Litli og stóri... Hilmir og Valtýr

25 ágúst 2010

Valtýr á viktinni

Fór með Valtýr í 6 mánaða læknisskoðunina í dag. Hann er nátturulega löngu orðin 6 mánaða... og fer að styttast í 7 mánaða daginn... en vegna sumarfría þá varð svo úr.

Drengurinn er orðin rétt rúmlega 9 kg og um 70 cm. Fylgir sinni kúrvu alveg einsog línuritið segir til um. Og að sjálfsögðu stóðst hann öll þroskapróf; færa dót milli handa sér, brosa og hlægja, ásamt staðfestingu á að hann gæti bæðið setið og snúið sér liggjandi sjálfur.

Og tala ! Jájá, hann talar alveg helling. Eða.. "talar" (með gæsalöppum). Þessa dagana er það mikið "mamamamamama". Eitt heljarinnar mömmuákall. Eða bara hann að æfa sig á hljóðum. En að sjálfsögðu hlýnar mömmuhjartað sérstaklega við þessi áköll. Velgist svo örlítið aftur þegar ENGIN nema ég má svæfa hann eða halda á honum. Teygir út litlu handleggina sína og krefst þess að koma til mín. Ekkasog í hálsakot þegar hann kemst á áfangastað og vill helst sofna með svokallaðri handayfirlagningu þar sem hann vill láta höndina mína liggja yfir öllu andlitinu sínu. Fallegt og eðlilegt en pínulítið þreytandi til lengdar. Sérstaklega þegar það er Ingó sem er komin á fæðingarorlofs-vaktina og er nú umsjónaraðili númer eitt ;)

20 ágúst 2010

5 ára... FIMM !



Stórum áfanga náð í dag. Hilmir loksins loksins LOKSINS orðin 5 ára gamall. Komin uppí heila hendi með alla fíngur útglennta þegar telja á árin. Og finnst hann vera voða fullorðin þessa dagana. Ábúðarfullur og íhugull. Og ekkert smábarn lengur. Sem sannast best í því að eftir mikla umhugsun um hvað ætti að vera í "afmæliskvöldmatinn" þá ljómaði hann einsog sól í heiði þegar hann komst að því að það gæti verið sushi í boði. Jááá ! Suuussshiii !!
Eins og sést á myndinni gefst hann ekkert upp við prjónanotkunina. Sem er nógu flókin fyrir flesta fullorðna. En hann ræður býsna vel við þetta og náði að borða heila máltíð með réttu tólunum.
Pakkar sem opnaðir voru í dag innihéldu meðal annars risastórt Legó-StarWars geimskip, Ben 10 þyrlu og Ben 10 fígúruna sjálfa ásamt bók um Kugg í útileigu sem lesin var (með miklum tilþrifum) fyrir háttatímann.
Á morgun verður svo heljarinnar afmælisveisla með Spiderman þema og hellings helling af kökum. Eins og venjulega var Hilmir með ákveðnar óskir um afmælisköku sem að sjálfsögðu var tekið fullt tillit til. Myndir verða birtar innan skamms ;)

18 ágúst 2010

Rólupróf


Það var sko megaróludagur tekin um helgina þegar við fórum í gamla góða Tessingparken á Östermalm/Gärdet þar sem við bjuggum áður en við urðum Kista-fjölskyldan.
Valtýr fékk að frumreyna að sitja sjálfur í rólu og líkaði það alveg stórvel. Held það hafi nú samt verið meira gaman að vera í stórurólunni hjá pabba ;) Meira hægt að príla þar nefnilega...







17 ágúst 2010

Skansendagur





Við ákváðum að byrja "heimavikuna" okkar með stæl og skelltum okkur á sólríkum mánudagsmorgni útá Skansen. Þar beið okkar hádegisverðarhlaðborð, apar, birnir og ugglur. Ekki slæmt það !

