið".
Allskyns tilfinningar sem fylgja þeirri setningu... tilhlökkun, eftirvænting, spenningur, og að lokum tregi og eftirsjá eftir þessu ágæta tímabili þarsem við höfum geta gælt við bumbuna og ímyndað okkur hvernig hann þarna inni lítur út og hverskonar persónuleiki hann á eftir að verða! Annars erum við frekar raunsæ og erum ekkert að sjá fyrir okkur einhvað englabossabarn sem gerir ekki annað en sofa og ropa pent eftir áfallalausar brjóstagjafir.... búumst frekar við örlítið erfiðum fyrstu vikum og mánuðum þarsem við þurfum að venjast nýjum aðstæðum og einstaklingi.

Reynum þessvegna að nýta okkur hverja stund til að NJÓTA. Njóta þess að sofa út, borða góðan mat bæði í einu, lesa bækur og blöð fyrir svefninn einsog okkur lystir, hanga í tölvuleikjum (Ingó) eða horfa á heimskulega sjónvarpsþætti (ég)... og hápúnkturinn á þessum síðustu nautnadögum verður núna um helgina þegar við förum á "Herragarðshelgi" á Krusenberg Herrgård rétt fyrir utan Stokkhólm að halda uppá árs brúðkaupsafmælið okkar :) Þarna eigum við bókað klukkutíma nudd, þriggja rétta kvöldverð, hótelnótt á herragarðinum og morgunverðarhlaðborð sem er víst engu líkt. Veit eiginlega ekki hvort mig hlakki meira til að vera nudduð í heila klukkustund eða borða allan þennan góða mat með eiginmanninum !!