Litli og stóri... Hilmir og Valtýr

29 janúar 2011

Veit ekki nema á sé reynt


Valtýr er farin að hafa gaman af þessu með "oní" og "uppúr". Voða gaman að troða kubbunum í gatið og heyra þá detta oní dallinn. Auðvitað tekst það ekkert alltaf. Kannski ekki rétti kubburinn, rétta gatið eða rétti hallinn settur á kubbinn í aðkomunni.
En svo varð ég vitni að þessu (sjá neðri mynd). Hló svo mikið að myndin varð skökk. Hann lét reyna á þetta vel og lengi... hvort að staflturninn kæmist kannski oní gatið. Ég meina... flestallt annað kemst þarna oní ! ;)
Posted by Picasa

25 janúar 2011

Minnstasti leikskólastrákurinn okkar

Í dag var fyrsti leikskóladagurinn hans Valtýs. Verð að viðurkenna að sú lífsreynsla toppaði næstum því daginn sem við komum með Valtý heim af fæðingardeildinni ;) Finnst alveg óhemju stutt síðan ég sat inná sömu leikskóladeild, með sömu fóstrunni að gera sama hlutinn með Hilmi þegar hann var 2gja ára. Þá var hann að vísu búin að vera á hinum leikskólanum, niðri í bæ, frá 1 árs aldri. Aðlögunin var nú samt keimlík þessari í dag.

Og bara þessi minning. Að berjast við að fá Hilmi til að sofna í hvíldartímanum, sem hann vildi alls alls ekki heldur grét og vesenaðist sem mest hann mátti. En Valtýr sofnaði á innan við þrem mínútum án stærri vandræða svo ég gat læðst í burtu og fengið mér kaffibolla með hinum foreldrunum.
Að skipta svo um bleyju á stóra skiptiborðinu þar sem þeir báðir heillast af stjörnuóróanum í loftinu. Reyndu báðir að opna grindverkið sem lokar af deildina frá restinni af leikskólarýminu, án árangurs. Gleyma sér í öllu nýja dótinu, plokka niður allar myndir sem festar eru upp með kennaratyggjói og gúffa í sig hádegismatinn með bestu lyst. Fara svo heim sælir og ánægðir í lok dags. Leikskólastrákar á Igelbäcken.
Allt með þriggja ára millibili :D Er tíminn svona afstæður ?

20 janúar 2011

Valtýr tönnslutröll


Já hvaða óargadýr er nú þetta ? Allavega nógu margar tennur til að geta hrætt úr manni (móður)lífið. Fegin allavega að vera ekki lengur með hann á spena ! ;)
Valtýr er að verða vel tenntur enda getur hann núna tuggið í sig kex á millisekúndu, brutt perubita án vandræða og opnað box og dósir með loki hikstalaust.
4 uppi og 4 niðri eru þær orðnar.

Posted by Picasa

Verðandi skólastrákur !

Hér gefur á að líta Hilmi í væntanlega-verðandi skólanum sínum. Sá heitir Igelbäcksskolan og er hérna í hverfinu okkar. Steinkastsfjarlægð frá Igelbäcksförskolan sem hann er búin að dveljast á undanfarin 3 árin. Það var nefnilega boðið uppá heimsóknarkvöld í gær þar sem foreldrar og börn fengu að koma og kíkja á það sem væri í vændum. Börnin fengu að spreyta sig í allskonar föndri og þrautum, danshreyfingu og svo boðið uppá pulsur og djús.
Hilmi fannst þetta allt mjög spennandi og tók föndurverkefnið afskaplega alvarlega. Þarna sést hann vera að búa til hús úr þríhyrning ofl.

Hann er alsæll yfir tilhugsuninni að vera að fara í skóla. Á þarna eftir að hitta marga góða vini úr leikskólanum sínum sem byrjuðu í skólanum fyrir ári síðan.
Posted by Picasa

07 janúar 2011

Valtýr 11 mánaða

Valtýr formlega orðin 11 mánaða og tveim dögum betur en svo. Hann gengur hér um gólf daginn út og inn, hverfur oft úr augnsjón smástund og kemur svo tillbaka jafnharðan. Skoðar sig um, athugar hversu langt hann getur farið sjálfur áður en það verður pínu scary. En er semsagt eiginlega alveg hættur að skríða nema í undantekningartilfellum.

Hann vill helst borða sjálfur og allra helst vill hann borða okkar mat. Er voða flínkur að nota gaffal og þverneitar að nota plastsmekk. Alltof babylegt !?

Valtýr bætti tveim glænýjum framtönnum í neðrigóm við tannasafnið svo nú er hann samtals með 8 tönnslur í munni sér. Enda farin að borða epli einsog ekkert sé.

Hann spjallar mikið. Mest óskiljanlegt en það má greina úr eftirfarandi; mamma, pabba, datt, dudda, tetta (þetta) og takk.

Hann sefur ennþá tvisvar á dag en ef nætursvefninn lengist örlítið og við förum seint á fætur nær hann að endast á bara einum dagslúr. Og oftast sefur hann úti í vagninum sínum sem fær að standa í svalahurðaopinu svo rétt hitastig fáist (hér er oft -15 gráður útivið).

Eftir 18 stutta daga byrjar svo Valtýr í leikskóla ! Japp. Skrýtið.. mest fyrir mig og litla mömmuhjartað mitt sem finnst hann svo ogguskonsuponsu lítill. En einhverstaðar verður litlibróðir að vera meðan pabbinn vinnur og mamman fer á fyrirlestra í skólanum. En eflaust blessast þetta nú allt saman. Hilmi fannst allavega voða gaman á leikskólanum þegar hann byrjaði á sama aldri, rauk inn á hverjum degi og maður átti í mesta bastli við að ná honum heim í lok dags ! ;)

01 janúar 2011

Frumraun á sleða



Nýársdagur var nýttur í að gera einhvað nýtt. Allavega fyrir Valtý sem aldrei hefur fengið að prófa að sitja á sleða og láta draga sig. Honum fannst það að sjálfsögðu algjört æði og nýtti frelsið úr vagnaprísundinni til að skríða um í snjónum, klappa snjónum og smakka á snjónum ;)