Verð að taka fram að á hádegisverðarhlaðborðinu voru nú engin dýr annað en þau venjulegu sem finna má í áleggi og kjötbollum... býsna gott og ekki var nú veitingastaðurinn af verri gerðinni. Þar sem við sátum og nutum matarins í fallegu umhverfi með alveg æðislegt útsýni áttuðum við okkur á því að þetta væri fyrsta alvöru veitingahúsaferð Valtýs. Hann hagaði sér alveg óhemju vel einsog vera ber þegar maður er vel upp alin 6 mánaða gaur. Japlaði á brauðsneið, lék sér að dóti, nöldraði örlítið þartil hann fékk nýja bleyju og pelasjúss.. og sofnaði svo súpersáttur í vagninum sínum meðan við hin gæddum okkur á eftirréttum.

Svo rölltum við um og skoðuðum dýrin sem flestöll voru frekar löt við að láta sjá sig. Selirnir voru í feluleik, birnirnir sváfu á sínu græna, ugglan snéri baki í mannfólkið... og svo framvegis. En samt höfðum við nú ánægju af enda margt annað að sjá á leiðinni. Hápúnkturinn var nú samt apahúsið. Þar getur maður gengið í gegnum lemúrabúrið og fengið að sjá þá MJÖG nálægt enda eru þetta forvitnir apar með meiru. Ég gekk þarna á eftir Hilmi og endurtók þúsund sinnum það sem staðið hafði á skiltinu á leiðinni inn; "ekki snerta!, ekki snerta!". Frekar erfitt því það er svooo freistandi að rétta fram höndina og taka þessa krúttlegu litlu lemúra í fangið. En við höfðum hemil á okkur.. bæði tvö ;)

















10 ágúst 2010

Síðustu og fyrstu dagar

Er að nálgast tímamót í lífi okkar ; þar sem Valtýr er orðin 6 mánaða gamall verða þáttaskil í ummönnun hans í næstu viku. Ingó fer í fæðingarorlof og ég að byrja að undirbúa lokahnykkinn í náminu. Alveg hreint ótrúlegt að hugsa til þess að ég sé búin að vera heima með hann í hálft ár og vel það. Tíminn hefur liðið einsog hendi hafi verið mis-kæruleysislega veifað.
Fyrsta vikan á þessu nýja tímabili verður dulítið sérstök því við höfum ákveðið að bæta aðeins við sumarfríið okkar og hafa "heimafrí" ! Hilmir tekur sér viku leikskólafrí og við ætlum að nýta tímann til að gera saman hluti sem ekki hafa náðst á heimavelli þetta árið; fara á Skansen, Gröna Lund og ef til vill í smá útsýnisbátsferð líka. Varla hægt að búa hér í á áttunda árið án þess að fara í alvöru útsýnisbáta- eða strætó ferð um borgina ?!

Annars er það í þroskafréttum af Valtý að hann er nú komin skrefi nær skriðtækninni. Getur núna rúllað sér í allar áttir og brölltir sér áfram með tánum (skýtur undir sig hnjánum svo rassinn stendur beint uppí loft) ef það er einhvað framundan sem honum langar virkilega í. Vantar bara uppá styrkinn í handleggjunum og þá er hann lagður af stað!
Hann nýtur þess í botn núna að vera í göngugrindinni sinni og uppáhalds leikstaðurinn í henni er inni hjá Hilmi. Þar nær hann í næstneðstu dótahilluna þar sem lögð hafa verið smábarnaheld leikföng sem hann fær að skoða/naga/sjúga/berja í einhvað. Hilmi finnst voða spennandi að hafa hann inni hjá sér og finnst nú loksins farið að nálgast aðeins að þeir geti "leikið saman". Sjáum til hvernig hljóðið verður í kallinum eftir nokkra mánuði í viðbót þegar tætingurinn fer í hámark ! ;)
Við kíkjum uppí góm á drengnum annanhvorn dag til að fá útskýringar á röflinu í honum. Hann nefnilega grætur sjaldan þessi litli úngi en nöldrar þeim mun meira. Oft með háværum röfltónum svo minnir á alþingisumræður. En þetta gætu svosum alveg eins verið raddæfingar hjá herranum. Háværar eru þær allavega. Helga amman spáir því að hann verði söngvari. Við spáum áframhaldandi röfli....

09 ágúst 2010

Hilmir löggumann

Hilmir á augljóslega bjarta framtíð fyrir sér hjá lögregluembætti Stokkhólmsborgar. Allavega smellpassar löggubolurinn og svo tekur hann sig hrikalega vel út í honum ;)