Litli og stóri... Hilmir og Valtýr

24 september 2005

Drengurinn dafnar enn

Fórum í gær og hittum nýju ljósuna á ungbarnaeftirlitinu. Sú heitir Marie og er "allt önnur Ella" en sú sem við vorum með áður. Þessi sýndi mér vaxtarkúrfu Hilmis, spjallaði heillengi við mig og skoðaði hann, og var almennt áhugasamari um að leysa brjóstagjafavesenið, ekki bara útfrá því að guttinn væri að bæta á sig samkvæmt stöðlum og að þá væri ekkert vandamál, heldur að geta leyst þetta svo að vel gangi í framtíðinni... fyrir okkur bæði.
Það jákvæða við þetta allt saman er að Hilmir er enn að bæta á sig, komin uppí 4.600 grömm og orðin 56,5 cm á lengd. Furðulegt að á mánuði sé hann búin að bæta á sig næstum heilu kílói og 4,5 cm !!
Í þroskafréttum er það helst að við bíðum nú spennt eftir (sem við búumst við á næstu dögum/vikum);
- fyrsta alvöru brosinu, hingað til höfum við fengið svona óvart-bros sem við erum ekki viss um að séu gerð viljandi eða bara ósjálfrátt viðbragð hans við einhverju skemmtilegu.
- að hann "sjái" einhvað sem við sýnum honum. Núna starir hann jafn spenntur á vegginn einsog tuskubrúður... engin munur ;)
- að hann haldi höfði almennilega. Hefur verið að koma smám saman að hann er ekki jafn viðkvæmur og finnst langskemmtilegast að fá að vera á öxlinni á okkur þarsem hann getur lyft höfðinu og skoðað sig um. Maður tekur samt eftir því að stjórnin kemur smám saman hjá honum, farin að geta snúið höfðinu frá hægri til vinstri ef hann liggur niðri.

21 september 2005

Sviþjóð = BabyBjörn


Að sönnum Svíasið sköffuðum við okkur svona BabyBjörn burðardæmi. Höfum verið að smávenja Hilmi við að vera í þessari græju, hann er oftast ekkert rosa sáttur til lengdar að vera neyddur til að snúa svona frammá bringu á manni og sjá ekki hvert ferðinni er heitið. Þurfti að fara niður í þvottahús í dag (allt óhreint!) og smellti honum í björnin.... þegar ég kom upp var hann steinsofnaður ! Svona á þetta að vera ;)

Annars er það í fréttum að ég dreif í því að skipta um ljósu á ungbarnaeftirlitinu. Komst að því og fékk staðfest frá fagfólki sem sérhæfir sig í brjóstagjafaráðgjöf að það sem hún var búin að vera að ráðleggja mér var meira eða minna einhver endemis vitleysa enda vorum við komin í algjöran rembihnút varðandi gjafirnar og fjölda þeirra. Hringdi samdægurs í hana og óskaði eftir nýrri sem við förum að hitta á föstudaginn.... vona að sú henti okkur betur. Posted by Picasa

18 september 2005

I´m a mummy !


Vorum að átta okkur á því hversu rosalega margar myndir við eigum af Hilmi (og langflestar andlitsmyndir ýmiskonar)... og engar af OKKUR með mjólkurkálfinum okkar. Ætlum að reyna að snarbæta úr því !
Erum nýbúin að setja inn nýjar myndir á heimasíðuna okkar, uppsafnað frá fyrsta mánuðinum í lífi drengsins. Posted by Picasa

17 september 2005

Pabbabað


Ingópabbi fór með Hilmi í bað (þetta stóra!) í gærkvöldi.... held þeir hafi báðir notið þess í botn :) Ótrúlegt að sjá hvað stráksi slakar ofsalega á þegar hann kemst í færi við vatnið, minnir augljóslega á þessa 9 mánuði í mömmumalla ! Stefni á að fara með hann í ungbarnasund um leið og færi gefst og aðeins betri regla er komin á daglega lífið hjá okkur. Posted by Picasa

16 september 2005

Fjögurra vikna gutti


Ekki linnir vaxtarkippnum hjá Hilmi, var í skoðuninni í dag 4.370 grömm og 55 cm ! Loks tók ljósmóðirin mark á hversu mikið þessi stanslausa brjóstagjöf er að fara ílla með mig.... kannski ég hafi verið extra föl og skjálfandi í morgun ? Hamagangurinn hjá Hilmi er líka komin yfir "eðlileg mörk" því ekki nóg með að hann vilji drekka á klukkutíma fresti... nú vill helst drekka s-t-a-n-s-laust frá fimm á daginn til tíu um kvöldið þegar hann lognast útaf með fullan maga af mjólk. Ljósmóðirin gaf mér grænt ljós á að gefa honum þurrmjólk á kvöldin sem viðbót við brjóstagjöfina ásamt því að prófa minifoam dropa sem koma í veg fyrir magapirring. Tekur náttlega á svona lítin mallakút að drekka svona mikið. Posted by Picasa

