
Hilmir kann núna fingranöfnin. Náttlega bæði á íslensku og sænsku. Þumalfingur (tummen) og litlifingur (lillfinger) komu fyrstir í fattarann og hinir þrír fengu að vera "langatöng". Svo eftir dálitla æfingu kom baugfingur, langatöng og vísifingur. Allt með tilheyrandi minnisleikjum einsog "sjáðu.. það er hringur (baugur) á baugfingrinum hennar mömmu" og "híhí.. vísifingur er að benda á þig..".
Eina sem hann ruglast ennþá á er þetta með spegilvendinguna á höndunum. Hann vill stundum meina að röðin sé sú sama þegar kemur að næstu hendi. Merkilegt að sjá hvernig heilinn á barni virkar. Honum finnst þetta svo órökrétt og ósanngjarnt. Hann leggur þá semsagt á minnið samkvæmt fyrirfram upplagðri vísu sem hann er nýbúin að þylja fyrir sjálfan sig en ekki endilega á því hvernig fingurnir líta út. Allavega ekki á hendi númer tvö því hann ruglast aldrei á fyrstu hendi ! Bráðskemmtilegt finnst mér ;)
Miðað við lærdómshraðann í þessum svampaheila í barninu er ég viss um að þetta verði horfið í næstu viku !