08 september 2005

4 kg á þriðju viku

Fórum í dag í BVC (Barnvårdcentralen = barnaheilsugæsla) og hittum ljósmóðurina sem mældi og vóg Hilmi. Hann vex og dafnar, nánar tiltekið um 1 cm frá fæðingu og 300 grömm því nú er hann 53 cm á lengd og 4000 gr. Sprækur strákur á ferð og augljóslega enn að fá nóga næringu ;) Ljósmóðirin mælti sterklega með því að við kynntum hann fyrir snuddu og að ég reyndi að láta lengra líða milli gjafa. Hingað til hefur hann verið að biðja um brjóstagjöf á klst fresti, nánast hægt að stilla klukku eftir því. Það kallast víst að "intesív-amma(brjóstagjöf)" og á að vera eðlilegt í 3 sólarhringa hið mesta áður en fer að ganga á heilsu móður .... er komið í nærri 2 vikur hjá okkur !! Ekki furða þó ég sé orðin skugginn af sjálfri mér og komin langleiðina með að léttast niður í fyriróléttuþyngd.
Á morgun verður það semsagt harkan sex hjá okkur Hilmi; duddan fær að spila stórt hlutverk og lopinn teygður smátt og smátt þartil hann er komin uppí gjafir á 2gja tíma fresti hið minnsta.

Annars sýndi hann sínar bestu hliðar í dag, kíktum við niðrí vinnu þarsem hann lét fegurð og ljós sitt skína öllum til mikillrar gleði. Svaf svo bara vært í vagninum svo ég náði að borða hádegismat OG kíkja í búðir á leiðinni í og úr ljósuheimsókninni. Algjör sæla og vonandi til eftirbreytni :)

07 september 2005

Hilmir álfastrákur ?


Stundum... þegar maður er lítill... og er í annari stellingu með höfuðið en bara liggjandi endalaust... verða eyrun svoldið þung ;)
Samkvæmt öllum nýjustu upplýsingum á víst að vera gott fyrir börn að fá að vera smástund á maganum (æfir hálsvöðvana). Hilmir tók fyrstu æfinguna í dag í smástund..... og svona varð útkoman. Posted by Picasa

06 september 2005

Alein heima !

Dagur númer tvö hjá okkur Hilmi þarsem við erum "ein heima" (Ingó byrjaður aftur í vinnunni eftir 10 daga feðraorlof.... hann tekur svo fæðingarorlofið á eftir mér). Er ferlega skrýtið að vera svona ein og alveg ótrúlega bindandi ! Þurfti að finna upp hvernig hægt er að fara á klóið og ná sér í næringu án þess að litli kútur taki óánægjukast, Íris benti mér á ömmustólinn og núna situr Hilmir og starir á þvottakörfuna meðan ég smelli mér í 3gja mínútna sturtu :)
Óð út í djúpu laugina fyrir hádegi í dag þegar við fórum í STRÆTÓ niðrí VERSLUNARMIÐSTÖÐ í heilan klukkutíma ! Hilmir náttlega svaf allan tímann og ég svitnaði undir "cool" yfirborðinu og reyndi að bægja frá mér hugsunum einsog; hvað ef hann vaknar og vill láta skipta á sér/gefa sér/halda á sér ?! Horfði með öfundaraugum á allar hinar vagnamömmurnar sem kiptu sér varla upp við það þó organdi börnin grétu úr sér lungun. Vagninn var bara hristur meðan þær héldu áfram að versla. Hmmm... kannski ég verði svona cool´n confident eftir nokkrar vikur ?
En þetta var allavega góður byrjendatúr fyrir okkur :) Stefni á lengri ferð á fimmtudaginn þegar við ætlum í heimsókn niðrí vinnu OG fara í skoðun hjá ljósmóðurinni.

03 september 2005

Í fyrstu heimsókninni


Fórum í gærkvöldi í heimboð til Írisar og Óla. Þetta var í fyrsta skiptið sem við fórum í "alvöru" ferð að heiman (ekki bara útí búð eða stuttar skutlferðir) og það gekk svona líka bara glimrandi vel. Hilmir var ljúfur sem lamb allt kvöldið, gaf foreldrum sínum meira að segja sjéns á að njóta kvöldverðarins bæði í einu og sat einsog mynsturbarn í ömmustólnum hennar Emilíu. Líka ansi gott að fara í heimsókn þar sem fyrir er barn og því sem fylgir; skiptiborð, barnavagn, ömmustóll etc.
Á myndinni má sjá stollta feður með ungana sína. Ótrúlegt hvað það er stutt síðan við Íris vorum með mis-stórar óléttubumbur, núna eru það bara mis-stór börn :) Við fáum allavega góða mynd af því sem framundan er og ekki er langt að bíða eftir að Hilmir verði í svipaðri stærð og Emilía. Ekki nema 2 1/2 mánuður milli þeirra !Posted by Picasa